08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2991 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Hákon Kristófersson):

Hv. þm. Ísaf. benti á það meðal annars, að báðir núverandi þm. G.-K. sætu í fullri óþökk við meiri hluta kjósenda í Hafnarfirði. Jeg skal leiða hjá mjer að svara þessu; jeg ann honum sæmdarinnar af þessum ummælum, ef hún er nokkur.

En hann vjek fáeinum orðum að því, sem jeg hafði sagt um þetta mál. Hann hefir sjálfsagt ekki heyrt það, sem jeg sagði, því að hann fór þar rangt með. Jeg sagði, að það hefðu mjer vitanlega engin rök verið færð að því, að Hafnfirðingar fyndu til þrengingar af því að hafa þá tvo háttv. þm., sem nú eru þm. alls kjördæmisins. Þannig fjellu orð hjá mjer. Og jeg verð að segja það, að mjer þótti það leitt, að hann skyldi finna ástæðu til þess að slá sig til riddara yfir mjer með þeim ummælum sínum, að það dygði ekki altaf góður vilji til þess að „lappa upp á setningar mínar“; jeg kæmi svo illa orðum að hugsun minni. Mjer finst, satt að segja, þessi ummæli minna frekar á uppskafningshátt og dálítinn stráksskap en að þau sjeu sæmandi þm.

Hv. frsm. meiri hl. benti á það, að Íhaldsflokkurinn hefði engan vilja á því að laga kjördæmaskipunina; hans vilji væri einungis að beita menn og málefni ofbeldi í hvívetna. Þetta hefir nú verið svo margendurtekið af honum og hans skoðanabræðrum, að jeg sje ekki ástæðu til að kippa mjer upp við slíkt. En jeg skil ekki, að það sje að beita ofbeldi, að standa í vegi fyrir því, að jafnaðarmönnum sje fjölgað hjer á Alþingi.

Það kalla jeg að sýna rjettlæti og föðurlandsást, sem aldrei ætti að hverfa hjá neinum Íslendingi, sem ann landi sínu, að gera sitt ítrasta til þess að sporna við því, að þeim mönnum fjölgi á þingi, sem fullir eru af lýðskrumi, öfund og ranglæti gagnvart öllum og öllu nema sínum eigin hagsmunum.

Það vill oft verða svo, að þó að menn sjái flísina í auga bróður síns, gæta þeir ekki að bjálkanum í sínu eigin auga, og þeir menn, sem kasta steini að öðrum fyrir ofbeldi, eru ekki betri sjálfir, ef þeir geta eitthvað. Ætli það væri ekki væntandi ofbeldis af hv. 2. þm. Reykv., ef hann hefði þá þræði í hendi sjer, sem þarf til þess að fremja gerræði?

Hv. þm. komst að þeirri gullvægu niðurstöðu, að það væri mein Hafnarfjarðar, að hans skoðanir kæmust ekki að. En hv. þm. færði engin rök fyrir því, að hlutur Hafnarfjarðar hefði nokkurntíma verið fyrir borð borinn. Hv. þm. mintist á launaða smala. „Maður, líttu þjer nær, liggur í götunni steinn“, mætti segja í því sambandi. Jeg veit ekki betur en að á meðal þeirra manna, sem kalla sig jafnaðarmenn, hafi verið safnað mjög mörgum undirskriftum, og eflaust hefir það starf ekki verið ólaunað. (SÁÓ: Hvað á hv. þm. við?). Jeg vil virða minn kæra frænda þess að svara honum fljótt og vel. Jeg á við undirskriftirnar, sem safnað var vegna vökulaganna. En þeir, sem álíta sjer það sæmilegt að taka sjer dómsvald í hönd um, að hvatir annara manna sjeu altaf sprottnar af einhverju lágu og auðvirðilegu, geri það fyrir mjer, þó að þeir verði í engu meiri menn eftir en áður.

Hv. 2. þm. Eyf. drap á, að hann fyndi þörf til þess að fjölga þingmönnum vegna þingstarfa. Jeg held, að það hafi verið aðrar kendir, sem komu honum til þess. Hann sagðist ekki vilja hefnast á stærsta kaupstaðnum utan Reykjavíkur með því að standa á móti þessu máli. Álítur hv. þm., að þeir menn, sem eru á móti þessu máli, geri það af einhverri hefndarlöngun? Mjer finst það liggja í orðum hv. þm. En nú gleymir hv. þm. því, að þessi sami kaupstaður hefir eiginlega tvo þingmenn. Furðar mig á því um eins skýran mann og hv. þm. er, að hann skuli gleyma því. Í þessu sambandi benti hann meðal annars á, að Siglufjörður biði tjón af því að hafa ekki sjerstakan þm. Jeg vil nú taka svari hv. þm. og halda því fram, að þetta sje bara eiginn hugarburður. Hv. þm. hefir jafnan verið reiðubúinn til þess að fylgja fram öllum kröfum Siglfirðinga. Hv. þm. má ekki taka mjer illa upp, þó að jeg lýsi yfir því, að jeg skil ekki í honum og öðrum bændum hjer á Alþingi, sem kunna svo vel við sig á meðal hinna svo kölluðu jafnaðarmanna, að þeir eru reiðubúnir til þess að ganga erinda þeirra og þoka valdi sveitanna til kaupstaðanna. Ætti það þó síst að sitja á íslenskum bændum.

Það er ekki til neins að vera að skírskota til fólksfjöldans í Hafnarfirði. Það er grunur minn, að hann geti horfið þaðan aftur. Jeg verð að segja, að hingað til hafa það verið sveitirnar, sem hafa haldið fólkinu uppi hjer á Íslandi. Þó að jeg hefði ekki aðra ástæðu til að vera á móti þessu máli, þá er sú ástæða ærið nóg, að jeg vil, að áhrif á þing- og þjóðmál komi annarsstaðar frá en úr herbúðum jafnaðarmanna. Jeg vona, að snara sú, sem þeir þegar hafa brugðið um háls margra þingbænda, falli ekki svo þjett að þeim, að þeir geti ekki losað sig. En þessir herrar eru vísir til þess að taka vel fast í, þegar snaran er komin niður fyrir hökuna. Aðstaða margra hv. þm. er ekki önnur en sú, að hlaupa erindi jafnaðarmanna. Þess vegna gleyma þeir hinum kaupstöðunum. Siglufjörður og Akranes eru eins rjettháir í þessu efni og Hafnarfjörður.

Því er einatt haldið fram, að þingmannatalan eigi að miðast við íbúatölu. En það er ekki rjettur mælikvarði. Til dæmis þekkir einn maður, sem búsettur er í Reykjavík, miklu betur til þar en einn maður mundi þekkja til slíks mannfjölda, ef honum væri dreift út um sveitir landsins. Annars ætla jeg ekki að orðlengja frekar um þetta mál. Jeg býst ekki við, að það sje til neins. Jeg hygg, að tjóðurbandið muni halda, og hællinn líka.