08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3195 í B-deild Alþingistíðinda. (2914)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Magnús Torfason:

Hv. frsm. hefir misskilið mig, ef hann heldur, að jeg hafi ætlað að leggja stein í götu þessa frv. Jeg áleit aðeins, að tillögur mínar mundu vinna að því að gera frv. fullkomnara, og er það samkv. reynslu minni í þessum efnum. Hv. frsm. þóttist ekki skilja orð mín um, að hugsun frv. væri ekki fylgt nógu langt. Jeg spurði, hvort það væri meiningin að fylgja sænsku reglunni, en hún byggist á því, að hver fasteign hefir sitt sjerstaka hylki. Yrði þá lítið í hverri möppu til að byrja með, en með tímanum gæti þetta orðið afarmikið skjalasafn, sem síðan yrði sett í söfnin til geymslu? Jeg sný ekki aftur með það, að sænska kerfið er fullkomnara en það, sem hjer er gert ráð fyrir.

Jeg tók það fram í ræðu minni, að það helsta, sem hægt væri að hafa á móti þessu, væri það, að geymslustaðir þeir, sem sýslumenn hefðu, væru yfirleitt ekki nógu öruggir og skrifstofurúm ekki gott. Þetta þarf nauðsynlega að laga, því að það er ósæmilegt, að merkileg skjalasöfn skuli þess vegna grotna niður eða verða jafnvel að engu. Meðal annars, er hv. frsm. hafði á móti þessu, var það, að ekkert viðlit væri að ætlast til, að þessar möppur kæmust í hina eldtraustu skápa sýslumanna, vegna þess hve þeir væru litlir. Jeg verð að álíta það vafamál, hvort skrárnar komast í þá heldur, því að þeir gera varla betur en að taka reikningsbækurnar. Jeg kem t. d. ekki gjaldabókinni í minn skáp. Þetta þarf auðvitað að laga og svo líka skrifstofurúm það, sem sýslumenn alment hafa.

Þegar jeg var á Ísafirði, hefi jeg líklega haft best skrifstofurúm af öllum sýslumönnum landsins. Jeg sá það, að ef jeg ætti að halda embættinu í sæmilegri reglu, þá var um að gera að hafa nóg skrifstofurúm. Ein ástæða fyrir því, hve oft er óregla á embættisfærslu sýslumanna, er einmitt þetta, að þeir hafa ekki nógu mikið rúm. Þeir þurfa að hafa nóg pláss fyrir skjölin, stóra skápa með mörgum hólfum, svo að alt sje í röð og reglu. Jeg hygg, að jeg hafi aldrei verið lengur en 5 mín. að leita að skjali, þegar jeg var á Ísafirði, og var það þó eitt stærsta sýslumannsembætti landsins utan Reykjavíkur. Viðvíkjandi því, er jeg sagði um það að hafa skrárnar fleiri en eina, vil jeg geta þess, að jeg hafði vitanlega tekið eftir þessum orðum í 11. gr. „eina eða fleiri“, en í þeirri gr. er líka talað um lóðaskrá, og þurftu því þessi orð ekki að eiga við aðrar skrár en aðalskrána og lóðaskrána. Í þessu máli fer jeg aðeins eftir því, sem jeg hefi gert sjálfur. Eins og hv. frsm. mun kunnugt um, var engin veðmálaskrá til, þegar jeg tók við í Árnessýslu. En þegar Sigurður sýslumaður fór frá, gerði hann þessar skrár og gerði þær svo vel úr garði, að jeg efast um, að nokkursstaðar á landinu sjeu til betri skrár en í Árnessýslu. Fyrirkomulag skránna komum við okkur saman um og höfðum það þannig:

1. bók fyrir jarðeignir, fasteignabók. 2. bók fyrir húseignir og lóðir, 3. bókina fyrir lausafje og 4. bókina fyrir skip. 5. bók fyrir bifreiðar. Nú er það vitanlegt, að smáskip, sem eru undir 5 smálestum, teljast sem lausafje. Þar fyrir sje jeg ekkert á móti því að hafa þau öll í sjerstakri deild með skipum og á sama stað.

Sömuleiðis er ekkert á móti því að hafa allar bifreiðar saman, úr því halda þarf yfir þær sjerstakt registur hvort sem er. Með öðrum orðum, þetta hefir það í för með sjer, að lausafjárskráin, sem altaf er hálfgerð ruslaskrína, verður fáskrúðugri. En eins og skiljanlegt er, vill lausafjárskráin oft verða óaðgengileg, eftir því sem árin líða, og erfitt að leita í henni nema tekinn sje hver flokkur út af fyrir sig. Eins og jeg sagði, gæti þetta náð að nokkru leyti undir þær reglur, sem dómsmrh. á að gefa og rætt er um í lok 10. gr. og 11. gr.

En það er athugavert, hvort ekki sje rjett að víkja orðunum svo við, að dómsmrh. hafi frjálsari hendur. Það er alveg rjett hjá hv. frsm., að veðmálabækur mega vera nokkuð misvandaðar í hinum ýmsu umdæmum, eftir því hve stór þau eru. Það er þó svo á okkar landi, sem er á hraðri framfaraleið á ýmsum sviðum atvinnulífsins, að ómögulegt er að spá neinu um það, hve miklar þinglýsingar í ýmsum umdæmum geta orðið síðar meir. Jeg skal fúslega viðurkenna, að jeg er mjög feginn að losna við afskriftirnar, enda þótt þær komi aðallega niður á skrifara mínum. En ef vel á að ganga frá öllu og alt að vera í röð og reglu, get jeg ekki sjeð, að sparnaðurinn sje svo ýkja mikill.

Um það, hvort lög þessi gangi í gildi 1. júlí, skal jeg geta þess, að jeg hjelt, að ekkert lægi á því, og mætti það bíða til ársloka, meðal annars vegna þess, að þingin byrja 16. júní, þannig að sum skjöl, sem þinglýst yrðu þetta ár, kæmu ekki fram á sjálfum þingunum.

Jeg endurtek það, að jeg er alls ekki mótfallinn þessu frumv. Jeg vil gera mitt til, að það verði sem best úr garði gert, og vænti jeg, að hv. frsm. sje mjer frekar þakklátur fyrir en hitt.