06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (3062)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Pjetur Ottesen:

Út af þeim orðum hv. þm. Ísaf., að honum fyndist, að jeg hefði kveðið nokkuð hart að orði, er jeg sagði, að hjer væri verið að fara ránsferð á hendur viðkomandi hreppsfjelagi, þá vil jeg aðeins benda á það, að hann gat ekki andmælt neinu af því, sem jeg sagði um þetta; það stendur óhrakið eftir sem áður. En hann vitnaði hinsvegar í nál. meiri hl. sjer til fulltingis.

Jeg benti á það áður, að þær bætur, sem hreppurinn á að fá, eru svo lítils virði, samanborið við þann gjaldstofn, sem hann er sviftur, að það er enganveginn forsvaranlegt, að þingið samþ. frv. án þess að samþykki viðkomandi hreppsbúa komi til, svo sem greinilega er fyrir mælt í gildandi lögum.

Um tilboð hreppsins, sem hv. þm. segir, að sje óhæfilega kröfuhart, er auðvitað ekki hægt að dæma nema fyrir þá, sem kunnugir eru.

En jeg fæ ekki sjeð, að það sje í mótsetningu við mannlegt eðli, þótt hreppurinn hafi sett sínar kröfur nokkuð háar, sjerstaklega þegar svona er á stað farið hjá kaupstaðnum, og jeg sje ekki, að það þurfi að vera nein sönnun fyrir því, að hreppurinn ætli að beita rangindum og kúgun við bæinn í útsvarsálagningum.

Út af 3. gr. sveitarstjórnarlaganna, þar sem segir, að „eigi má neina slíka breytingu gera, nema eftir beiðni hreppsnefnda þeirra, er hlut eiga að máli“, virðist liggja beint við að draga þá ályktun, að ekki megi undir neinum kringumstæðum gera slíka breytingu, nema samþykki hlutaðeigandi hreppa komi til. Þetta er svo skýrt og skilmerkilegt, að um það verður ekki deilt.

Jeg veit að vísu, að þetta þing getur ekki tekið fram fyrir hendurnar á næstu þingum, en það er áreiðanlegt, að þetta er sá skilningur, sem löggjafinn lagði í þetta ákvæði, þegar sveitarstjórnarlögin voru samþykt, og það var vilji þess þings, sem lögin setti, að ekki mætti gera neina slíka breytingu nema þetta skilyrði væri fyrir hendi. Og þetta er sú rjettarvernd, sem sveitarfjelögin eiga nú að njóta.

Hv. 2. þm. Árn. hefir hv. þm. Mýr. svarað að því leyti sem snerti ummæli hans um útsvarsálagningu á opinberan rekstur og rekstur einstakra manna.

En hv. 2. þm. Árn. sagði, að lögin um bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar hefðu verið sett 1917 án þess að þessi umræddu skilyrði væru þá fyrir hendi. Jeg býst nú við, að þá hafi legið fyrir einhverjar upplýsingar um það, að þeirrar breytingar, sem þá var gerð, hafi verið óskað.

En þótt svo hafi verið, að þingið 1917 hafi gert þetta, þá álít jeg það ekki til eftirbreytni, og síst, ef tillit er tekið til hinna skýru og ótvíræðu ákvæða, er síðasta þing setti um þetta efni.

En jeg man það fullvel, að á þinginu 1917 lá ekki fyrir að sameina eina jörð úr Eyrarhreppi við Ísafjarðarkaupstað, heldur allan Eyrarhrepp. Og þá lágu líka fyrir mótmæli sýslunefndar gegn því, og því var sú breyting feld eftir langar og harðar umræður í Ed.

Það hafði verið sagt þá einhverntíma í umr., að kaupstaðurinn mundi, ef breytingin væri samþ., ná yfir álíka stórt svæði og Lundúnaborg stæði á, og út af þessu var þá kveðin þessi vísa:

Alt fer nú með endemum,

ekkert hægt að gera.

Lord Mayor í Lundúnum

langaði mig að vera.