29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3179 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

57. mál, þingsköp Alþingis

Pjetur Ottesen:

Jeg vil benda á, hvílík fjarstæða sú mótbára hæstv. forsrh. gegn brtt. minni hl. var, að með því móti væri forseti Nd. útilokaður frá setu í utanríkismálanefndinni. Þótt núverandi forseti sje vel fallinn til að eiga þar sæti, geta allir sjeð, hve fráleitt er að miða framtíðarskipulag þessara mála við það. — Auk þess hefir verið upplýst, að ekkert er á móti því, að forseti geti átt sæti í nefndinni. Það er algengt, að forseti neyti þingmannsrjettar síns og tali í málum, og því kæmi það ekki í bága við stöðu hans, þótt hann væri í slíkri nefnd. En vitanlega kemur til engra mála að byggja framtíðarskipulag málsins á því, hvort einn sjerstakur maður getur verið í nefndinni eða ekki.

Það hefir verið bent á það, að mjög stórvægileg utanríkismál hafa legið fyrir þinginu og verið rædd þar og afgreidd á sama hátt og önnur þingmál. Má í því efni benda á Spánarsamninginn. Jeg man aftur á móti ekki eftir því, að nokkru sinni hafi verið kosin nefnd til að íhuga utanríkismál af Sþ., þótt þau mál hafi hinsvegar oft verið borin undir Sþ., bæði á opnum og lokuðum fundi. Þetta sýnir, að fyrst og fremst á að ráðstafa þessum málum á þann hátt, að farið sje með þau sem önnur löggjafarmál. Sú ástæða, sem fram hefir verið borin gegn kosningu nefndarinnar í báðum deildum, að það gæti orðið til þess að málin hrektust milli deilda vegna ósamþykkis, er næsta lítils virði. Hvaða trygging er fyrir því, að ekki geti orðið skiftar skoðanir í nefnd, sem kosin er af Sþ.?

Hv. frsm. meiri hl. vildi halda því fram, að þótt frv. væri samþ. með brtt. meiri hl., væri það ekki lögfest, að nefndarmenn skuli vera búsettir í Reykjavík. Satt er það, að í orði kveðnu er svo að vísu ekki, en raunverulega er utanbæjarþingmönnum fyrirmunað að taka þátt í störfum slíkrar nefndar. Ekki hefir neitt það komið fram í sambandi við brtt. hv. þm. Dal., er geri hana aðgengilegri en till. meiri hl. Að vísu var hann að tala um varamenn í nefndinni, en kom ekki fram með neina till. um það.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, en tel sjálfsagt að fara að till. minni hlutans um skipun nefndarinnar.