13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

1. mál, fjárlög 1929

Lárus Helgason:

* Eins og þegar hefir verið tekið fram, mun það ráðið, að þessi hv. deild taki við fjárlagafrv. eins og hv. Ed. þóknaðist að ganga frá því. Þó býst jeg við, að fleirum fari sem mjer, að það verði ekki með óblandinni ánægju gert að gleypa frv. eins og það nú er. Enda finst mjer óviðeigandi sú venja, sem upp virðist hafa verið tekin nú síðustu árin, að forðast eins og eitthvert ódæði, að fjárlagafrv. fari í Sþ.

Með slíkri venju, sem þarna er upp tekin, sje jeg ekki betur en að þeirri deildinni, sem færri þm. hefir, sje gefið alt of mikið vald, en sem mætti að vísu afsaka, ef þar sætu vitrari menn og ráðsnjal]ari. En virðist hv. þdm. afgreiðsla frv. benda til þess, að svo sje? Jeg bara spyr!

Jeg tel óþarft að taka hjer upp aftur það, sem hv. þm. Borgf. sagði. Það var vel og skörulega mælt; aðeins læt jeg mjer nægja að lýsa yfir, að jeg er honum að öllu leyti sammála. Sjerstaklega vil jeg þó taka undir það, sem hann sagði um styrkinn til Sláturfjelags Suðurlands. Hv. Ed. sýndi mikla rangsleitni bændum, er hún ljet sjer sæma að fella niður þennan litla styrk til Sláturfjelagsins, en það fjelag hefir mest og best brotið ísinn og sigrað ótal örðugleika, sem það átti við að stríða á meðan það var að gera aðalframleiðsluvöru bænda markaðshæfa.

En jafnhliða því, að hv. Ed. sýnir þannig hug sinn til bænda, þyrlar hún upp moldviðri af allskonar bitlingatill. og samþ. þær í einni þvögu. Slíkt bitlingafargan finst mjer í litlu samræmi við það, sem hv. Ed. ljet sjer sæma að narta í eða skera niður af þeim fáu liðum, er hjer voru settir inn í frv. Því margt af því, sem hjer komst inn í frv., en felt var í Ed., var á sterkari stoðum reist en þær bitlingatill., sem hv. Ed. samþ. Jeg vil ekki tefja umr. með óþarfa mælgi, og vil því enduutaka það, sem jeg sagði í upphafi, að jeg er mjög sáróánægður yfir því að þurfa að taka við frv. eins og það er. Jeg hefði miklu fremur kosið, að farið væri í stríð við hv. Ed. út af óbilgirni hennar um afgreiðslu þessa máls. Og jeg vil bæta því við að lokum, að jeg tel það ekki sæmandi Alþingi, að sú venja verði þegjandi í lög tekin, að hv. Ed. eigi að leggja síðustu hönd á afgreiðslu fjárlaganna.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.