13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Út af fyrirspurn háttv. 1. þm. Árn. þykir mjer hlýða að taka þetta fram:

Snemma á þingi barst mjer fyrirspurn um það, hvort jeg mundi ætla að veita fossafjelaginu Titan, samkv. umsókn þess, sjerleyfi til járnbrautarlagningar frá Reykjavík til Þjórsár, samkvæmt heimild í lögum frá þingi í fyrra.

Voru þá ókomnar umsagnir um málið frá sjerfræðingum. En nú eru þær komnar, og geta hv. alþm. átt kost á að kynna sjer þær í atvinnumálaráðuneytinu.

Nú hefir mjer borist áskorun frá 5 alþm. frá þeim hjeruðum, sem mestra hagsmuna eiga að gæta um járnbrautarlagninguna, um „að veita fossafjelaginu Titan sjerleyfi til þess að virkja Urriðafoss í Þjórsá, svo framarlega sem fjelagið færir sönnur á, að dómi landsstjórnarinnar, að það hafi nægilegt fjármagn að sínum hluta til þess að leggja járnbraut frá Reykjavík að Þjórsá með þeim hraða, sem sjerleyfislög ákveða“.

Síðan hefir mjer borist áskorun frá 15 alþingismönnum um að „veita ekki sjerleyfi til þess að virkja Urriðafoss í Þjórsá, nema því aðeins, að full vissa sje fyrir því, að nægilegt fjármagn sje á reiðum höndum hjá sjerleyfisbeiðanda til járnbrautarlagningar frá Reykjavík austur að Þjórsá“.

Loks hafa 11 alþingismenn sumpart æskt þess skriflega, að sjerleyfi verði ekki veitt, sumpart greitt atkv. gegn því.

Nú liggur það ljóst fyrir í beiðni þeirri um sjerleyfi, sem fossafjelagið Titan hefir sent stjórninni, að fje til framkvæmda er ekki á reiðum höndum, enda er það og jafnframt tekið fram í umsókninni, að þess sje yfirleitt ekki að vænta, að fje verði fyrir endi áður en sjerleyfið er veitt. Hitt er aftur á móti fullyrt af fjelagsins hálfu, að fje muni fást síðar, en fyrir því eru ekki færð fullnægjandi rök.

Það liggur því ekki fyrir, að fossafjelagið Titan hafi „fært sönnur á, að dómi landsstjórnarinnar, að það hafi nægilegt fjármagn að sínum hluta til þess að leggja járnbraut frá Reykjavík að Þjórsá með þeim hraða, sem sjerleyfislögin ákveða“, nje heldur „að full vissa sje fyrir því, að nægilegt fjármagn sje á reiðum höndum hjá sjerleyfisbeiðanda til járnbrautarlagningarinnar“.

Í framhaldi af því, sem nú hefir verið sagt, skal því þá lýst yfir, að þegar af þeirri ástæðu, sem nú hefir verið nefnd, mun jeg ekki telja rjett, að svo vöxnu máli, að gjalda jákvæði við þeirri beiðni, sem fossafjelagið Titan hefir sent um að fá sjerleyfi til þess að virkja Urriðafoss og leggja járnbraut frá Reykjavík til Þjórsár.

En í þessu sambandi skal því lýst yfir, að landsstjórnin mun telja sjer skylt að taka til sjerstakrar athugunar, hversu bæta megi, svo fljótt sem frekast eru tök til, úr hinni mjög brýnu þörf fullkominna samgangna fyrir hjeruðin austan fjalls.