06.02.1928
Neðri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3234 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

59. mál, ríkisborgararéttur

Benedikt Sveinsson:

Það er eigi ætlun mín að leggjast í móti þessu frv. En mjer kemur það nokkuð undarlega fyrir sjónir, að danskur ríkisborgari skuli biðja um íslenskan ríkisborgararjett. Jeg fæ eigi betur sjeð en að þar sje verið að láta hið meira, en taka hið minna.

Það er nú komið á 10. ár síðan sambandslögin voru samþykt. Ríkisstjórn Dana tókst þá á hendur og skuldbatt sig til að kunngjöra heiminum, að Ísland væri sjálfstætt og fullvalda ríki. Jeg vil ekki staðhæfa, að hún hafi með öllu vanrækt hlutverk sitt. En hitt er víst, að Danastjórn hefir slælega tekist að koma öðrum þjóðum í skilning um það, að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki. Það kemur þrásinnis fyrir, að eftirlitsmenn kannast alls ekki við íslensk vegabrjef, vita ekki um hið frjálsa og fullvalda ríki, nje hafa hugmynd um, að til sjeu „íslenskir þegnar“. Maður, sem nýlega fór til Frakklands, átti í mesta þjarki að komast leiðar sinnar. Landamæraverðirnir höfðu enga hugmynd um Ísland, og að lokum varð hann nauðbeygður til að láta skrá sig danskan borgara. Slík dæmi veit jeg mörg og sýnist af þeim mun verra að vera íslenskur ríkisborgari en danskur.

Það má teljast sök sjer, þó að suðrænar þjóðir, eða þær, sem eigi eru nálægari en t. d. Frakkar, kunni ekki skil á fullveldi Íslands. En þá fer skörin að færast upp í bekkinn, þegar alnæstu nágrannaþjóðir vorar vita engu meira. En í Englandi er það svo, að annaðhvort hafa menn aldrei vitað, að Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki, eða vitneskjan um það er að leggjast niður. Tvö ensk stórblöð, Weekly Times og Daily Express, hafa nýlega skýrt frá því, að enskur útgerðarmaður hafi verið sæmdur fálkakrossinum íslenska. Vafalaust hefir honum verið þessi sómi sýndur fyrir tilstilli einhverra ráðandi manna hjer heima. En þessi ensku blöð, sem lesin eru um víða veröld, kalla þetta danska nafnbót og segja í því sambandi, að Ísland sje dönsk hjálenda. Heiðursmerkið afhenti sendiherra Dana í Lundúnum.

Þegar ensk stórblöð flytja aðrar eins frjettir og þessa út um allan hinn breska heim, má nærri geta, hver skoðun er, og verður, um afstöðu Íslendinga, og verður eigi annað sjeð en mönnum sje ótili einn eða „bjarnargreiði“ ger með því að gefa þeim vegabrjef í nafni Íslands.

Engi má skilja orð mín svo, að jeg telji utanríkisstjórn Dana eiga sök á því, yfir höfuð, sem erlend blöð kunna að segja í fáfræði sinni um eitthvað það, er Ísland varðar. En hjer stendur svo á, að stjórn hins fullvalda Íslands sæmir breskan borgara íslenskri nafnbót fyrir greiðvikni við íslenska þegna. Heiðursmerkið afhendir danski sendiherrann í Lundúnum. Stórblaðið „Times“ o. fl. ensk stórblöð skýra frá þessu á þann hátt, að Danastjórn hafi viljað heiðra þennan breska borgara fyrir greiða við danska þegna og hjálendu Danmerkur.

Íslenska fálkaorðan er þá ekki alveg ónýt, ef hún verður til þess erlendis að hjálpa til að afmá þá viðurkenningu, sem Íslandi ber sem sjálfstæðu og fullvalda ríki, — eins og orðið hefir í þetta sinn. Jeg sje eigi betur en sendisveit Dana í Lundúnum hafi borið skylda til að leiðrjetta þessa missögn tafarlaust. Megum vjer varla við una, að þetta sje aðgerðalaust.

Jeg sje eigi ástæðu til að fjölyrða meir um þetta efni. En í sambandi við frv. þetta vildi jeg beina. þeim tilmælum til hæstv. stjórnar um leið og frv. verður samþykt, að reynt verði að sjá svo um, að menn bíði eigi halla við það framvegis að öðlast íslenskan ríkisborgararjett.