13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

Í svari sínu til hv. þm. Borgf. gat hæstv. forsrh. þess, að gjöldin 1926 hefðu farið mikið fram úr áætlun, um 2½ milj. skildist mjer. Vildi hann ámæla fyrv. stj. fyrir það. En mikið af umframgreiðslum ársins 1926 liggur í því, að stj. notaði heimildir, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögunum. Af aukagreiðslum skal jeg t. d. nefna 260 þús. kr. til Flóaáveitunnar, 80 þús. kr. til hafnar í Vestmannaeyjum, framlagið til kæliskipsins, 350 þús. kr., o. s. frv. Sagan er því ekki nema hálfsögð, þegar þess eins er getið, að gjöldin hafi farið fram úr áætlun.

Viðvíkjandi þessu frv. vil jeg segja það, úr því að hæstv. forsrh. viðurkendi, að meðferð þessa þings á fjárlagafrv. hefði verið ljeleg, og lofaði hinsvegar að vera varkárari næst, að það er náttúrlega ágætt að lofa bót og betrun, en jeg held, að hæstv. ráðh. verði að búast við því að vinna með sömu mönnum á næsta þingi, og ef ekki hefir vel tekist nú, er engin ástæða til að halda, að betur takist síðar. Og ef hann hefir haldið, að hægt væri að koma breytingum fram, var hægurinn á fyrir hann að koma með brtt. af hálfu meiri hl. Mjer skildist, að hann vildi slengja ábyrgðinni á Íhaldsflokkinn fyrir það, hvernig fjárlögin líta nú út. Jeg býst við því, að hv. þm. Borgf. muni svara þessu, en þó vil jeg benda hæstv. ráðh. á það, að jeg sje ekki, að það hafi við nein rök að styðjast, og ef svo væri, til hvers er hann þá að lofa betri afgreiðslu fjárlaganna á næsta þingi? Jeg býst ekki við, að hann ráði neinu um afstöðu Íhaldsflokksins á næsta þingi, og því hlýtur loforð hans að byggjast á hans eigin mönnum. Á þessu þingi hefir hann ekkert ráðið við þá, og því sýnist mjer þetta loforð hæstv. forsrh. út í loftið, og jeg fyrir mitt leyti byggi ekki nokkurn skapaðan hlut á því. Það hefir vissulega ekki komið fram í öðrum málum á þinginu, að ekkert væri hægt að gera fyrir Íhaldsflokknum, — og hví skyldu þá ekki þeir flokkar, sem stj. styðja, fá sinn vilja fram í þessu máli sem öðrum, ef þeir halda saman? Það hlýtur að vera af því, að þeir halda ekki saman. Það hefir komið greinilega fram, að flokkana hefir ekki skort samvinnu utan fjárlagafrv., og það virðist sem þeir hafi líka verið samhentir í afgreiðslu gjaldaliða fjárlagafrv. Annars væri hægt að gera „statistik“ yfir þetta, en til þess vinst ekki tími nú, þó að það væri óneitanlega fróðlegt að fá þetta upplýst.

Hitt atriðið, sem jeg vildi víkja að, var þessi sjónleikur, sem var látinn fara hjer fram rjett áður en fundi var frestað. En hæstv. forsrh. tókst svo illa með sitt hlutverk, að það komst upp, að hjer var um aftalað spil að ræða. Hann tók skrifað svar upp úr vasa sínum við fyrirspurn hv. 1. þm. Árn. (JörB) og las það upp. Og mjer skildist það af svarinu, þótt hart væri lesið, að hann ætlaði ekki að veita sjerleyfið til að virkja Urriðafoss. Af því að jeg er nokkuð riðinn við það mál, vil jeg fara um það nokkrum orðum. Þegar frv. var samþ. í fyrra með 2/3 þingsins, var það öllum vitanlegt, að peningarnir voru ekki til. En hinsvegar voru líkur fyrir því, að þeir mundu fást. Jeg veit ekki betur en að svo sje enn. Jeg hefi talað við Klemens Jónsson — jeg býst við, að hæstv. forsrh. trúi hans orðum —, og hann sagðist hafa sýnt hæstv. ráðh. brjef, þar sem þess er getið, að peningarnir verði til, ef sjerleyfið sje veitt. Og fyrir sitt leyti segist Klemens ekki vera í vafa um það, að peningarnir fáist. Jeg verð að benda á það, að á síðasta þingi var sú leið tekin að samþykkja þetta í þeirri von, að úr framkvæmdunum yrði, en áður en vitað er með vissu, hvort úr þeim getur orðið, á nú að fara að kippa að sjer hendinni og neita að stíga hitt skrefið, sem er nauðsynlegt að stíga til þess að úr þessu geti orðið. Ef það verður ekki stigið, var það hrein vitleysa, sem samþykt var í fyrra af 2/3 þings, auk þess sem það kostar okkur ekkert að veita sjerleyfið, og við á hinn bóginn getum, að mínu áliti, búist við miklum ágóða af því. Jeg viðurkenni, að sumir líta öðruvísi á þetta, en jeg geng út frá því, að þeir menn, sem í fyrra vildu stíga annað skrefið, muni nú einnig vilja stíga hitt skrefið, sem þarf til þess að ná þessu marki. Jeg veit, að það hafa orðið mannaskifti á þinginu frá því í fyrra, en þótt nýju þm. væru dregnir frá og settir allir á móti, og sömuleiðis þeir, sem voru á móti málinu í fyrra, verður samt meiri hluti með málinu, því að jeg get ekki trúað því, að þeir, sem voru með málinu í fyrra, hafi skift um skoðun; að minsta kosti trúi jeg því ekki fyr en jeg tek á því.

Hæstv. forsrh. gat um tölu þeirra þm., sem höfðu sent honum áskoranir út af málinu. Mig fyrir mitt leyti langar til að heyra, hvernig sú áskorun hljóðar; það er ekki óverulegt atriði til þess að skilja, hvað hlutaðeigendur meina. Jeg tók eftir því, að á meðal þeirra þm., sem skorað hafa á hæstv. ráðh., væru einmitt þm. þeirra kjördæma, sem hjer eiga hlut að máli. Jeg á erfitt með að trúa því, að þeir, sem fylgdu málinu á síðasta þingi, sjeu nú að senda áskoranir til stj. um, að ekkert verði úr öllu saman. Mjer er ekki vitanlegt, að nú sjeu minni líkur fyrir því að fjeð fáist en voru í fyrra. Jeg vil ekki að svo stöddu ganga út frá því, að annað liggi á bak við hjá þessum hv. þm. en að herða á stj. með framkvæmdir í málinu. Það kostar okkur ekki neitt að veita sjerleyfið; ef það verður ekki notað, gerir það ekkert til; það er samt ekki ver farið en heima setið; og fresturinn er ekki nema til 1. maí 1929, eða eitt ár, og jeg hygg, að enginn haldi, að á því tímabili verði gert neitt í járnbrautarlagningunni austur hvort sem er. Hinsvegar er jeg sannfærður um það, að margir verða ragir við að veita fje til þess að gera járnbrautina á kostnað ríkisins, þótt það verði eftir 1–2 ár. En ef menn vilja það, má eins gera það, þó að leyfið sje gefið. Það, að leyfið er ekki gefið, álít jeg, að komi af því, að þeir, sem eru á móti málinu, eru glaðastir, ef þeir geta sagt sem svo: „Við gerðum alt, sem við gátum, en það gat ekki orðið úr þessu, af því að fjelagið gat ekkert gert“. Þetta geta þeir ekki sagt, ef leyfið er veitt.

Jeg vil beina þeirri ósk til hæstv. forsrh., að hann sýni mjer skjölin, sem hann hefir fengið, og lofi mjer að líta yfir hina skrifuðu ræðu sína. Hann las hana svo hratt, að ekki er gott að muna nákvæmlega það, sem þar er tekið fram, og getur líka vel verið, að jeg þurfi að svara einhverju af því. (Forsrh. kemur til ræðumanns og fær honum ræðuna) . Jeg þakka fyrir.

Jeg tók það fram í fyrra, að jeg hefði sjeð skilríki fyrir því, að Titan fengi fje frá fjesterkum fjelögum, ef sjerleyfið fengist með aðgengilegum kjörum. Það hefir ekkert komið fram, sem sýni, að breyting hafi orðið á þessu. Þvert á móti sjest það á umsókninni til stj., að það er talið víst, að fjelagið fái peningana, að minsta kosti til járnbrautarlagningarinnar, og það er mjer aðalatriðið. Jeg er sannfærður um það, að við komumst ekki að betri kjörum um járnbrautarlagninguna en á þennan hátt.

Jeg ætla ekki að ræða meira um þetta í bili. Það má vera, að mjer gefist tækifæri til að minnast á fleira síðar. En út af því, sem jeg var að biðja hæstv. forsrh. um áðan, vil jeg benda honum á, að hann hefir aðeins fengið mjer ræðu sína, en ekki skjölin. (Forsrh. TrÞ: Þau eru tekin orðrjett upp í ræðuna innan gæsalappa). Það er ágætt. En jeg vil ekki tefja tímann með því að lesa þetta mitt í ræðu minni, og leyfi mjer því að biðja hæstv. forseta um orðið síðar.