16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

57. mál, þingsköp Alþingis

Einar Árnason:

Háttv. frsm. allshn. hefir nú skýrt afstöðu nefndarinnar til þessa frv. Nefndin leggur sem sje til, að 1. gr. sje samþ., en 2. og 3. gr. feldar.

2. gr. lýtur að skipulagi innan þingdeildanna. Jeg álít, að það sje ekki eins heppilegt eins og unt væri að hafa það, en jeg ætla þó ekki að karpa við hv. frsm. um það atriði. Hinsvegar taldi jeg við 1. umr., að aðalatriði frv. feldist í 3. gr., sem sje það atriðið að reyna að vinna nokkurn sparnað á kostnaði við þinghald. Það hefir verið talað um það, bæði hjer á þingi og utan þings, meðal manna, að þinghaldið væri mjög dýrt, og út af því hefir verið gripið til þess úrræðis að breyta stjórnarskránni í þá átt að fækka þingunum og halda þau aðeins annaðhvert ár. En jeg held því fast fram, að það megi ná miklum sparnaði með því að breyta vinnubrögðum þingsins, og ákvæði 3. gr. þessa frv. stefndu að því, þó að jeg viðurkenni, að ekki hafi verið farið vítt yfir, heldur aðeins verið takmarkaðar ræður þm. að nokkru; en jeg er viss um, að ef tækist að takmarka þær að nokkru, myndi þingið þar með stytt allmikið, og þegar þinghald kostar 1500 kr. á dag, getur það munað nokkru, þótt það styttist ekki nema sem svaraði tveim–þrem vikum. Prentun hefir undanfarið kostað um 80 þús. kr., og þessi ákvæði, sem í greininni felast, myndu líka ná til þess að minka þann kostnað að nokkru.

Í nál. hv. allshn. er það tekið fram, að hún viðurkenni í raun og veru, að það mætti ná nokkrum sparnaði með því að takmarka ræður þm., en aðeins að hún geti ekki fallist á þá uppástungu, sem hjer kemur fram. Mjer virðist nú, að hv. nefnd hafi ekki viljað leggja mikið á sig fyrir þetta sparnaðarmál, þar sem hún leggur ekki út í að gera neinar tillögur til breytinga á greininni. Jeg tók það fram við 1. umr. málsins, að jeg hjeldi alls ekki fast við það fyrirkomulag, sem stungið væri upp á; jeg gæti vel fallist á breytingar, ef þær væru til bóta, um þetta, aðeins ef þær næðu því marki, sem jeg ætlaði að ná. Það er að sjálfsögðu engin ástæða til að tala langt mál um þetta. Jeg geri ráð fyrir því, að hv. deild skeri úr um það, og jeg tel það víst, að það sjeu þó nokkuð margir hjer innan þessarar hv. deildar, sem vilji fylgja þeim sparnaðarákvæðum, sem í þessu frv. standa. Það hefir áður verið samþykt eitthvað í svipaða átt, svo að jeg geri ráð fyrir því, að 3. gr. verði að minsta kosti samþykt.