16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

91. mál, sala Garða á Akranesi

Jón Baldvinsson:

Enda þótt jeg sem einn í allshn. flytji frv. þetta, þá lít jeg það þó altaf óhýrum augum að selja landssjóðsjarðir, að minsta kosti til einstakra manna. En þar sem sú venja hefir verið tekin upp á síðustu þingum að selja kaupstöðum og kauptúnum næstliggjandi jarðir, þá sje jeg ekki ástæðu til þess að vera á móti þessu. En jeg álít, að þingið verði að tryggja það, sem beinlínis er ætlast til í þjóðjarðasölulögunum, að þær jarðir, sem næst liggja kaupstöðunum, verði ekki seldar einstökum mönnum, enda þótt hreppsfjelögin afsali sjer forkaupsrjetti á þeim. Reynslan er nefnilega margbúin að sýna það, að þegar slíkar jarðir lenda í eign einstaklinga, þá eru þær eingöngu notaðar til að „Spekulera“ með þær, og koma hlutaðeigandi kauptúni því aldrei að fullum notum.