06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3261 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg legg ekki mikla áherslu á það, hvort bæjarstjóri er kosinn af bæjarstjórn eða borgurum bæjarins. Það kemur nokkurn veginn í sama stað niður, en hins vil jeg geta, að almennar kosningar kosta aðstandandi flokka æðimikið fje, svo að það virðist ekki ástæða til að hafa þær fleiri en þörf krefur, og finst mjer því alt eins eðlilegt að hafa þetta ákvæði sem hitt. Það er alveg rjett hjá háttv. 1. þm. Reykv., að það á að vera Eyrarhreppur í stað Eyrarsveitar. Þetta er eins og hver önnur prentvilla, sem verður að leiðrjetta.

Jeg held, að rök hv. þm. N.-Ísf. sýni betur en alt annað, hve það er eðlilegt og nauðsynlegt fyrir Ísafjörð að ná þessari jörð undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins. Hann gat þess, að kröfur þær, sem Eyrarhreppur gerði, væru 1000 kr. árgjald, en til þess svarar, að Ísafjarðarkaupstaður þyrfti að borga í eitt skifti fyrir öll alt að 20000 kr. fyrir að koma þessari jörð undir lögsagnarumdæmi sitt. „Dýr mundi Hafliði allur“. Hygg jeg, að ekki þurfi annað en nefna þessa upphæð, til þess að sjá rangsleitnina. — Þegar jarðirnar Bústaðir og Breiðholt voru lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, var sú upphæð, sem bærinn átti að greiða, eitthvað 30000 kr., og þótti þó um skör fram. (MJ: Var það kaupverð?). Nei, bærinn átti jörðina, og það hjelt jeg, að hv. 1. þm. Reykv. vissi. Reyndar var sú viðbót, að Reykjavík var ýmsum kvöðum bundin um rafmagn o. fl., en þó að því væri bætt við, er það á engan hátt sambærilegt við það fje, sem greiða á fyrir innlimun þessarar jarðar norður í Skutulsfirði í lögsagnarumdæmi Ísafjarðar. — Þetta sýnir líka, hvernig hreppurinn hefir ætlað sjer að gera mjólkurbú Ísfirðinga sjer að fjeþúfu, enda hefir oddviti skýrt frá því, að þótt hreppurinn mótmælti því, að þessi jörð sameinaðist Ísafirði, þá mundi hreppurinn, ef svo færi, ekki kæra sig um hinar jarðirnar í hreppnum, og mundu þær þá sjálfkrafa leggjast undir Ísafjörð. Þær eigi ekkert skylt við Hnífsdal. — Mjer finst ekkert undarlegt, þótt í sveitarstjórnarlögunum þurfi samþ. hreppanna sjálfra, þegar þeim er skift án sjerstakra laga. En auðvitað þarf ekki þessa samþykkis beggja hreppa, þegar sjerstök lög eru samþykt um skiftinguna. En slík lög er sjálfsagt að samþ., þegar krafan um skiftinguna er sanngjörn og hagkvæm, en aðeins stendur á samþykki annars hreppsins, sem vill nota sjer neitunarvald sitt í gróðaskyni. Allshn. hefir gert fyrirspurn til Ísafjarðarkaupstaðar og hreppsins, og kröfur þeirra hvors um sig eru svo fjarri því að mætast, að augljóst er, að skiftingin getur ekki fengist nema með úrskurði löggjafarinnar um, að Tunga skuli leggjast við lögsagnarumdæmi Ísafjarðar, og síðar úrskurði atvmrh. um fjárskiftin. Um fulltrúana, sem í Ögri mótmæltu því, að jörðin Tunga sameinaðist Ísafirði, verð jeg að segja það, að jeg tel vafasamt gildi þeirra mótmæla. Þessir fulltrúar voru kallaðir saman þar sem fylgismenn hv. þm. N.-Ísf. í kosningamálinu, en ekki sem fulltrúar sýslunnar yfirleitt, og er því ekki þar um að ræða yfirlýstan vilja sýslubúa.