15.02.1928
Neðri deild: 23. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (2794)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Magnús Jónsson:

Upp á síðkastið eru farnir að gerast heldur einkennilegir atburðir hjer í deildinni. Menn muna, að við 2. umr. þessa máls upplýstist það frá jafnaðarmönnum, að alt tal þeirra um að bæta úr órjetti Hafnfirðinga var í þeim tilgangi gert að útvega flokknum eitt þingsæti. En nú, þegar boðið er að bæta enn meir úr þeim órjetti, sem þeir hafa liðið vegna kjördæmaskipunarinnar, standa þeir allir saman og neita till. að komast að. Og þar sem þetta er 3. umr., er útilokað, að hægt verði að bæta úr þeirri skák. En þetta er samskonar yfirdrepskapur sem að látast vilja skifta G.-K. í tvö kjördæmi vegna órjettlætis, sem jafnaðarmenn bíði við núverandi fyrirkomulag. Tilgangurinn er sá einn að svifta Íhaldsflokkinn atkvæði.

En það er fleira, sem er einkennilegt. samflokksmenn flm. till. neita henni að komast til atkvæða, sem er hin mesta óvirðing. Og maður getur ekki varist þeirri hugsun, þegar svona frjálsmannlega er boðið, að láta jafnaðarmenn fá þm. fyrir Siglufjörð, að verið sje að bjarga málinu með því að útiloka till.