25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3187 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Þótt þetta frv. sje umfangsmeira en hitt, sem var næst á undan hjer til umr. (um nauðungaruppboð á fasteignum), skal jeg heldur ekki vera langorður um það. Jeg hefi látið fylgja því allítarlega greinargerð, og álít jeg, að það eigi að geta stytt umr. nokkuð.

En þó að grg. sje ítarleg, skal jeg þó drepa á aðalatriðin í frv. Ein helsta breytingin er sú, að hætt verði að innfæra þinglesin skjöl í bækur, heldur verði skipað svo fyrir, að þau skuli afhent í tveim eintökum þeim embættismanni, sem hefir þinglýsing skjala með höndum. Það er nú orðið svo mikið um þinglýsing skjala á landinu, sjerstaklega hjer í Reykjavík, að það er tæpast, að einn maður anni því starfi hjer í bænum að færa þau öll inn.

Jeg skal játa, að á þessu fyrirkomulagi er dálítill annmarki, að hafa skjölin í tveim eintökum. En þau munu hinsvegar flest vera útbúin af starfsmönnum, sem hvort sem er ganga þannig frá þeim, að það getur ekki talist mikil fyrirhöfn að búa til einu eintaki fleira.

Jeg tel sjálfsagt, að málið sje athugað gaumgæfilega í nefnd og vil leggja til, að því sje vísað til hv. allshn.