13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil strax taka það fram út af fyrirspurn hv. þm. Dal., að enn er ekki lokið fullnaðarrannsókn á vegarstæðinu vestur þar, og á meðan er því ekki unt að segja, hvernig byggingu Vesturlandsvegarins verður háttað; en hitt er ekki nema sjálfsagt, að stj. taki fult tillit til bæði þess, sem sjerfræðingar hennar leggja til, svo og óska hjeraðsbúa, en að svo stöddu er ekki hægt að taka neina ákvörðun.

Þá var það ræða hv. þm. Borgf., sem jeg vildi víkja að nokkrum orðum. Jeg er honum algerlega sammála um margt, sem hann sagði, og get þar af leiðandi að miklu leyti fallist á „kritik“ hans á hv. Ed. um afgreiðslu fjárlaganna. Jeg vil líka taka undir það, sem hann sagði, að þm., ekki aðeins stjórnarflokkurinn, heldur og allir aðrir, verða að gera sjer ljóst, að það er mikið ábyrgðarstarf, sem hvílir á þeim um afgreiðslu fjárlaganna.

Hv. þm. Borgf. vildi halda því fram, að þó að tekjuafgangur væri talinn nú í frv., væri þó um allverulegan tekjuhalla að ræða, sem stafaði af því, að sú nýlunda hefði verið tekin upp að þessu sinni að fela í síðari gr. frv. ýmsar upphæðir til útgjalda, sem ekki væru taldar með, þegar jöfnuður tekna og gjalda var gerður. En hjer er ekki um neina nýlundu að ræða. Þetta hefir átt sjer stað um öll fjárlög síðari ára.

Hitt mætti fremur segja, að það, sem einkennir þetta fjárlagafrv., er það, að upp í það eru nú þegar teknar allstórar útgjaldaupphæðir, sem þingið nú hefir stofnað til með sjerstökum lögum. T. d. hefi jeg borið fram þrjú frv., er útgjöld hafa í för með sjer og eru samþ. af þinginu, og eru þær upphæðir allar settar inn í 16. gr., en sú venja hefir ekki tíðkast áður, að láta fjárlögin þegar sýna svo rjetta mynd af væntanlegum útgjöldum ríkisins. Jeg er þess vegna alveg á sama máli og hv. þm. Borgf., að fjárlögin eiga að sýna sem rjettasta mynd af fjárhagsafkomu ríkisins, þó að gera megi ráð fyrir, að einhverju geti skakkað á ýmsum áætlunarliðum, því vitanlega verður það landsreikningur hvers árs, sem rjettustu myndina sýnir. Og um síðasta landsreikning, sem hæstv. fyrv. stj. fór höndum um, er það að segja, að gjöldin fóru 1½ miljón króna fram úr áætlun, og stundum hefir það numið talsvert meiru. Það, sem hv. þm. Borgf. kallaði sjerkennilegt við þetta fjárlagafrv., er ekki annað en að upp í það eru teknir útgjaldaliðir, sem þingið hefir samþ. með sjerstökum lögum.

Um styrkveitingar til einstakra manna, eða bitlingafarganið yfir höfuð, er jeg alveg á sama máli og hv. þm. Borgf.; jeg tel eins og hann, að langt of mikið hafi verið sett af slíku inn í frv. í hv. Ed., og af þessari hv. deild líka. En hitt veit jeg, að hann og fleiri hafa tekið eftir, að hjer í deildinni kom ekki mín hönd upp til samþykkis þeim bitlingum, er komust inn í frv. Jeg var á móti þeim undantekningalítið, eins og jeg hefi altaf verið.

Hv. þm. Borgf. spurði: Hver veldur því, að þannig fór um afgreiðslu fjárlaganna að þessu sinni? Jeg álít ekki nema rjett, að slík spurning komi fram og að reynt sje að svara henni. Það hefir hv. þm. Borgf. reynt fyrir sitt leyti. Hann vill kenna stj. um, telur, að hún hafi ekki gætt sem skyldi þeirrar ábyrgðar, sem á henni hvílir í þessu efni.

Jeg ætla ekki að verja stj. um þetta, enda býst jeg við, að hún hafi ekki verið fullkomlega nóg á verði um afgreiðslu fjárlaganna, sem kannske má afsaka með því, að um þingtímann er stj. svo hlaðin störfum, að hún getur ekki haft augun alstaðar með því, sem er að gerast. En af afgreiðslu fjárlaganna að þessu sinni vona jeg, að stj. hafi numið þann lærdóm, að gæta sín enn betur á næsta þingi, svo að afgreiðslu málsins verði betur í hóf stilt, að svo miklu leyti, sem það getur verið á stjórnarinnar valdi. Jeg fyrir mitt leyti mun gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að bæta það upp, sem mjer hefir áfátt orðið að þessu sinni.

En eins og hv. þm. Borgf. ljet uppi sína skoðun á bitlingafarganinu, hverjir væru valdir að því, þá vil jeg einnig láta mína skoðun uppi.

Jeg álít, að í allri afgreiðslu fjárlaganna hafi andstöðuflokkur stjórnarinnar sýnt meira ábyrgðarleysi nú en andstöðuflokkur fyrv. stj. sýndi í fyrra. Jeg var skrifari áður hjer í hv. deild og hafði því góða aðstöðu til að athuga, hvernig þm. greiddu atkv., og jeg hefi veitt því eftirtekt nú, að hv. Íhaldsmenn hafa ekki sýnt svipað því eins mikla varfærni í atkvgr. um ýmsar bitlingatill. og þeir voru vanir, eða eins og við Framsóknarmenn sýndum í fyrra.

Jeg neita því alls ekki, að mjer þykir leitt að þurfa að samþ. frv. eins og það er nú, og jeg tel, að sú langa bitlingaruna, sem komist hefir inn í 14. og 15. gr., sje þinginu til vansæmdar. En þó að jeg játi, að stj. hafi ekki staðið á verði eins og skyldi um afgreiðslu fjárlaganna, þó að hún hafi gert það a. m. k. eins vel og fyrv. stjórnir, þá held jeg og hinu fram, að andstöðuflokkur hennar hafi sýnt alt of mikið ábyrgðarleysi í allri sinni framkomu. Jafnhliða vil jeg minna hv. þm. Borgf., sem lengi hefir átt sæti í fjvn. þessarar deildar, á það, að hjá því verður ekki komist, að báðir aðalflokkar þingsins beri ábyrgð á afgreiðslu fjárlaganna.

Á fyrsta þinginu, sem jeg átti sæti, sem jafnframt var fyrsta þingið, er fyrv. hæstv. stj. sat að völdum, gaf form. Íhaldsflokksins okkur Framsóknarmönnum þann vitnisburð, að við hefðum verið mjög samhentir og sýnt jafnmikla umhyggju fyrir heppilegri afgreiðslu fjárlaganna eins og flokksmenn stj. Því miður get jeg ekki gefið andstæðingum mínum á þessu fyrsta þingi, sem jeg er í stjórn, sama vitnisburð.