10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3062 í B-deild Alþingistíðinda. (2778)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Magnús Jónsson:

Jeg þarf ekki mörgu að svara hjer, en mun þó víkja að nokkrum atriðum.

Hv. samþm. minn, 2. þm. Reykv., var að tala um, að jeg hefði sýnt, að jeg væri á móti því, að kosið yrði til Alþingis með hlutfallskosningum um land alt. Hann á hjer líklega við brtt. við stjórnarskrána, sem hann bar fram á síðasta þingi. En í þeim till. var ýmislegt annað, sem jeg get ekki fallist á, svo það er engin sönnun í þessu efni, þótt jeg hafi verið andvígur þeim. Líka er það sitthvað, að fylgja hlutfallskosningum um land alt eða telja það kjördæmaskipulag, sem nú er, ilt og úrelt. Annars býst jeg við, að flestir flokksmenn mínir sjeu á annari skoðun en jeg í þessu máli. Þótt þessum hv. þm. kunni að þykja undarlegt, að menn innan sama flokks megi hafa misjafnar skoðanir um einstök atriði, þá get jeg frætt hann á því, að þetta viðgengst í mínum flokki.

Jeg hefi áður verið því fylgjandi, að Hafnarfjörður fengi sjerstakan þm. En jeg hefi viljað láta það vera bundið því skilyrði, að sýslan hefði tvo þm. eftir sem áður, eins og hv. 2. þm. Eyf., þótt nú sje ekki annað sýnna en að hann ætli að hverfa frá þessari skoðun sinni.

Þá er það háttv. 4. þm. Reykv. Jeg þarf að vísu fáu að svara honum, því að það er einmitt eitt af einkennum þessa hv. þm., að ekki er þörf á að svara honum mörgu. Hann var að bregða hv. þm. Dal. um það, að hann væri frímúrari eða Oddfellow, og átti það víst að vera honum til óbætanlegrar skammar. Jeg er frímúrari sjálfur og get frætt hann á því, að þótt lög og reglur þess fjelagsskapar sjeu eigi á annara vitorði en fjelagsmanna, þá er þó óhætt að segja frá svo miklu um frímúrarafjelagið, að það hefir ekki tekið við neinum fjárstyrk af Dönum til áhugamála sinna, og hefir ekki annað fje með höndum en það, sem meðlimir hjer á landi láta af mörkum. Þetta vindhögg hv. þm. verður því ekki að neinu liði.

Þá vildi jeg snúa mjer lítið eitt að hv. þm. Mýr. Hann bar fram þá sönnun fyrir því, hve mikill skaðræðismaður hv. 1. þm. G.-K. (BK) væri samvinnufjelögunum, að þau hefðu höfðað mál á hann. (BÁ: Og fengið hann dæmdan). Já, og fengið hann dæmdan. En hvað sannar það í þessu máli? Menn hafa á öllum öldum verið ofsóttir og jafnvel líflátnir fyrir að hafa þær skoðanir, sem síðar reyndust sannar og góðar og fjölda manns til hagsbóta og blessunar. Það er engin sönnun fyrir illvilja þessa hv. þm. í garð samvinnufjelaganna, þótt lagabókstafurinn kunni að hafa náð til hans. Að skoðun hans kemur í bága við stefnu helstu samvinnuforkólfanna hjer, stafar af því einu, að hann álítur, að fjelögin þurfi að komast á heilbrigðari grundvöll en þau eru á nú.

Þá talaði hv. þm. um það, að jeg væri guðfræðingur, og átti það víst að vera eitthvað niðrandi. (BÁ: Guðfróður). Jeg vildi benda þessum hv. þm. á, að það er góð regla, að kasta ekki hnútum í aðra en þá, sem hann ætlar að hæfa! Jeg get bent honum á menn í hans eigin flokki, t. d. hæstv. forsrh. og hv. þm. V.-Ísf., sem báðir eru menn vel „guðfróðir“. Þá kallaði hann mig hjartnanna og nýrnanna rannsakara. Jeg fyrir mitt leyti hefi ávalt heyrt átt við alt annan með þeim orðum.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði sagt í þingræðu, að Framsóknarflokkurinn væri skipaður tómum ódrengjum. Annar maður hefir sagt mjer hið sama utanþings, og er mjer kærkomið að fá tækifæri til að leiðrjetta þetta, því að þetta hefi jeg aldrei sagt. Hitt sagði jeg, að jeg treysti því, að of margir góðir drengir væru í flokknum, til að þeir fylgdu stjórninni að því máli, sem þá var til umræðu, og að ömurlegt væri, að stjórnin skyldi þurfa að óska, að drengskapurinn væri sem minstur. Jeg vil því benda þessum hv. þm. á, að það er líka góð regla að rangfæra ekki orð manna, því að venjulega hafa menn nóg að hengja hattinn sinn á, þótt þeir færi ekki ummæli andstæðinganna til verri vegar.

Þá talaði hv. þm. um danskan verslunarfróðan mann, er altaf talaði í prósentum. Átti víst að heimfæra dæmið upp á mig, vegna þess að hann sagði, að jeg væri altaf að tala um verslun á milli Framsóknar og jafnaðarmanna. Hvað sem um það er, þá er víst og alkunnugt, að framsóknarmenn og jafnaðarmenn eru í samvinnu, og að jafnaðarmenn eru farnir að ganga nokkuð langt í kröfum sínum, svo langt, að undarlegt má heita, ef bændaflokkur getur unað við slíkt lengur. Í því máli, er hjer liggur fyrir, hefir einn framsóknarmaður, hv. 2. þm. Eyf., horfið frá fyrri skoðun sinni til að hlýðnast þessum kröfum, og þá fer að verða ástæða til að ætla, að nokkuð fast sje á eftir þjappað, er framsóknarmenn fá ekki að fylgja fram yfirlýstri sannfæringu sinni.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði verið að ávíta sig fyrir að deila á hv. þm. Barð. og að hann myndi fara sínu fram um slíkt eftirleiðis. Hann myndi ekki ráðast á menn að fyrra bragði, en taka á móti, ef á sig væri leitað. Það var nú einmitt þessi regla, sem allar stórþjóðirnar sögðust fylgja í ófriðnum mikla. Frakkar, Rússar, Þjóðverjar, allir sögðu það sama: Við rjeðumst ekki á neinn að fyrra bragði, en tókum á móti, þegar á okkur var leitað. Þetta er regla, sem allir ýfingamenn þykjast fylgja.

Jeg talaði aldrei um, að hv. þm. væri ekki leyfilegt að finna að við hv. þm. Barð. Jeg taldi það aðeins illa við eiga að ráðast á menn með persónulegum aðdróttunum um gáfnaskort og þessháttar. Hv. þm. fylgir ekki reglu sinni betur en svo, að hann ræðst gersamlega tilefnislaust á hv. þm. Barð. í næstum fyrsta skifti, sem hann stendur upp hjer í deildinni.