10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að taka frekar til máls að þessu sinni, en svo má lengi brýna deigt járn, að bíti um síðir. Jeg vil þá fyrst snúa mjer að hv. 1. þm. Reykv. Hann sagði, að jeg hefði verið með árás á guðfræðinga. Ja, margt heyrir maður undarlegt frá þessum hv. þm. fleira en það, að líf stjórnarinnar væri undir því komið, að innan flokksins væri sem fæst af góðum drengjum.

Hið eina, sem jeg mintist á guðfræði, var í sambandi við það, að þessi hv. þm. væri sjálfur guðfræðingur, en jeg á bágt með að trúa því, að hann telji það árás á guðfræðingana.

Þá tel jeg enn ástæðu til að segja hv. þm. það, og vil helst ekki þurfa þess oftar, að þó að við framsóknarmenn sjeum andstæðir jafnaðarmönnum um ýms stefnumál, þá getum við unnið með þeim að vissum málum, enda væri það hin mesta þröngsýni að hafna góðu og sanngjörnu máli fyrir það eitt, að það er komið frá jafnaðarmönnum. Finst mjer, að hv. þm. ætti að geta fallist á það.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að jeg hefði í fyrri ræðu minni verið með slettur um gáfnafar háttv. þm. Barð. Þessu vil jeg mótmæla. Jeg sagði í sambandi við orð hans um það, sem hann leyfði sjer að kalla undirlægjuhátt okkar framsóknarmanna, að það væri ekki nema „eðlilegt, þó að þessari andlegu sjálfstæðishetju rynni til rifja okkar vesaldómur“, og geta allir háttv. þm. um það dæmt, hverjar árásir eru í þessu fólgnar á gáfnafar þingmannsins.

Þá var það háttv. 2. þm. G.-K., sem hjelt því fram, að höfuðrök mín fyrir skiftingu kjördæmisins hefðu verið þau, að jafnaðarmenn ættu rjett á því að fá hjer þingsæti. En þm. hefir þá misskilið mig hraparlega. Það var hitt, sem jeg hjelt fram, að höfuðrökin á móti skiftingunni mættu enganveginn vera þau, að við það ynnu jafnaðarmenn þingsæti. En á þessu er ærinn munur. Og í sambandi við þetta tók jeg það fram, að innan Jafnaðarmannaflokksins væru tvær stefnur uppi: þingræðisstefnan og byltingastefnan. Og jeg benti á, að með því að reka jafnaðarmenn út úr þinginu þá værum við að bjóða „kommunismanum“ heim, því að jafnaðarmenn gæfust ekki upp og legðu ekki árar í skut, þó að við ramman reip væri að draga.

Þá var hv. þm. Barð. að álasa mjer fyrir það, að jeg hefði ekki greitt atkv. um, hvort taka skyldi kosningu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) gilda eða ekki. Jeg hjelt hann væri nú orðinn svo þingvanur, að hann vissi, að þm. greiða iðulega ekki atkv., og það heill flokkur manna, af ásettu og yfirlögðu ráði; enda geta menn oft á þann hátt látið skoðun sína í ljós engu óskýrar en þó um atkvgr. væri að ræða. Þetta fyrirbrigði er heldur ekki óþekt innan Íhaldsflokksins. Og þessu til sönnunar vil jeg minna þm. á, að á þingi 1924, þegar gengið var til atkv. um, hvort taka skyldi kosningu Sigurjóns Jónssonar gilda eða ekki, þá sat hv. þm. Barð. hjá og greiddi ekki atkv. (HK: Jeg leyfi mjer að mótmæla þessu). Jeg hefi hjer fyrir framan mig Alþt. frá 1924, og þar stendur þetta skýrum stöfum. Þess vegna finst mjer það koma úr hörðustu átt, að þessi hv. þm. sje að álasa öðrum fyrir að greiða ekki atkvæði.