06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Magnús Jónsson:

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í það, hversu mikil þörf er fyrir Ísafjörð að fá Tungu inn í lögsagnarumdæmið, en vil ganga inn á þá röksemdaleiðslu, að það sje nauðsynlegt, vegna þess að mjer var kunnugt um, hve nauðsynlegt það var fyrir Reykjavík á sinni tíð að fá lögsagnarumdæmi sitt stækkað. En jeg vil enn leiða athygli hv. deildar að því, hvernig farið var með samskonar mál og þetta, sem nú liggur fyrir, 1922–'23, þegar stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkurbæjar lá fyrir þinginu.

1922 báru þm. Reykv. fram mjög líkt frv. og þetta, sem hjer liggur fyrir, og var það frv. samið af bæjarstjórn. Allshn. neitaði þá algerlega að afgreiða málið, fyr en búið væri að slá föstu, hve mikið Reykjavík ætti að greiða hreppnum í tekjumissi.

1923 lá samskonar frv. aftur fyrir þinginu, en þá var komin svo mikil stífni í málið, að Seltjarnarneshreppur og Mosfellssveit neituðu alveg að gera nokkurn samning. Þegar málið stóð þannig, neitaði þingið að verða við óskum Reykjavíkur, og var þá tekin sú leið að reyna að lipra þetta mál, og jeg verð að segja, að það gekk prýðilega. Við vorum tveir þm. kosnir til þess að leita samninga og tala við oddvita hreppanna, og fjell þá alt í ljúfa löð. Þetta er gott dæmi þess, hve það er misráðið að hleypa stífni í svona mál. Mætti án efa lipra hjer til, ef farið væri rjett að. Svo þegar samningar voru komnir á, voru sett þessi lög og það tekið inn í lögin, að Reykjavík ætti að greiða Seltjarnarneshreppi 12000 kr. og Mosfellssveit 37000 kr. Þessar upphæðir voru beinlínis miðaðar við það, hve mikið hrepparnir teldu sig þurfa að fá, svo að þeir væru skaðlausir, þótt þeir mistu tekjur af þessum jörðum.

Nú vil jeg skora á hv. deild að gera hið sama: Neita að afgreiða málið, þar til samningar hafa fengist. Jeg tel það ekki ofverk Ísafjarðar að ná samningum við þennan litla hrepp og gjalda honum sæmilega, og skal jeg þá vera fús á að samþykkja þessa málaleitun, er samningar hafa náðst. En Ísafjörður verður að vinna það til að ná samningunum, og álít jeg þá, að standa ætti í lögunum, hve mikið Ísafjörður á að greiða hreppnum. Það verður að gæta þess, hve hjer er mikill aflsmunur, og sá, sem minni máttar er, setur sig oft á óþarflega háan hest, eins og oft vill verða, er svo stendur á.

Sumum þótti of hátt borgað, þegar lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað; einkum þótti sú upphæð of há, sem greidd var til Mosfellssveitar, en þá var og þess að gæta, að hún gat vænt sjer mjög mikilla tekna af rafmagnsveitunni.