16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

57. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg er ekki viss um, að hv. 5. landsk. hafi athugað þetta nógu vel áður en hann tók sína afstöðu. Ef við förum nú að gefa utanríkismálum á þingi aðra meðferð heldur en nokkrum öðrum málum, með því að hafa ekki tiltæka nefnd fyrir þau í hvorri þingdeild, heldur einungis úr sameinuðu þingi, þá sýnist mjer, sem með nokkrum rjetti megi líta svo á, að þessum málum sje ekki valin eins vönduð meðferð eins og stjórnarskrá og þingsköp ákveða um önnur mál. Öll mál, sem hjer koma fyrir, eru mál alls þingsins, eins og utanríkismál. En það hefir þótt rjett að ákveða fyrst meðferð í hvorri deild, og svo í sameinuðu þingi, ef ágreiningur verður. Jeg álít, að ef við förum að taka þau mál lausari tökum heldur en ákveðið er um önnur mál, þá muni það verða lagt þannig út, sem við lítum svo á, að við þurfum ekki að hugsa svo mikið um okkar utanríkismál sem um önnur mál, og álít jeg, að við eigum að forðast að gefa nokkurt tilefni til þess, að slíkt verði hugsað, að íslenskt löggjafarvald ráði ekki yfir sínum utanríkismálum. Mjer finst, að við gerum það best með því að setja þau alveg við hliðina á öðrum málum, sem löggjafarvaldið fjallar um.