08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Bernharð Stefánsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. meiri hl. með fyrirvara. Jeg hefi altaf verið því meðmæltur, að Hafnarfjörður yrði sjerstakt kjördæmi, og það er jeg enn. En að jeg hefi sjerstöðu í þessu máli, er af því, að jeg get hugsað mjer aðra lausn þessa máls en þetta frv. gerir ráð fyrir. Jeg vil því ekki skuldbinda mig til að leggja á móti hvaða breytingum, sem fram kunna að koma, ef aðalatriði frv. helst. Grundvöllur kjördæmaskipunarinnar hjer hefir altaf, síðan Alþingi var endurreist, verið hjeraðaskipunin, þannig að hver sýsla og hvert sjerstakt bæjarfjelag hefir fulltrúa á Alþingi, einn eða fleiri. Frá þessu eru aðeins 2 undantekningar: Hafnarfjörður og Siglufjörður. Mjer hefði því fundist eðlilegasta lausnin á þessu máli sú, að þessir tveir kaupstaðir fengju sinn þingmanninn hvor, og þingmönnunum væri þannig fjölgað um tvo. Jeg játa þó, að þingstarfanna vegna þurfi ekki að fjölga þeim, en til þess að veita þessum kaupstöðum sjálfsagða rjettarbót, þá finst mjer þetta gerlegt, og einfaldast a. m. k. til bráðabirgða. Og þó að þingmenn yrðu nú 44, þá er það ekkert meira en þegar þeir voru 40 1904, samanborið við fólksfjölda; þjóðinni hefir fjölgað það síðan.

Jeg myndi nú flytja brtt. í þessa átt, ef jeg hefði nokkra von um, að hún næði fram að ganga. Í þessu er fyrirvari minn fólginn.

Þó að sú lausn málsins fáist ekki, sem jeg kýs helst eins og nú standa sakir, þá sje jeg enga ástæðu til að hefnast á stærsta kaupstað landsins fyrir það, og tek því það næstbesta. Háttv. frsm. minni hl. sagði, að ekkert hefði komið fram, sem rjettlætti það, að Hafnarfjörður fengi sjerstakan þingmann. Þetta er ekki rjett. Jeg sje ekki annað en sama ástæða sje fyrir hann að fá sjerstakan þingmann eins og öll önnur hjeruð. (HK: Hefir Siglufjörður liðið við það, að hafa sama þingmann og Eyfirðingar?). Já, því býst jeg við. Jeg tel mig að minsta kosti ekki svo mikinn Siglfirðing, að kunnugur maður, búsettur þar, myndi ekki geta unnið kaupstaðnum meira gagn en jeg, ef hann sæti á Alþingi. En hvað sem þessu líður, þá játa jeg, að það standi þó nær, að Hafnarfjörður fái sjerstakan þingmann, þar sem hann er töluvert stærri.