12.03.1928
Efri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3206 í B-deild Alþingistíðinda. (2928)

38. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Frsm. (Jón Þorláksson):

Nefndin leggur til, að frv. þetta verði samþ. með smábreytingum, sem eru að finna á þskj. 446.

1. brtt. er við 7. gr. og lýtur að því, hvað skuli taka fram í þeirri skrá yfir skjöl, sem afhent hafa verið til þinglesningar á manntalsþingi. Greinin tiltekur, að nefna skuli, hver sje eigandi skjals, útgefandi, hver sje tegund skjalsins og fjárhæð, en nefndin vill skjóta inn í þá upptalningu, að einnig skuli taka fram um veðsetningu. Þetta verður að telja nauðsynlegt, svo að veðhafi geti gætt rjettar síns, ef með þarf, og að veðsetningin komi þá fram í þeirri skýrslu, sem gefin er á manntalsþingi.

Þá er lítil brtt. við 11. gr. Síðasta málsgr. þeirrar gr. hljóðar svo: Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag skráa þeirra, er í þessari grein getur.

Nefndinni þótti fara betur á að segja „skránna“ í stað „skráa þeirra“ og væntir, að hv. deild geti fallist á það.

Næsta brtt. er við 13. gr. Nefndinni sýnist, að gr. hafi aflagast í hv. Nd. eða í endurprentun frv. eftir 2. umr. þar. Orðin „í bókinni“ stóðu í gr. á tveim stöðum, en voru feld úr með brtt. án þess að hægt væri að sjá, á hvorum staðnum þetta ætti að fella niður, enda hefir það í prentuninni verið gert á röngum stað. Nú liggur næst að skilja þetta svo, að ekki þurfi annað en að strika yfir skjal í afsalsog veðmálabók við aflýsing þess. En þetta er ekki nógu tryggilegt. Það. verður að rita í bókina, að skjalinu hafi verið aflýst, og undirrita þetta með nafni lögreglustjóra eins og yfirlýsinguna á skjalið, sem afhent er til aflýsingar.

4. brtt. er við 16. gr., um að lögin gangi ekki í gildi fyr en við næstu áramót, í stað þess að í frv. er það miðað við 1. júlí 1928.

Það þarf dálítinn aðdraganda til þess að koma þessum breytingum í kring úti um land. Meðal annars þarf að útvega pappír og dreifa honum út um land. Um það leyti, sem lögin eiga að ganga í gildi samkv. frv., standa manntalsþing yfir. Skjöl, sem þá verða gerð, geta ekki orðið á hinum lögboðna pappír, með því að ekki er hægt að dreifa honum út um land nógu snemma til þess. Nefndin lítur því svo á, að hentugra sje, að lögin sjeu bundin við áramót og gangi í gildi 1. jan. 1929, enda hafi viðkomandi ráðuneyti þá lokið nauðsynlegum undirbúningi til þess að hægt sje að framfylgja þeim þegar í stað.