09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Haraldur Guðmundsson:

Jeg býst við, að jeg verði fyrst að víkja að hinum háttprúða, en óneitanlega nokkuð tannhvassa hv. þm. Barð. Hann virtist hafa tekið sjer nærri blíðmæli, er jeg hafði við hann í ræðu minni. Jeg veit ekki, hvort jeg á að angra hv. þm. með því að minna hann á gamla orðtækið, að sannleikanum verði hver sárreiðastur. En jafnframt skal jeg gleðja þennan háttv. þingmann með því að segja honum, að ræða hans hin síðasta var svo skýr og skilmerkileg, að óþarft er að lappa þar nokkuð upp á. Skal jeg þar fyrst nefna ummæli hans um strákskap minn og uppskafningshátt. En jeg vil benda þessum hv. þm. á það, og vona hann hafi það í huga næst, þegar hann þykist hafa ástæðu til að vanda um framferði mitt, að taka þá með leti mína og fótaferð. Jeg kann hálfilla við, að þessa sje ekki getið líka. Jeg er því óvanur af samherjum hv. þm.

Hv. þm. sagði, að hann teldi ekki rjett að miða þingmannatölu eingöngu við íbúatölu. Jeg kem að þessu atriði síðar. Jeg ætla að geyma mjer það, þangað til jeg svara háttv. 1. þm. Skagf.

Hv. 1. þm. Skagf. hjelt því fram, að jeg hefði rangfært ummæli hans. Það er ekki rjett. Jeg sagði, að ekki yrði sjeð á útreikningum hans á atkvæðatölum flokkanna, að hann tæki þar með aðra kjósendur en þá, sem búsettir eru í kaupstöðunum fimm, og að honum hefði því eigi tekist að sanna það, sem hann ætlaði sjer að sanna. En af því þessi hv. þm. ennþá virðist þeirrar skoðunar, að fulltrúatölu Alþýðuflokksins beri að miða við atkv.tölu hans í kaupstöðunum eingöngu, þykir mjer rjett að benda honum á úrslit kosninganna 1923 og atkvæðatölu Alþýðuflokksins þá í þessum kaupstöðum. Atkv.tölurnar voru þessar: Í Reykjavík 7477, á Ísafirði 903, á Seyðisfirði 383, og í Vestmannaeyjum 1016. Alls voru þá í þessum 4 kaupstöðum greidd 9779 atkv. Þar af fjekk Alþýðuflokkurinn 3461. Þm. voru 7. Eftir þessu hefði Alþýðuflokkurinn átt að fá 3, en fjekk aðeins einn. Jeg hefi rannsakað þetta nokkuð, en hvergi fundið neitt, hvorki í þingtíðindum nje blöðum, sem sýni, að háttv. 1. þm. Skagf. hafi komið auga á nokkurt misrjetti þá, þótt Alþýðuflokkurinn fengi aðeins þriðjung fulltrúa við það sem honum bar, í þeim sömu kaupstöðum, sem hann nú telur, að rjett sje að miða við eingöngu. Nú ber hann sjer á brjóst og telur Íhaldsflokkinn órjetti beittan, enda þótt hlutur hans sje margfalt betri en Alþýðuflokksins var 1923.

Hv. þm. vildi halda því fram, að ekki væri rjett að miða þingsæti við íbúatölu eða kjósenda. Þetta er verulegt atriði. Jeg skal viðurkenna, að dálítið má um það deila. Hv. þm. færði fram þá ástæðu fyrir máli sínu, að sumir landshlutar væru svo einangraðir, að þeir þyrftu að eiga sjerstakan fulltrúa á Alþingi, sem væri sjerstaklega kunnugt um atvinnu og staðháttu. Jeg skal ekki neita, að dálítið er til í þessu, en ekki er það mikið. Það mundi áreiðanlega koma í ljós, að ef menn fylgdu þessari reglu út í æsar, mundi leiða af því hin argasta villa. Smáhjeruð og sveitir, sem afskekt eru og óvenjulegar aðstæður eiga við að búa, myndu og gætu samkv. þessari reglu, ef upp yrði tekin, krafist sjerstaks fulltrúa á þingi, þótt þar byggju aðeins örfáir menn; má benda á Öræfin, Hornstrandir o. fl. slík hjeruð. Nei, — ef við ætlum að viðurkenna þingræði, þá verðum við að búa svo um, að það byggist á fullkomnu lýðræði. En um lýðræði getur ekki verið að ræða nema allir kjósendur, hvar sem þeir eru búsettir, eigi jafnan rjett til íhlutunar um það, hvernig löggjafarþing þjóðarinnar er skipað. Að ætla sjer að velja einhverja aðra leið, er í fullkominni mótsögn við anda þingræðisins.

Það hefir verið talað um það af hv. 2. þm. G.-K. með alveg einstökum fjálgleik, að alt þetta mál væri eiginhagsmunapólitík og skrípaleikur, sem við jafnaðarmenn værum að leika, til þess að krækja enn í eitt þingsæti fyrir okkar flokksmenn. Það er að vísu rjett, að ætla má, að ekki verði bætt úr því mikla misrjetti, sem hafnfirskir kjósendur nú eru beittir, annan veg en þann, að það verði um leið til að fjölga þm. Alþýðuflokksins, en á því á líka flokkurinn fulla sanngirniskröfu. En einmitt það er ástæðan til þess, að íhaldsmenn berjast með hnúum og hnefum gegn þessu máli, þó að þeir verði að viðurkenna, að það sje rjettmætt. Andstaða þeirra byggist því á flokkshagsmunum eingöngu. Ef við lítum á kosningarnar 1927, kemur það í ljós, að á bak við hvern þjóðkjörinn þm. úr Íhaldsflokknum eru 1100 atkv., en bak við hvern Alþýðuflokksþm. 1320 atkv. 370 kjósendur á Seyðisfirði kjósa sjerstakan þingmann, og af þeim ræður röskur helmingur, ca. 190, þingmanninum. 190 kjósendur á Seyðisfirði ráða þannig einu þingsæti, en 900 kjósendur í Hafnarfirði verða að þola það að hafa þm., sem situr á Alþingi í fullkominni óþökk þeirra.

Jeg ætla, að það væri hv. 2. þm. G.-K., sem þótti jeg lítil rök hafa fært fyrir því, að framkoma þm. Hafnarfjarðar væri í beinni andstöðu við vilja kjósenda. Jeg skal strax benda hv. þm. á mál, sem nýlega var hjer til umr., um hvíldartíma háseta á togurum. Það er öllum kunnugt, að meginþorri kjósenda í Hafnarfirði er þeirrar skoðunar, að þar sje um mikið nauðsynjamál að ræða, og sjerstakt áhugamál þeirra. Samt berst hv. þm. með hnúum og hnefum gegn því. Jeg verð að segja, að það er hart að þola slíkt af sínum eigin þm. Það var ekki meira en ¼ hluti kjósenda í Hafnarfirði, sem fjekst til þess að gefa í skyn, að þeir kysu eins vel, að kjördæminu væri ekki skift. Og þó rembist háttv. þm. eins og rjúpa við staur á móti þessu máli, sem telja má víst, að ¾ kjósenda í Firðinum óska, að nái fram að ganga.

Einnig liggur fyrir þinginu frv. um slysatryggingar. Hv. 2. þm. G.-K. hefir enn ekki tekið afstöðu til þess, en jeg vænti, að hann verði þar minnugri vilja kjósenda sinna en hann hefir verið til þessa. Það er óþolandi rangsleitni, sem hafnfirskir kjósendur eru beittir. Háttv. þm. G.-K. eru eflaust sæmilegir fulltrúar fyrir sinn flokk, en þeir eru óhafandi fyrir verkamenn og sjómenn, þ. e. ¾, kjósenda, í Hafnarfirði.

Jeg veit ekki, hvort jeg á að tala meira við hv. þm. Jeg verð þó að segja, að jeg gat ekki varist brosi, þegar hann talaði um launaða smala. Jeg vil ráðleggja hv. þm. að tala sem minst um það. Ef um kaupamensku er að ræða, hugsa jeg, að kaupamennirnir sjeu flestir í hans herbúðum og kauphæstir. En það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að þeir menn, sem ráða afkomu fólksins, geta fengið það til að skrifa undir skjöl í sína þágu. Jeg vil endurtaka það, að slíkar undirskriftasmalanir ættu ekki að leyfast. Enda er jeg viss um það, að ef síðar færi fram leynileg atkvgr., mundi annað verða uppi á teningnum. Það er nú einu sinni svo, að verkamenn, margir hverjir, hafa ótta af atvinnuveitendum sínum, — því miður.

Þá kem jeg að hinum tilfinningaríka og háfleyga þm. Dal. Hann flutti hjer hjartnæma tölu og byrjaði á því að upplýsa hv. deild um, að þetta væri í fyrsta sinn í sinni löngu og merku þingsögu, sem hann þyrfti að tjá hv. deild þau tíðindi, að hann hefði — skift um skoðun. Jeg get ekkert fullyrt um þetta, en jeg tek hv. þm. trúanlegan. Það virtist mikils við þurfa til þess að leiða rök að því, að slík undur gætu gerst. En ástæðurnar komu og þær voru: Að þær upplýsingar hefðu fengist, síðan hv. þm. tók síðast afstöðu til þessa máls, að nú gæti hann ekki fylgt því lengur. Hv. þm. átti við sambandið milli Alþýðuflokksins og danska jafnaðarmannaflokksins.

Nú vil jeg spyrja þennan hv. þm., hvort honum var ekki kunnugt um þetta samband í sumar, þegar hann var á biðilsbuxunum í Gullbringu- og Kjósarsýslu síðast og einkum leitaði til Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Veit háttv. þm. yfirleitt nokkuð meira um þetta nú en hann vissi þá? (SE: Já, já!). Annars er það afarbroslegt, þegar bankastjóri fyrir danskan hlutabanka stendur hjer upp og gerist klökkur út af því, að danskir verkamenn hafa með fjárframlögum styrkt flokksbræður sína hjer á Íslandi.

Jeg hygg ekki, að það sje fleira, sem jeg þarf að taka fram. Jeg lít svo á, að með frv. þessu sje nokkur bót ráðin á hróplegu misrjetti hafnfirskra kjósenda. Tilboðum íhaldsmanna til okkar jafnaðarmanna um að styðja okkur í því að lagfæra kjördæmaskipunina í landinu skal jeg svara hispurslaust.

Það er ekkert leyndarmál, að okkur finst núverandi kjördæmaskipun gersamlega óviðunandi. Við viljum því mjög gjarnan þiggja styrk góðra manna til að koma henni í betra horf. En hv. íhaldsmenn eiga þá sögu að baki sjer, að við getum ekki þegar í stað, að óreyndu máli, stokkið upp og boðið þá velkomna í bandalag við okkur. Við verðum að setja þá á reynslutíma fyrst, sjá hverju fram vindur, sjá, hvort blíðmæli þeirra eru annað en falsið eintómt.