15.02.1928
Neðri deild: 23. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3081 í B-deild Alþingistíðinda. (2793)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Bernharð Stefánsson:

Jeg hefi borið fram 2 brtt. á þskj. 191, en háttv. deild hefir nú neitað um, að seinni brtt., sem er við fyrirsögn frv. sjálfs, fái að koma til atkv.

Áður á þessu þingi, og einnig á fyrri þingum, hefi jeg gert grein fyrir þeirri skoðun minni, að þeir 2 kaupstaðir, sem ekki hafa sjerstaka þingmenn, eigi nokkra sanngirniskröfu til að verða sjerstök kjördæmi, eins og aðrir kaupstaðir landsins eru. En úr því að deildin vildi ekki leyfa atkvgr. um brtt. við fyrirsögn frv., sje jeg enga ástæðu til að fjölyrða um þetta. Þó að brtt. mín við brtt. á þskj. 173 megi koma til atkv., getur hún ekki átt við lengur, fyrst frv. á að heita frv. um skifting Gullbringu- og Kjósarsýslu, og annað ekki. Jeg held því, að hæstv. forseti sje neyddur til að vísa henni frá. Og með því að jeg sje hug hv. deildar til þessa máls, tek jeg till. aftur. En það verð jeg að segja að lokum, að betur hefði jeg unnað öðrum mönnum sæmdar af því þrekvirki, að neita um lítilsháttar afbrigði frá þingsköpum, en þeim, sem til þess urðu.