29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3177 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

57. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg gleymdi að taka það fram, að nefndin var sammála um að leggja fyrir forseta að sjá um, að ný sæti væru útveguð fyrir næsta þing. Sæti þau, sem nú eru ætluð þm., eru með öllu óhæf, og ef til vill eiga þau ekki lítinn þátt í þeirri ókyrð, sem oft er á þm. meðan á fundum stendur. Þá vildi og nefndin koma í veg fyrir umgang þann, sem oft er um deildina af öðrum en þm., en annars virðist nægilegt, að forsetar gæfu út fyrirskipanir um það.

Jeg hefði kosið, að hv. 1. þm. N.-M. frestaði till. sinni til næstu umr. Að vísu hafa tveir nefndarmenn talið sig meðmælta henni, en nefndin í heild hefir ekki tekið afstöðu til hennar. Í nágrannalöndunum er það fyrirkomulag, að kosin er svo kölluð „social“nefnd, fjelagsmálanefnd, sem hefir með höndum tryggingarmál og önnur skyld mál, sem allshn. hefir með höndum hjer. Er það önnur skifting mála en sú, sem hv. 1. þm. N.-M. leggur til, en eftir á að rannsaka um eðli mála þeirra, sem allshn. vinnur að, svo að á því væri hægt að byggja skynsamlegan klofning nefndarinnar í tvær.