15.03.1928
Efri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (2954)

127. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fjhn. hefir haft þetta mál til athugunar og hefir skilað nál, á þskj. 420. Einn hv. nefndarmaður hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og jeg hygg rjett að geta þess, að hv. 1. þm. Eyf. var ekki allskostar ánægður með frv., þótt hann gerði það ekki að ágreiningsatriði og skrifaði undir nál. án fyrirvara. En síðan nefndin skilaði áliti sínu, hefir komið fram brtt. við frv. frá hæstv. dómsmrh. á þskj. 469. Þá brtt. hefir nefndin að vísu athugað, en ekki tekið fasta afstöðu til hennar, og hafa nefndarmenn því óbundnar hendur, er til atkvgr. kemur um hana. En jeg hefi leyft mjer ásamt hv. 3. landsk. að bera fram brtt. við þá brtt. hæstv. dómsmrh. Fyrri lið brtt. hans get jeg fylgt að nokkru, en ekki að öllu leyti.

Til þess að gera hann aðgengilegri bæði fyrir mig og ef til vill fyrir aðra hv. deildarmenn, hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. við þennan lið, svo að það ákvæði, að fjelagið sje undanþegið tekju- og eignarskatti árin 1929–1930, geti náð fram að ganga, þótt síðari liður brtt. fái ekki nægilegt atkvæðamagn til þess.

Þá hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt., eða kannske öllu heldur viðaukatill., um að fjelaginu sje ekki skylt að flytja ókeypis farþega vegna landsins nema „alt að 10 menn með hverri skipsferð“.

Þessi brtt. er fram komin eftir að kunnugt var orðið um undirtektir Eimskipafjelagsins undir þetta nýmæli, sem felst í brtt. hæstv. dómsmrh., og þótt þau ummæli kæmu gegnum einn hv. nefndarmann, þá álít jeg mjer fyllilega heimilt að lýsa yfir þeim hjer, þar sem þessi hv. þm. er einn úr stjórn Eimskipafjelagsins. Hann kvað stjórn Eimskipafjelagsins ekki vera því mótfallna, að þetta ákvæði væri sett inn, en þá fyndist stjórninni það betur viðeigandi, að það væri sett í samband við þann styrk, sem fjelaginu er ætlaður í fjárl. samt sem áður mundi stjórnin ekki gera það að ágreiningsatriði. Ennfremur óskaði stjórnin, þótt hún hinsvegar sæi ekki tormerki á því að verða við þessari kvöð, að því ákvæði yrði bætt við, að fjelaginu skuli ekki vera skylt að inna hana frekar af hendi en svo, að það flytji ókeypis 10 farþega hæst með sama skipi. En jeg geri ráð fyrir, að hæstv. stj. eða hæstv. dómsmrh. hafi hugsað sjer, að þessi kvöð yrði int af hendi svo, að sem minstur fjárhagslegur skaði yrði af fyrir fjelagið. Jeg vænti þess vegna, að brtt. okkar hv. 3. landsk. nái fram að ganga, því að jeg held, að hún fari ekki verulega í bága við hagsmuni fjelagsins, nje heldur þeirra, sem þessara hlunninda eiga að verða aðnjótandi. Fjelagið hefir nú 3 skip í förum milli landa, svo að það ætti ekki að taka nema 2 ferðir að inna þessa kvöð af hendi til fulls.

Eins og jeg hefi þegar tekið fram, hefir fjhn. óbundnar hendur, er til atkvgr. kemur, um allar þessar brtt., en við hv. 3. landsk. munum auðvitað fylgja fram okkar brtt., og verði hún samþ., mun jeg fyrir mitt leyti greiða atkv. með brtt. hæstv. dómsmrh. á þskj. 469.