10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2772)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg vil leyfa mjer að benda hv. deild á það, að nú er fram komin áskorun frá 650 kjósendum í Hafnarfirði um að fá Hafnarfjörð gerðan að sjerstöku kjördæmi, svo að nú er ekki hægt að vera í vafa um það lengur, hvar meiri hluti kjósenda er í máli þessu. Þessir 650 kjósendur eru ekki neitt að tala um það, að þeir „vilji heldur“, að Hafnarfjörður verði sjerstakt kjördæmi; þeir skora á þingið að verða við þessari kröfu. Aftur á móti eru þessi „nokkur hundruð“ kjósenda, sem reyndar eru aðeins 325, alls ekki að mótmæla því, að Gullbringuog Kjósarsýsla verði að tveim kjördæmum; þeir segja aðeins, að þeir „kjósi heldur“, að hún verði eitt kjördæmi.

Það sýnir líka, hve íhaldsmenn í Hafnarfirði eru linir í því að halda kjördæminu saman, að þegar samþ. var áskorun sama efnis frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar með 6:1 atkv., höfðu tveir íhaldsmennirnir ekki borað að koma á fundinn. (ÓTh: Þeir voru veikir). Menn verða svo oft veikir. þegar þeir vilja komast hjá því að greiða atkvæði.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um skiftinguna sem laun jafnaðarmanna fyrir að styðja stjórnina. Þetta er algerlega rangt, og þm. veit það sjálfur. Í fyrsta lagi vegna þess, að hjer er um hlutleysi en ekki stuðning að ræða. Í öðru lagi hefir Framsóknarflokkurinn allur verið því fylgjandi á síðustu þingum, að Hafnarfjörður yrði sjerstakt kjördæmi. Það væri því harla undarlegt að krefjast þess sem launa, er verið hefir stefna alls Framsóknarflokksins áður.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að ekki beri að miða kjördæmaskiftinguna við það, hvaða flokkur verði ofan á í það og það skiftið, heldur við það, að allir hafi jöfn mannrjettindi. Jeg er honum alveg sammála um þetta, en hv. þm. hefir ekki hingað til sýnt það með atkv. sínu, að hann væri hlyntur hlutfallskosningu um land alt, — en það eitt gefur öllum ísl. kjósendum jafnmikinn kosningarrjett —, heldur þvert á móti, eins og sjá mátti, hvernig hann tók stjórnarskrárfrv. í fyrra. (MJ: Þar var fleira með). En þó mátti vel samþykkja breytinguna á kjördæmaskipuninni eina. Ef farin verður önnur leið en með hlutfallskosningu, þá verður minni hlutinn altaf undir. Það gæti jafnvel svo farið, að einn flokkur yrði í minni hluta í öllum kjördæmum, þótt ekki munaði nema einu atkv. í hverju kjördæmi.

Jeg ætla ekki að fara lengra inn á niðurstöðu hv. 1. þm. Reykv., að jafnaðarmenn, frjálslyndir og íhaldsmenn ættu allir að hafa fleiri þingsæti. Allur flokkur þessa hv. þm. hefir verið á móti að breyta kjördæmaskipuninni, og sömuleiðis hafa báðir fyrverandi ráðherrar verið því andvígir, en með því að breyta kjördæmaskipuninni væri þó hægt að komast nær þjóðarviljanum en nú er. Hv. 1. þm. Reykv. virtist jafnaðarmenn ekki taka mikið tillit til Hafnarfjarðar í þessu máli, heldur aðeins til hinna hafnfirsku jafnaðarmanna. Jeg fæ ekki sjeð, að Hafnarfjörður sje annað en íbúar þessa kaupstaðar, skoðað frá pólitísku sjónarmiði, og þar sem meiri hluti þessara íbúa er jafnaðarmenn, þá er ekki nema eðlilegt, að tekið sje tillit til þess, er þeir óska.

Hv. sessunautur minn, þm. Dal., virtist hafa verið frv. þessu fylgjandi þangað til í gær. Við 1. umr. greiddi hann því atkv. með bros á vörum, svo að það lítur út fyrir, að hann hafi orðið fyrir nokkuð snöggum skoðanaskiftum, eins og oft vill verða um þá, sem eru í Hjálpræðishernum eða Frelsishernum.

Það er nú öllum kunnugt, og víst engum betur en hv. þm. Dal., að jafnaðarmenn um allan heim veita hverjir öðrum brautargengi og allan þann styrk, sem þeir mega, og er það rökrjett afleiðing af bræðralagshugsjón þeirra. Þetta vissi hv. þm. manna best, þegar hann flúði á náðir jafnaðarmanna, til þess að biðja þá að gera sig að borgarstjóra hjer í Reykjavík. Því miður þektum við hann þá svo lítið, að við ljetum að orðum hans um liðveislu, en síðan hafa ýms þau atvik komið fyrir, að við höfum ekki getað stutt hann, og hefir þó sá hv. þm. þrásinnis reynt að fá okkur til að koma sjer inn á þing. Fyrst talaði þessi hv. þm. um að fá okkur til þess að koma sjer inn á þing í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1926, og vildi þá keppa við hv. 2. þm. G.-K. Þá höfðu forráðamenn Alþýðuflokksins jafnvel ekki næturfrið fyrir honum. Síðastl. vor hjelt þetta sama áfram, því að þá hjelt hv. þm. sjer hvergi hægt að komast inn á þing nema í Gullbringuog Kjósarsýslu, í sambandi við jafnaðarmenn. Talaði hv. þm. þá oft og af miklum fjálgleik um, hve vel hann skyldi berjast fyrir þeirra áhugamálum, og tók þá sjerstaklega fram, að hann skyldi berja í gegn skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi. Það mundi muna um sig á þinginu í þeirri baráttu fyrir rjettlætinu. Eru að þessu mörg vitni. En ýmislegt var þá fram komið honum viðvíkiandi, sem gerði það að verkum, að við álitum, að við á engan hátt gætum fylgt honum, og þótt við værum algerlega andstæðir hv. 2. þm. G.-K., þá þótti okkur betra að eiga á hættu, að kosinn yrði tiltölulega heiðarlegur andstæðingur heldur en hv. þm. Dal. Það, sem þá hafði komið fyrir, var það, að þegar hv. þm. var í æðsta valdastóli hjer, þá notaði hann vald sitt til þess að veita sjálfum sjer hálaunað embætti í Íslandsbanka, og ástæðan til þess, að hann gekk svo langt, var, að hann óskaði að verða þjónn Dana þar. Þá varð hv. þm. algerlega fastur starfsmaður í þjónustu danskra auðmanna, svo að tekjur hv. þm. munu allar, að undanteknum þingmannslaununum, vera frá Dönum runnar. Líka má geta þess, að þessi sami maður hafði nokkru áður, þegar hann var í bankaráði Íslandsbanka, notað vald sitt þar til þess að greiða atkv. á móti því, að laun bankastjóranna yrðu lægri en 24 þús. kr. Það sæti því betur á einhverjum öðrum en honum að koma hjer fram til þess að prjedika siðgæði og það, hve skammarlegt sje að þiggja erlent fje, — honum, hv. þm. Dal., sem hefir sett á sig óafmáanlegan blett, og íslensk stjórnmál yfirleitt, með misbeitingu æðsta valds þjóðarinnar í sjerhagsmunaskyni og til þess að geta þjónað Dönum.