08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Það er rjett, sem sagt hefir verið hjer í deildinni, að þetta mál sje þegar orðið svo rætt, að þess sje ekki að vænta, að í því komi fram ný rök. En jeg fann þó ástæðu til að kveðja mjer hljóðs, sökum þess, að því hefir verið haldið fram, að skiftingin væri fram borin fyrir sameiginlegar óskir kjósenda í Hafnarfirði. Það hefir verið venja að skifta ekki kjördæmum eins og hjer er farið fram á, nema sameiginlegar óskir aðilja væru fyrir hendi. En hjer liggja fyrst og fremst fyrir mótmæli frá sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem ekki verður móti mælt. Þeir hv. þm., sem horfið hafa að skiftingunni, hafa gert það, að því er mjer virðist, fyrir það, að jafnaðarmenn telja hana óskift áhugamál allra Hafnfirðinga. Þessari staðhæfingu hefi jeg leyft mjer að mótmæla. Jeg og fleiri telja skiftinguna aðeins hagsmunamál jafnaðarmanna, þar sem þeir eru að reyna að ná öðru þingsætinu frá bændakjördæminu til handa sjer sjálfum. Jeg skal alls ekki fullyrða, að meiri hluti kjósenda í Hafnarfirði kunni ekki að vera með henni, en allir eru þeir það ekki, eins og ýmsir hafa orðið til að fullyrða, þrátt fyrir mótmæli mín. Nú hefir það nýtt gerst í þessu máli, að kjósendum í Hafnarfirði hafa borist til eyrna þessar fullyrðingar jafnaðarmanna. Hefir þá því brostið þolinmæðin, svo þeir telja sig ekki lengur geta setið hjá. Hafa þeir nú sent til Alþingis svo hljóðandi yfirlýsingu: „Oss hefir borist til eyrna, að því hafi verið haldið fram á hinu háa Alþingi, að það sje sameiginleg ósk allra kjósenda í Hafnarfirði, að Gullbringu- og Kjósarsýslu með Hafnarfirði verði skift í tvö kjördæmi, þannig að Hafnarfjarðarkaupstaður verði sjer kjördæmi og kjósi einn þingmann, en Gullbringu- og Kjósarsýsla kjósi aðeins einn þingmann. f tilefni af þessum staðhæfingum lýsum við undirritaðir kjósendur í Hafnarfirði því yfir, að við óskum heldur, að það skipulag haldist, sem nú er, en að framangreind skifting kjördæmisins verði lögfest“. Þessar óskir eru undirritaðar, að jeg hygg, af nokkuð á fjórða hundrað kjósendum, og mjer er sagt, að svo fremi, sem það hafi þýðingu í þessu máli, að enn sje bætt við undirskriftirnar, þá sje fljótlega hægt að fá til viðbótar allálitlegan hóp kjósenda; en jeg hefi sagt forgöngumönnunum, að þess gerist ekki þörf. Jeg tel það ekki skifta miklu máli, hvort mótmælin eru undirrituð af 3 eða 6 hundruð kjósendum. Þetta nægir til þess að sýna fram á, að það eru ekki allir kjósendur í Hafnarfirði sammála um að óska eftir skiftingunni, eins og jafnaðarmenn hafa leyft sjer að halda fram.

Jeg vænti nú, að framsóknarbændur þessarar deildar, að fenginni þessari yfirlýsingu, hugleiði vandlega þau rök, sem fram hafa verið færð gegn þessari skiftingu: Að sýslunefndin hefir mótmælt henni, að stór hópur kjósenda hefir borið fram þær óskir til þingsins, að það skipulag fái að haldast á kjördæminu, sem nú er. Og síðast en ekki síst, að það hefir verið föst venja í þinginu að láta slíka skiftingu sem þessa ekki fara fram, nema með samþykki allra aðilja. Jeg treysti því fastlega, að framsóknarbændurnir láti jafnaðarmenn ekki tæla sig í þessu máli.

Þá verð jeg að snúa mjer með nokkrum orðum að háttv. 2. þm. Eyf. Jeg verð að segja, að ræða hans var mjer mikil vonbrigði, því eftir henni lítur út fyrir, að Framsóknarflokkurinn hafi gert að flokksmáli hjá sjer að skerða bændavaldið í landinu. Í ræðu, sem þessi háttv. þm. flutti á þinginu 1926, telur hann ósanngjarnt, að Gullbringu- og Kjósarsýsla hefðu aðeins einn þingmann, ef Hafnarfirði yrði skift úr. Ræða þessi er prentuð í C-deild Alþt. frá því ári. Og með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa ræðu þessa upp, og skal gæta þess að slíta ekkert úr samhengi. Hv. þm. farast m. a. þannig orð: „Jeg sje ekki, að það sje sanngjarnt, samanborið við önnur kjördæmi, að þegar Hafnarfjörður er skilinn frá, kjósi Gullbringu- og Kjósarsýsla aðeins einn þingmann, en t. d. Rangárvallasýsla tvo“. Hjer segir þessi háttv. þm., að það sje ekki sanngjarnt að samþ. frv., sem var alveg orði til orðs eins og frv. það, sem hjer liggur fyrir. Þá segir hann ennfremur. „Jeg skal að vísu játa, að þingstarfanna vegna mun engin þörf vera á fjölgun þingmanna“. — Þá er þriðja staðhæfingin: „En það er annað, sem ekki er sanngjarnt, ef frv. er samþykt óbreytt, nefnilega það, að Gullbringu- og Kjósarsýsla hefði þá aðeins einn þingmann eftir“. Og loks segir hann: „Ef háttv. flm. (JBald) hefði flutt málið á þeim grundvelli, að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi án þess að taka með því annan þingmanninn af Gullbringu- og Kjósarsýslu, þá hefði jeg hiklaust rjett honum hönd“.

Það er auðsjeð, að það hefir verið sanngjarnt hugarfar, sem stjórnaði tungu þessa hv. þm., er hann flutti þessa ræðu. Og svo, til þess að þingdeildarmenn skuli ekki halda, að hann sje að fara með fleipur, þá nefnir hann sem dæmi, að Rangárvallasýsla megi ekki kjósa tvo þingmenn, ef Gullbringu- og Kjósarsýsla fái ekki nema einn. Svo endar hann ræðu sína með því að segja, að hann gæti fylgt frv., ef því yrði breytt í það horf, að Gullbringu- og Kjósarsýsla fengju að hafa sína tvo þm., en Hafnarfjörður fengi einn. Jeg hefi lagt svona mikla rækt við þessa hlið málsins, af því að mjer þykir leitt, að jafnmætur maður og háttv. 2. þm. Eyf. er skuli ekki geta staðið við skoðun sína frá ári til árs.

Að endingu vil jeg leyfa mjer að vænta þess, þrátt fyrir atkvgr. við fyrri umr. þessa máls hjer í deildinni, þá láti háttv. framsóknarmenn þessar nýju upplýsingar hafa áhrif á atkvgr. sína nú, þar sem það er sannað, að óskiftur vilji allra kjósenda í Hafnarfirði stendur ekki að skiftingu þessari, eins og sumir háttv. þm. hafa leyft sjer að halda fram.