04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

1. mál, fjárlög 1929

Erlingur Friðjónsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. við brtt. XI. á þskj. 695, þess efnis, að styrkurinn til Kristjáns Kristjánssonar verði lækkaður úr 3000 kr. niður í 2000 kr. Hv. þm. Seyðf., sem borið hefir fram till. á þskj. 695, gat þess í framsögu, er hann mælti fyrir till., að verið gæti, að hún væri fullhá og nokkuð væri hún hærri en þessi hv. deild mundi ef til vill vilja fara í svona styrkveitingum. Af því að mjer fanst þessi upphæð óþarflega há, þá hefi jeg leyft mjer að bera þessa brtt. fram, og vonast jeg eftir því, að hún megi finna náð fyrir augum þessarar hv. deildar.