14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Magnús Torfason:

Jeg get verið hv. frsm. allshn. þakklátur fyrir það, hvernig hann tók undir brtt. mínar. Kerfi það, sem hjer er um að ræða, hefir verið notað í skrifstofum einstakra manna og gefist mjög vel. Það er rjett, að ekki er ákvæði í frv. um það, hvað gera eigi við þau skjöl, sem tekin eru í burtu. Jeg athugaði þetta, en kom þó ekki með brtt. til þess að bæta úr því, af því að jeg var ekki viss um, til hvers var ætlast. En jeg tel sjálfsagt að geyma skjölin vel, svo þau glatist ekki. Það hefir komið sjer vel að hafa slík skjöl. T. d. var eitt frægt mál í Árnessýslu, sem komst til hæstarjettar, út af afriti á einu skjali. Jeg tel því rjett að hafa þetta atriði óákveðið og láta dómsmrh. fyrirskipa um það.

Að því er bifreiðaskrárnar snertir, þá tel jeg þær alveg óumflýjanlegar. Bifreiðarnar ganga kaupum og sölum, eru veðsettar o. s. frv., og er því nauðsynlegt að hafa sjerstaka skrá yfir þær.

Jeg er alveg sammála hv. frsm. um það, að æskilegast væri, ef lög þessi gætu gengið í gildi 1. júlí þ. á. En jeg er hræddur um, að fyrir þann tíma verði ekki hægt að undirbúa alt þetta kerfi. Ennfremur er jeg hræddur um, að ekki verði hægt að hafa hinn fyrirskipaða pappír til fyrir 1. júlí, og jafnframt búið að senda hann út um alt land.