06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3266 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Bjarni Ásgeirsson:

Það liggur við, að mjer finnist þetta mál fara að verða mjer nokkuð skylt, þar sem farið er að draga Mosfellssveit inn í umræður, og vil jeg því leggja nokkuð til málanna. Jeg vil þá byrja á að neita því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði í sinni síðustu ræðu, þótt jeg sje honum að öðru leyti sammála, að það hafi verið ósanngjarnar kröfur, sem Mosfellssveit bar fram gagnvart Reykjavík í máli því, sem hjer er rætt um, enda get jeg vísað til ummæla hv. 2. þm. Reykv., sem áleit kröfuna sanngjarna. Verður að taka tillit til þess, hve mikið verðmæti þar var lagt undir Reykjavíkurbæ. Jeg skal geta þess út af máli því, sem nú liggur fyrir, að mjer finst eins og komið er, þegar Ísafjörður er búinn að eignast jörðina og farinn að nytja hana, þá sje það sjálfsagt að leggja hana undir lögsagnarumdæmi Ísafjarðar, en hitt er þá jafnsjálfsagt, að Ísafjörður bæti hreppnum þann skaða, er hann verður fyrir með því að svifta hann útsvarsstofni, eins og hjer á að gera að vissu leyti. Hinsvegar skal jeg ekki dæma um það, hvað sanngjarnt sje að greiða. Hitt er aðalatriðið, að hreppurinn verði ekki fyrir tjóni og að Ísafjörður greiði annaðhvort árlega upphæð, eða samsvarandi fjárhæð í eitt skifti fyrir öll.

Verði þetta ekki trygt, get jeg ekki greitt máli þessu atkvæði mitt.