14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3185 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

126. mál, prentsmiðjur

Frsm. (Páll Hermannsson):

Frumvarp þetta er komið frá Nd. og hefir gengið óbreytt gegnum þá deild. Það, sem farið er fram á í frv., er, að prentsmiðjum landsins sje gert skylt að láta af höndum endurgjaldslaust einu eintaki fleira en nú er skylda. Nú er prentsmiðjum skylt að láta af hendi 9 eintök af hverju riti. Fara 3 eintök til Kaupmannahafnar, 2 eintök til Landsbókasafnsins í Reykjavík, og amtsbókasöfnin fjögur fá sitt eintakið hvert. Hjer er farið fram á að bæta við 10. eintakinu, til amtsbókasafns Færeyinga. Hjer er ekki miklu til kostað, enda líklegt, að endurgjald komi fyrir í útbreiðslu íslenskra bóka í Færeyjum síðar. Má og telja þetta sjálfsagða skyldu gagnvart Færeyingum, frændum vorum. Þetta er mikill fengur fyrir þá og sú hjálp, sem þeir þurfa ekki hvað síst á að halda. Þetta er oss hægt verk og ætti að vera oss ljúft verk. Jeg býst við, að allir þeir, sem heyrðu á fyrirlestur um færeysk mál í gærkvöldi, sjái, að hjer er um gott verk og sjálfsagt að ræða. Nefndin var á einu máli um, að samþykkja bæri frv. óbreytt.