20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3232 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

39. mál, lögtak

Magnús Torfason:

Það er víst, að jeg hafði ekki hugmynd um þegar till. þessi kom fram, því að ef jeg hefði vitað um hana, myndi jeg hafa reynt að mæta á fundinum. Mjer virðist háttv. þm. Barð., sem mig minnir að sje hreppstjóri, líta svo á, að hann gæti ekki úrskurðað neitt, ef mótmæli kæmu fram; það yrði að bera alt undir sýslumann. Þetta er rjett, — en hvar er tryggingin fyrir, að mótmælin komi fram? Annars legg jeg ekki aðaláhersluna á þetta atriði, eins og jeg hefi tekið fram áður, heldur á frv. sjálft, eins og það kemur frá Ed., því að í því tel jeg fólgna mikla bót frá því fyrirkomulagi, sem nú er í þessu efni. Jeg vil því heldur heilum vagni heim aka heldur en eiga nokkuð á hættu, hvað Ed. gerir, ef málið kemur til hennar aftur. Hvað hún gerir, ef brtt. háttv. þm. Barð. verða samþyktar, skal jeg ekki fullyrða, en svo mikið er víst, að frv. eins og það er nú var afgr. þaðan með öllum atkvæðum, og er mikill munur á því eða ef það hefði verið afgr. með litlum atkvæðamun. Og fari svo, að það lendi í sameinuðu þingi, þurfa ekki nema 14 atkv. á móti til þess að fella það, og standi Ed. þar saman, eru örlög málsins auðsæ. Jeg vil því ekkert á það hætta, að fara að hrekja það aftur á milli deilda, því eins og jeg hefi tekið fram, tel jeg þetta fjárnámsákvæði ekki bráðnauðsynlegt. Það mætti þá koma því fram á næsta þingi.