10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3069 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Margir þeirra, sem jeg hefði þurft af andmæla hjer, eru nú dauðir. Mun jeg því reyna að tala áreitnislaust í garð allra, en víkja að málinu, sem fyrir liggur.

Jeg vil benda á það, að hv. þm. jafnaðarmanna hafa lagt mikið upp úr því, að þeir kjósendur úr Hafnarfirði, sem sent hafa mótmæli gegn skiftingu kjördæmisins, hafi ekki notað orðið „mótmæli“, heldur aðeins sagt, að þeir kysu núverandi skipulag. Jeg get nú ekki sjeð neitt á móti því, að full kurteisi sje viðhöfð í erindum til Alþingis, þótt þeir menn, sem skrifað hafa orðið „hnefarjettur“ á spássíu stefnuskrár sinnar, sjeu á annari skoðun. Hv. 2. þm. Reykv. skýrði frá, að 650 kjósendur í Hafnarfirði hefðu skorað á stjórnina að samþykkja þetta frv. Hv. þm. Ísaf. skýrði frá því, að 325 kjósendur hefðu sent Alþingi erindi um það, að þeir kysu fremur núverandi skipulag. Af því ályktar hann, að allir aðrir kjósendur sjeu með skiftingunni. Nú er 1301 kjósandi í Hafnarfirði, og mætti þá með sama rjetti álykta, að 650 væru með frumv., en 651 á móti. (HG: Hvers vegna var ekki náð í þá, sem á vantar?).

Annars vil jeg geta þess, að þessir 650, sem skrifað hafa undir hjá jafnaðarmönnum, eru ekki nærri allir kjósendur, heldur allskonar lýður, sem þeir hafa smalað saman. Þetta er jeg reiðubúinn að sanna, hvenær sem er. Þá vildu háttv. jafnaðarmenn gera mikið úr áskorun bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði, þar sem 6 bæjarfulltrúar væru með henni, en aðeins einn á móti. Hvernig á því stóð, að ekki voru fleiri á móti, hefi jeg þegar upplýst. Tveir fulltrúar íhaldsmanna í bæjarstjórninni voru veikir, þegar áskorun þessi var til umræðu, og gátu því ekki greitt atkvæði. Út af veikindum þessara manna fann háttv. 2. þm. Reykv. ástæðu til að segja, að svo væri venjulega, þegar menn þyrðu ekki að greiða atkvæði.

Jeg þekki nú alls ekki dæmi þess, að menn verði veikir af ótta, nema ef vera kynni eitt. Á pólitískum fundi, sem haldinn var hjer í bænum ekki alls fyrir löngu, var staddur meðal annara núverandi háttv. 2. þm. Reykv. og ljet mikið á sjer bera. Deildi hann fast á Íhaldsflokkinn fyrir fjármálastjórnina. Í miðri ræðu varð honum litið um öxl og sá þá kominn fyrv. forsrh. (JÞ), en hans var ekki von á fundinn. Brá hv. þm. svo við sjón þessa, að hann misti málið, kvaðst veikur og hætti.

Þá hefir því verið haldið fram af háttv. þm. Ísaf., að jeg sæti hjer á Alþingi í vanþökk minna kjósenda. En svo jeg noti hans eigin rök, þá vil jeg upplýsa hann um það, að miðhlutinn úr Ísafirði er engu síður á móti honum en Hafnarfjörður kann að vera á móti mjer. (HG: Jeg fylgist ekki með þessari röksemdafærslu hv. þm.). Jeg get ekki gert að því, þó að háttv. þm. Ísaf. sje skilningslaus eða skilningssljór.

Hv. 4. þm. Reykv. má jeg ekki vera að svara eins og skyldi. Hann las feiknin öll upp úr Vídalínspostillu, en því miður skildi víst enginn, hvað sá lestur átti að þýða. En jeg vil spyrja hann, hvort hann hafi talað fyrir hönd flokks síns, þegar hann sagði, að jeg hefði þjónað mínum eigin hagsmunum í Hellyersmálinu. Hafi hann gert það, þá tel jeg flokksmenn hans ódrengi.

Því eins og kunnugt er, var jeg sáttasemjari í því máli og bar gæfu til að leiða það til farsællegra. lykta.

Jeg hefði haft ástæðu til þess að svara háttv. þm. Mýr. töluverðu, en því miður get jeg það ekki, þar eð mjer er markaður tími. Þó vil jeg skjóta því til hans, að mjer fanst undarlegt, að hann skyldi leyfa sjer að tala með vanþóknun til þeirra, sem hann taldi tala frá sjónarmiði einstakra flokka, þar sem öll ræða hans í gær snerist um það eitt, að nauðsyn bæri til að bæta jafnaðarmönnum upp eitthvert ranglæti, sem hann taldi, að þeir yrðu að líða, og fyrir þá sök aðhyltist hann frv. þetta. Ef þetta er ekki að tala fyrir hagsmunum einstakra flokka, þá veit jeg ekki, hvað það er.

Þá sagði þessi háttv. þm., að það hefði verið mikið áhugamál bænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu að fá hinn mæta bónda Magnús Þorláksson á Blikastöðum til þingsetu á síðastliðnu vori. Um þær óskir er mjer alls ekki kunnugt; jeg hefi ekki heyrt þær fyrri. En gaman þætti mjer að vita, hvort hv. þm. Mýr. mundi þá hafa stutt kosningu Magnúsar. Annars held jeg, að okkur þingmönnum G.-K. sje ekki frekar en öðrum ofvaxið að kynna okkur þarfir beggja aðalatvinnuvega landsmanna. Jeg skal fúslega játa, að jeg hefi ekki gert það enn sem skyldi. En aftur á móti er hv. samþm. minn kunnugri þörfum landbúnaðarins en margur bóndinn, og það meira að segja kunnugri en hv. þm. Mýr., sem þó sjálfur er bóndi, og ekki í röð hinna lakari.

Það er alveg rjett, að samþingismaður minn, Björn Kristjánsson, skrifaði einu sinni ádeilurit á samábyrgðina. En jeg vil spyrja: Hvað á sá maður að gera, sem er sannfærður um það, að bændastjettinni standi voði af samábyrgðinni, þegar hann hefir ekki aðstöðu til þess að fyrirbyggja voðann á löggjafarþinginu? Eina leiðin er sú, sem þessi maður greip til, að skýra alþjóð manna frá þessari skoðun sinni. En hvers vegna reiddust sambandsmenn þessu riti svo greipilega sem raun varð á? Vitanlega ekki af öðru en að það var svo mætur maður, sem ritið skrifaði. Þeir vissu, að orð hans myndu verða tekin fullkomlega til greina. Þess vegna drógu þeir hann líka fyrir lög og dóm og heimtuðu hvorki meira eða minna en ½ milj. kr. í skaðabætur. En hvernig fór? Þeir fengu engar skaðabætur, heldur aðeins nokkur orð í ritinu dæmd dauð og ómerk, og þegar þess er gætt, hversu mjög það er erfitt að skrifa ádeilurit svo, að þar sje ekkert orð ofsagt frá sjónarmiði dómstólanna, þá verður ekki sagt, að hjer hafi verið um árás að ræða.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að deila lengur um þetta mál. Það er augljóst orðið, að Framsóknarflokkurinn hefir gert það að flokksmáli. Mun það því vera rjett, sem hv. 1. þm. Reykv. gat upp á í dag, að um það hefðu verið gerðir samningar fyrirfram milli beggja stjórnarflokkanna. Koma nú fram fríðindin, sem framsóknarmenn verða að gjalda jafnaðarmönnum fyrir ráðherrasætin.

Áður en jeg lýk máli mínu, vil jeg gefa stutta yfirlýsingu, án þess þó að hafa spurt hv. þm. Dal., hvernig hann myndi taka henni. Jeg er nefnilega orðinn sárþreyttur á hinum stöðugu árásum á hv. þm. Dal., bæði í blöðum og hjer á Alþingi, fyrir það að hafa veitt sjálfum sjer bankastjóraembættið. Mjer er kunnugt um, að þegar hann ákvað að veita sjálfum sjer embættið, stóð hann í þeirri meiningu, að embættið stæði sjer til boða á annan hátt, og hann hafði fulla ástæðu til þess. Mjer hefir því altaf virst, og virðist enn, að hann verða fyrir ósæmilegu aðkasti af þessu máli.