10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (2776)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. þm. Dal. svaraði því, sem jeg sagði út af ræðu hans, og aðalinnihaldið var, að því leyti, sem það vissi að honum sjálfum, innihald gömlu setningarinnar: dæmið ekki, svo að þjer verðið ekki dæmdir. Hann vildi afsaka sitt framferði með því, að það gæti verið, að aðrir væru breyskir líka, og þeir ættu ekki að kasta fyrsta steininum á sig. En jeg verð að segja, að hjer í þingsalnum kemst maður naumast hjá því að skýra dálítið frá opinberu lífi manna, sem hafa verið eins hátt uppi eins og hv. þm. Dal.

Hann gat þess í fyrsta lagi, að hann hefði aldrei talað við mig um framboð sitt í Gullbringusýslu. Veit jeg vel, að hann gerði það ekki; en aftur á móti talaði hann við aðra, sem urðu milligöngumenn. Hv. þm. er ljóst eins og mjer, að miðstjórn Alþýðuflokksins hjelt fund um miðja nótt vegna atgangs hans um að óska kjörfylgis okkar, og að það var sendur maður á hans fund til þess að segja honum, að Alþýðuflokkurinn mundi undir engum kringumstæðum geta stutt mann eins og hv. þm. Dal. Ennfremur er skjalfest af fulltrúaráðsfundi verklýðsfjelaganna í Hafnarfirði, að Sigurður Eggerz kom alls ekki til greina sem þingmannsefni. En hann sóttist ekki lítið eftir fylgi jafnaðarmanna á þeim tíma, þó að hann vissi vel, að jafnaðarmannaflokkar alstaðar úti um heim styðja hverjir aðra, bæði með fje og hverskonar annari liðveislu.

Hv. þm. sagði það vera einkennilegt, að ekki hefði verið talað um þessa embættisveitingu í Íslandsbanka við sig árin 1924–1927. Jeg veit a. m. k., að jeg hefi á opinberum fundum minst á þetta mál hjer í Reykjavík; og jeg veit, að „Alþýðublaðið“ skrifaði um þetta, og mun hv. þm. geta flett því upp. Annars er slíkt mál aldrei dautt, meðan maðurinn á að heita tórandi í „pólitísku“ lífi. Hann sagðist mundu hafa getað fengið stöðuna, þótt hann ekki veitti sjer hana sjálfur. Og í öðru lagi, að hann sparaði eftirlaun með því að taka stöðuna sjálfur. Við því fyrra verð jeg að segja, að jeg skil varla, að jafnvel íhaldsstjórnin myndi hafa gengið svo langt að veita háttv. þm. Dal. þessa stöðu, og a. m. k. er ekkert sannað í því efni, að nokkur önnur stj. en stj. hv. þm. Dal. myndi hafa veitt honum bankastjórastöðu við nokkurn banka.

Hitt atriðið, um sparnað á eftirlaunum, kann að vera rjett; en jeg skil ekki yfirleitt, hvað maður á hans reki hefir að gera við eftirlaun, þótt hann hætti að vera ráðherra. Mjer finst hann geti unnið fyrir sjer á einhvern heiðarlegan hátt, án þess að lifa á besta aldri á samskotafje alþjóðar án þess að leggja nokkra vinnu af mörkum, og lítil afsökun er því fyrir veitingunni á þessum bankabita handa honum sjálfum, bita, sem raunar er að ríða honum að fullu í almenningsálitinu.

Þá kom hv. þm. (SE) að því enn, að jeg færi úr einu gróðafyrirtækinu í annað. Jeg sje ekki, hvað það kemur þessu máli við, nema svo sje, að þau fjelög, sem jeg stofna og stend fyrir, verði gróðafjelög, en fjelög hv. þm. Dal. tapi stöðugt. En það veit hv. þm. Dal. vel, að jeg myndi í dag, eða hvenær sem er greiða atkv. með því, að þau fyrirtæki, sem jeg er við riðinn, væru lögð undir ríkið.

Þá var hv. þm. drjúgur yfir því, að hann væri fulltrúi Íslands í Íslandsbanka. Jeg spyr: Hvaðan koma launin? Eru það Íslendingar, sem borga honum 24 þús. kr. laun? Er þetta ekki danskur hluthafabanki, sem borgar honum? Í þriðja lagi: Hvenær hefir hv. þm. Dal. sem bankastjóri Íslandsbanka beitt sjer fyrir íslenskum hagsmunum á móti erlendum? Það var ekki vegna íslenskra hagsmuna, að hann veitti sjálfum sjer þennan feita bita, — íslenskra hagsmuna hefðu aðrir getað gætt, ef hægt er að gæta þeirra í þjónustu Dana —, heldur var það löngunin í launin og stöðuna. Enda var alt nógu vel undirbúið fyrirfram. Í fyrsta lagi kom hann því til leiðar, að slík embættisveiting var lögð undir forsrh., en tekin af fjmrh., svo að hv. þm. Dal. gæti sjálfur haft ráðin. Í öðru lagi kom hann því til leiðar, að launin yrðu svona há, 24 þús., og þar sjest einmitt, hversu vel hann gætti hagsmuna Íslands, sem hann segist hafa átt að gæta í bankaráðinu, að hann fær þessi háu laun samþykt með tilstyrk dönsku atkvæðanna í bankaráðinu, sem hann fór með sem trúnaðarmaður Dana þar, og með sínu eigin oddaatkvæði, móti íslensku atkvæðunum. Og loks kórónar hann þennan langa undirbúning með því að veita sjálfum sjer embættið.

Jeg verð að segja, að jeg álít, að eftir slíka frammistöðu færi betur á, að þessi háttvirti herra lægi eins og Fáfnir á danska gullinu í Íslandsbanka, en sæti ekki á Alþingi Íslendinga.

Síðasti kaflinn í ræðu hv. þm. Dal. virtist benda á, að hann væri að reyna að hafa nokkurskonar vakningarsamkomu hjer í hv. deild. Lagði hann ákafa áherslu á, að það, sem hann og aðrir þingmenn þyrftu að gera, væri að standa sameinaðir gegn jafnaðarmönnum í landinu. Svo langt vildi hann ganga, að jafnvel þótt hann hafi oft skýrt frá því áður, að hann teldi rjettlátt að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi, þá væri hann því mótfallinn nú, því að þessi aðalandstöðuflokkur hans, sem hann telur nú, mætti alls ekki ná meiri hluta í kjördæminu og koma fleiri mönnum inn á þing. Jeg veit ekki, hvort nokkur þm. hefir nokkurn tíma fallið svo ótrúlega djúpt, í samanburði við fyrri breytni sína, eins og hv. þm. Dal.

Viðvíkjandi þessum margumtöluðu dönsku peningum, sem hv. þm. var að tala um, þá eru það ekki Danir einir, sem hafa styrkt Alþýðuflokkinn eitthvað, heldur bæði Svíar og Englendingar, og myndi væntanlega alþýða ýmissa annara landa gera það, ef honum lægi á. Eins hefir Alþýðuflokkurinn hjer sent peninga til útlanda í þessu sama skyni. Þetta er ekki nema alviðurkend regla, sem allir jafnaðarmenn, hvar sem er í heiminum, skilja og fylgja algerlega. Þeir skilja, að

þeir, sem fótum troðnir eru og erfiða eiga aðstöðuna, eiga að hjálpa hverjir öðrum. Þeir skilja, að samtökin eru mátturinn, sem sigrar að lokum og ryður braut frelsi, jafnrjetti og bræðalagi, þjóðfjelagi jafnaðarmanna. Þeir skilja stjettabaráttuna og að samtökin ganga út á það, að ryðja slíkum flokkum eins og Íhaldsflokknum af stóli, og mönnum eins og hv. þm. Dal., sem í sjerhagsmunaskyni hafa verið að lyfta sjálfum sjer upp í „pólitíska“ valdastóla.

Hv. þm. Dal. var hvað eftir annað að spyrja, hvað fjeð væri mikið. Honum kemur það ekki vitundar ögn við. Ef hann gerist meðlimur í einhverju fjelagi Alþýðuflokksins, getur hann fengið að vita það. Reikningarnir eru lesnir og bornir upp í fjelögunum, og það eru hundruð manna, sem vita þetta í landinu.

Að endingu verð jeg að segja það, að við íslenskir jafnaðarmenn skoðum ekki huga okkar tvisvar, ef um er að ræða baráttu milli erlendra verkamanna og hv. þm. Dal., sem er fulltrúi auðvaldsins danska hjer á landi, eða annara samherja hans hjer á landi og annarsstaðar.