28.02.1928
Efri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg þarf aðeins að svara tveimur eða þremur atriðum í ræðu hv. frsm. minni hl. Hv. þm. talar altaf um þetta mál eins og hjer væri um það að ræða að svifta þetta kjördæmi þm. Hann talar um það eins og Hafnarfjörður væri ekki til í kjördæminu. En þetta er röng undirstaða til að byggja rök á. Þetta kjördæmi heldur áfram að hafa tvo þingmenn; því er aðeins skift, og því sem næst skift í tvö jafnstór kjördæmi. Það sama svæði og nú kýs 2 þm. heldur áfram að kjósa 2 þm. Hjer er aðeins verið að framkvæma rjettlæti. (JÞ: Hv. þm. ætti ekki að vera að tala um rjettlæti!). Jú, því hjer er ekki um annað en rjettlætis- og sanngirniskröfu að ræða. En hv. þm. vill ganga framhjá þeirri hlið málsins. Jeg veit að vísu ekki, hvort íbúatalan verður nákvæmlega jöfn strax eftir skiftinguna. En miklu munar það ekki. En Hafnarfjörður hefir vaxið mjög mikið á síðastliðnum árum, t. d. frá 1920–1926, sem skýrslur síðast ná yfir. Og hann er altaf að vaxa, og verður því ekki langt að bíða þar til hann verður jafnmannmargt kjördæmi og hinn hluti núverandi kjördæmis. Þegar litið er til atvinnuhátta innan þessa kjördæmis, þá ber að sama brunni, að síst er ástæða til að standa móti skiftingunni frá því sjónarmiði. Þegar háttv. frsm. minni hl. segir, að hjer sje verið að hvika frá stefnu Alþingis og ganga inn á þá nýju braut, að taka þingsæti frá sveitakjördæmum, þá er það hreinasta blekking. Andstæðingar þessa frv. eru altaf með það á vörunum, að hjer sje verið að taka þm. af bændum og beita þá þrælabrögðum. En þetta er hin mesta fjarstæða. Hjer er einmitt verið að tryggja það, að bændurnir í Gullbringu- og Kjósarsýslu geti ráðið öðru þingsætinu, í stað þess, að annars má búast við, að þeir ráði hvorugu. (BK: En þeir fá ekki nema einn þm.!). Gleymir hv. þm. Hafnarfirði? (BK: Nei, jeg er þm. fyrir Hafnarfjörð!). Já, það er nú kallað svo. En þetta er aðeins blekking. Önnur atriði, sem máli skifta, komu ekki fram hjá háttv. frsm. minni hl. gegn frv.

Jeg ætla mjer ekki að blanda mjer í deilur þeirra hæstv. dómsmrh. og hv. frsm. minni hl. En viðvíkjandi því, að hv. þm. var að dylgja um það, að hæstv. dómsmrh. hefði leitað bandalags við sósíalista um breytingu á kjördæmaskipuninni, þá er það fullkominn misskilningur. En það hafa íhaldsmenn gert. Jeg segi ekki, að hv. 3. landsk. hafi gert það, en menn úr hans flokki hafa talað um bandalag við jafnaðarmenn um breytingu á kjördæmaskipuninni. (JÞ: Hverjir?). Jeg veit ekki, hvort það er rjett að leggja þessa menn undir hirtingarvönd hv. 3. landsk. En það hefir líka komið opinberlega fram í blöðum þeirra, einkum úti um land, t. d. bæði á Ísafirði og Akureyri. Hv. þm. getur ekki neitað því, að opinberar umræður hafa farið fram í íhaldsblöðunum um það, að sósíalistar og íhaldsmenn ættu að taka höndum saman um að breyta kjördæmaskipuninni. Einnig hafa komið fram munnleg tilmæli um þetta, þó formleg beiðni hafi máske ekki komið. Svona lagað samkomulagsdingl byrjar nú sjaldnast á formlegan hátt, t. d. með ábyrgðarbrjefum. Það byrjar venjulega í leynilegu samtali og pískri, sem svo getur leitt til samkomulags. (JÞ: Svo dinglar nú Alþýðuflokkurinn ekki nema við einn og einn í senn). En íhaldsmenn líta nú svo á, að viðleitnin sje öllum boðin. Jeg hefi nú sýnt fram á, að hjer er aðeins um rjettlætiskröfu að ræða. Háttv. frsm. minni hl. getur engin rök fært gegn því, nema þá að hann vilji halda því fram skilyrðislaust, að íbúatalan ein eigi að ráða kjördæmaskiftingu. En þá kemst hann í mótsögn við þá skoðun, er hann hefir áður haldið fram um það mál. Jeg býst naumast við því, að neitt nýtt komi fram, sem hnekki máli mínu, og mun því naumast taka oftar til máls við þessa umræðu.