25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Haraldur Guðmundsson:

Jeg get í sjálfu sjer verið þakklátur hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K. fyrir skraf þeirra um þetta mál, því að óhætt má fullyrða, að ekki meira en 1/5–1/6 hluti þess, er þeir færðu fram, snerti málið sjálft. Sýnir það, hversu rökþrota þeir eru. Hv. 1. þm. Reykv. fór í einskonar biðilsbuxur og ljet líklega í ræðu sinni við jafnaðarmenn um samvinnu við þá um að breyta kjördæmaskipuninni. Mjer fer nú eins og saklausum sveitastúlkum, sem óvanar eru biðlum; þær verða oft feimnar og vita varla, hvernig þær eiga að taka bónorðinu. En á eitt vil jeg þó minna háttv. þm., sem nú hrópar á hjálp okkar jafnaðarmanna til að leiðrjetta kjördæmaskipunina. Hvers vegna reyndi hann ekki að leiðrjetta þetta meðan sá flokkur, sem hann telst til, hafði meiri hluta í þinginu? Þá hefði honum átt að vera innan handar að koma því fram. Eftir því, sem nú hefir komið fram í deildinni, þá má vænta þess, að frv. þetta muni sigla hraðbyri í gegnum þingið. Tveir hæstv. ráðherrar hafa lýst yfir fylgi sínu við það. Hv. 2. þm. G.-K. ætti samkvæmt þeirri kenningu sinni, að íhaldsmönnum sje stöðugt að fjölga í Hafnarfirði, að vera með því. Hans flokkur ætti þá að eiga þar trygt sæti. Við jafnaðarmenn erum líka ánægðir, því að við þykjumst eiga þar trygt sæti í framtíðinni.

Hvort sem litið er á þetta mál frá sjónarmiði atkvæðafjölda eða atvinnuhátta, þá er skiftingin rjettmæt. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru kjósendur aðallega smærri land- og sjávarbændur, en í Hafnarfirði mestmegnis verkafólk, stærri atvinnurekendur og kaupsýslumenn.

Jeg get mint á eitt dæmi, sem sannar þetta ljóslega, en það eru ræður þeirra núverandi forsrh., þm. Borgf. og fyrverandi þm. G.-K., Ágústs Flygenrings, um landhelgigæsluna o. fl. þar að lútandi, og vísa jeg um það til þingtíðindanna. Í þeim ræðum kemur ljóslega fram, að hagur smærri útgerðarmanna fer ekki saman við hag þeirra stærri.

Jeg er ekki trúaður á það, að Íhaldsflokkurinn breyti svo um líferni og háttalag, að honum auðnist nokkru sinni að fá meiri hluta í Hafnarfirði, þótt hæstv. forsrh. af hæversku ljetist vera það. Jeg trúi því ekki. En frv. þetta er spor í þá átt, að bæta úr bersýnilegum órjetti. Því er rjett að samþykkja það. Síðar má svo tala um það í ró og næði, hvert skuli vera næsta sporið, því að kjördæmaskipunin er óviðunandi eins og hún nú er.