06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3255 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Haraldur Guðmundsson:

Jeg er þakklátur hv. allshn. fyrir það, að hún hefir getað fallist á það í frv., að rjett sje, að einfaldur meiri hl. ráði, hvort kosinn skuli bæjarstjóri eða ekki. Hinsvegar get jeg ekki fallist á þær brtt. minni hl., að bæjarstjóri skuli kosinn af borgurunum og til 6 ára í senn. Mjer virðist, að bæjarstjóra beri öllu heldur að skoða sem framkvæmdarstjóra bæjarstjórnar en trúnaðarmann borgaranna, enda á hann að standa bæjarstjórn reikning gerða sinna, en ekki borgurunum sjálfum. sýnist því rjett, að bæjarstjórn ráði vali hans, enda er því svo háttað á Seyðisfirði og í Hafnarfirði, og með þeim hætti hafa einnig bæjarstjórakosningar farið fram á Akureyri, þar til nú, að hin nýja lögskýring kom upp úr dúrnum. Hefir bæjarstjórnin á Akureyri tvívegis kosið borgarstjóra þar. Þá tel jeg það og breytingu til hins verra að binda kosningu bæjarstjóra við 6 ár. Í frv. stóð „ekki til lengri tíma en 6 ára“. Þar, sem bæjarfulltrúar standa á stöku, eins og á Ísafirði, er meiri hlutinn kosinn 6. hvert ár. En nauðsynlegt er, að bæjarstjórinn sje ekki kosinn til lengri tíma en þess, sem meiri hl. bæjarstjórnar styður hann, alveg eins og háttað er um ráðherra á Alþingi. Ef brtt. minni hl. næði fram að ganga, væri skylda að kjósa hann til 6 ára, og þá væri ekki hægt að tryggja, að hann sæti ekki um einhvern tíma í andstöðu við meiri hluta bæjarstjórnar, en slíkt teldi jeg mjög illa henta.

Þá hefir minni hl. ekki getað fallist á að stækka lögsagnarumdæmi Ísafjarðar með því að leggja Tungu undir það. Hv. frsm. minni hl. taldi afstöðu hreppsins veikta gagnvart Ísafirði, ef þetta næði fram að ganga. Jeg get nú ekki fallist á það. Að vísu býst jeg ekki við, að Fjörðurinn hugsi til að vera sjerstakur hreppur, ef Hnífsdalur tekur sig út úr sem sjerstakt hreppsfjelag, en það gildir jafnt, hvort sem Tunga verður tekin undan nú eða ekki. Verða þá eftir 10 býli, og svo Arnardalur, sem er nokkurskonar ríki út af fyrir sig. Helmingur þessara býla eru mjög smá. Fólksfjöldi að Arnardal meðtöldum mun vera um 200 manns. Aðstaða er svipuð, hvort sem Tunga fylgir með eða ekki. Væri sú ástæða rjett, að með því að leggja Tungu undir kaupstaðinn sje Firðinum gert erfiðara um að semja við kaupstaðinn um sameiningu, ef Hnífsdalur tekur sig út úr, má á sama hátt segja, að Ísafirði sje gert óhægra um aðstöðu við sömu samninga með því að fella þessa grein frv. Get jeg ekki sjeð, að það sje rjettara en það, sem minni hl. þykist vera að afstýra. Aðalatriðið er, að Ísafjarðarbær er orðinn eigandi þessarar jarðar að mestu og mun eignast hana alla við næstu eigendaskifti, og hefir þegar hafið þar töluvert umfangsmikla starfrækslu. Hvort sem Fjörðurinn verður sjerstakt hreppsfjelag eða hreppurinn helst óskiftur, er ranglætið gagnvart Ísafjarðarkaupstað hið sama. En ef Fjörðurinn yrði sjerstakt hreppsfjelag, er jafnvel ástæða til að óttast, að hann yrði enn gjarnari til að leggja á kúabú bæjarins og aðra starfrækslu hans og bæjarmanna, er landsnytjar hefðu í Tungulandi, vegna smæðar og fárra gjaldenda, en hreppurinn nú.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að ef bærinn ræki þarna kúabú, stæði hann sig við að greiða útsvör þar. Jeg get nú ekki sjeð, hvaða sanngirni er í því. Ennfremur taldi hann, að þetta kæmi í bága við sveitarstjórnarlögin frá 1927, eða það ákvæði þeirra, að stj. megi ekki skifta hreppum eða breyta hreppamörkum, nema samþ. hreppsnefnda komi til. En það liggur í augum uppi, að Alþingi getur ávalt skift hreppum með sjerstökum lögum, þegar þurfa þykir, þótt stj. sje eigi gefið sama vald. Þá taldi hann það gagnstætt stefnu jafnaðarmanna, að bæjarstjórnir kysu bæjarstjóra. Jeg hjelt nú, að jeg væri eins kunnugur stefnu þeirra og hann, enda er það í fullu samræmi við þá stefnu, að almenningur ráði vali bæjarstjóra gegnum fulltrúa sína í bæjarstjórn.