09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Magnús Guðmundsson:

Jeg þarf aðeins að svara hv. þm. Ísaf. nokkrum orðum. Honum fanst, að jeg hefði í útreikningi mínum í gær gleymt, að til væru aðrir landshlutar en kaupstaðirnir 5, sem jeg nefndi. En þetta er hinn mesti misskilningur. Jeg tók einmitt í ræðu minni það tvent fram, að þótt þau atkvæði, sem jafnaðarmenn ættu í hinum kaupstöðum landsins — Hafnarfirði og Siglufirði — væru talin með, þá næðu þeir þó ekki atkvæðatölu Íhaldsflokksins í kaupstöðunum, og að fylgi þeirra í öðrum kjördæmum landsins væri svo lítið, að þeir ættu enga sanngirniskröfu á að fá þm. þaðan. Þetta er bert af því, að í þeim kjördæmum, sem þeir töldu sig hafa mest fylgi — Eyjafirði, Norður-Ísafjarðarsýslu og SuðurMúlasýslu — tefldu þeir fram frambjóðendum með þeim úrslitum, að þeir fengu svo fá atkv., að stórkostlega vantaði á, að þeir kæmu mönnum að. Jeg tók það ennfremur fram, að til þess að þeir gætu fengið þingmann eða þingmenn fyrir þessi atkv., þá sæi jeg ekki aðra leið en hlutbundnar kosningar um alt land, en jeg ljet í ljós um leið efa um rjettmæti þeirrar aðferðar.

Hv. þm. Ísaf. tók það fram, að jafnaðarmenn hefðu fengið á öllu landinu um 6000 atkv. við síðustu kosningar. (HG: Jeg sagði 6300 atkv.). Jeg hefi ekki getað í útreikning mínum komið þeim hærra en um 6100. — En hann tók það fram, að meðal þeirra atkv. væri talsvert af atkv. framsóknarflokksmanna. Jeg upplýsti ennfremur, að í 5 kaupstöðum landsins, sem eru sjerstök kjördæmi, hefði Íhaldsflokkurinn fengið 5570 atkv. Ef jeg nú dreg frá áðurnefndum 6000 atkv. jafnaðarmanna atkv. framsóknarmanna (sem eru í þessum 6000 atkv.), þá verður atkvæðafjöldi jafnaðarmanna í öllu landinu ekki meiri en atkvæðafjöldi íhaldsmanna í þessum 5 kaupstöðum. Fyrir þessi atkv. hafa jafnaðarmenn fengið 4 þingsæti og íhaldsmenn líka 4, og það sje jeg ekki betur en að sje alveg rjett, einmitt eftir hugsanagangi jafnaðarmanna. Að bæta við þingmannafjölda jafnaðarmanna á kostnað íhaldsmanna, er því gersamlega rangt.

Jeg get ímyndað mjer, að hv. þm. Ísaf. vilji halda því fram, að jafnaðarmenn eigi talsvert af atkv. í kjördæmum, sem þeir höfðu enga frambjóðendur í í sumar, og mun það rjett vera. En þeir kjósendur kusu áreiðanlega ekki með Íhaldsflokknum, heldur með framsóknarmönnum. Það er því svo, þó að tillit sje tekið til þess, þá ber að sama brunni um ranglætið, því að ef jafnaðarmenn telja til skuldar fyrir þessi atkvæðalán, þá verða þeir að heimta þá skuld af rjettum aðilja — framsóknarmönnum —, en ekki af Íhaldsflokknum. (HG: Vill þm. ganga í ábyrgð fyrir Framsókn?). Það gæti komið til mála, ef um væri beðið. En jeg geri ráð fyrir, að framsóknarmenn vilji sjálfir gjalda, ef þeir telja sig skulda, en fari ekki að seilast í vasa. annara til þess.

Sami hv. þm. spurði mig um annan grundvöll en kjósendafjöldann. Því skal jeg svara honum þannig, að jeg tel, að einnig fámenn hjeruð og afskekt, eins og t. d. Austur-Skaftafellssýsla, eigi kröfu á þingmanni vegna sjerstakra staðhátta, þótt kjósendafjöldinn sje ekki svo mikill, að hún ætti að fá þm., ef eingöngu væri deilt þingmannatölu í kjósendatölu alls landsins. M. ö. o.: sjerstakir staðhættir og einangrun er einnig mælikvarði, sem taka á tillit til. Þess vegna er jeg ósammála hv. þm. Ísaf., að kjósendafjöldinn eigi eingöngu að ráða.