13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg skal ekki lengja til muna þennan eftirmála við fjárlagaumræðurnar, enda er jeg þar ekki vel settur, þar sem jeg hefi ekki verið viðstaddur. Jeg hefi verið bundinn við brýn störf í Ed. í dag og því ekki getað hlýtt hjer á umr.

Hjer hafa verið gerðar eindregnar tilraunir til þess að koma þeirri skoðun inn hjá mönnum, að fylgismenn stj. hafi á þingi sýnt gálauslega framkomu í fjármálum. Í raun og veru voru engin rök færð fram fyrir þessu. Þykir mjer leitt, að hv. þm. Borgf. (PO) skuli vera farinn af fundi, því jeg hefi ástæðu til að beina til hans orðum mínum. En úr því að hann er ekki viðstaddur, skal jeg víkja að öðru atriði.

Mjer virtist hv. 1. þm. Skagf. (MG) vilja taka í sama streng og hv. þm. Borgf. Jeg vil benda á, að það er í raun og veru nógur tími til að fella dóm um þetta. Það liggur miklu nær að leggja dóm á fjárhagsafkomu þá, sem leitt hefir af ráðsmensku hv. þm. (MG) sjálfs og stj. hans. Hann hefir enga ástæðu til að fara með hrakspár um fjárhag ríkisins, nema hann vilji álykta, að af því útkoman varð óhagstæð hjá honum, þá muni hún einnig verða það nú. Fjáraukalögin fyrir 1926 bera ekki vott um sjerlega varfærni hjá fyrv. stjórn. Jafnframt má athuga, að fjárhagsútkoman 1927 er á þann veg, að ríflega vantar 1 milj. kr. til að tekjur og gjöld standist á. Þetta er ekki svo glæsileg útkoma, að ekki sje hægt við að jafnast. — En lengra skal jeg ekki fara út í þetta að sinni.

Þá skal jeg minnast örlítið á yfirlýsingu hæstv. forsrh. viðvíkjandi sjerleyfi Titans. Jeg verð að segja það, að jeg get ekki verið allskostar ánægður með þá yfirlýsingu, að máli þessu verði ekki sint. Þeir hafa að vísu nokkuð til síns máls, sem telja ástæðulítið að veita sjerleyfið, ef víst þykir, að enginn árangur verði af því, en um það er ekkert hægt að segja enn sem komið er. Þess hefði raunar mátt vænta, að fjelagið, innan árs frá því að lögin voru samþykt, hefði getað lagt fram einhver skilríki fyrir því, að það fje, sem til þess þarf að leggja járnbrautina, væri fyrir hendi. En þó það hefði getað sýnt fram á, að það hefði nægilegt fje til járnbrautarlagningarinnar, þá er ekki víst, að það hefði sjeð sjer hag í því að hefjast handa um framkvæmdir. Frá þessu sjónarmiði geri jeg ráð fyrir, að sumum þyki ekki fýsilegt að veita leyfið. En jeg sje ekki, að nein hætta sje, þó leyfið sje veitt. — Jeg vil beina þeirri spurningu til hv. 1. þm. Skagf., hvað því hafi valdið, að honum skyldi ekki auðnast að framkvæma að veita leyfið. Jeg hefði getað vænst þess af honum. Því hefir hann enga ástæðu til þess að átelja það, þó dráttur hafi orðið á málinu, og þó að dráttur verði enn. Það getur verið, að hv. þm. geti fært gild rök fyrir því, að það hafi ekki verið hægt, en það er lítt skiljanlegt.

Vegna þess, að jeg hefi lofað að fara fljótt yfir sögu, þá verð jeg að snúa mjer að hv. þm. Borgf., þó hann sje ekki viðstaddur, þótt jeg kynni betur við, að hann mætti heyra mál mitt.

Hv. þm. þóttist geta sýnt fram á það, að á fjárlögunum væri reikningslega 400 þús. kr. tekjuhalli. Þetta er sagt út í loftið, og veit jeg ekki til, að hægt sje að færa rök fyrir því. Þó hann vilji færa það fram sem ástæðu, að það sje víst, að vegur verði lagður til Þingvalla fyrir 1930, þá er ómögulegt að telja þá upphæð til útgjalda í fjárlögum 1929. Það er ráðgert að taka lán til þessa vegar, og upphæðinni verður jafnað niður á nokkur ár, en kemur ekki í fjárl. 1929. Þessi staðhæfing fellur því um sjálfa sig. Hv. þm. hefir hjer hlaupið gönuskeið. Getur það verið tvent, sem veldur, annaðhvort eitt geðvonskukastið, sem stundum hleypur í hv. þm., eða hrein og bein blekkingartilraun; hann hefir viljað koma þessum ummælum í Alþt. til að vekja tortrygni hjá hv. kjósendum. Þykir mjer síðari ástæðan sennilegri. Á þetta reyndar við fleiri hv. þm., því málþóf Íhaldsmanna bendir til, að þetta sje tilætlunin. Þeir ætla að láta hv. kjósendur hafa nóg að lesa, því þeir vita, að meiri hl. telur ekki skraf þeirra svaravert orði til orðs, enda væri það misbrúkun á tíma þingsins og fje.

Þá gerði bæði þessi hv. þm. (PO) og aðrir tilraun til að kasta skugga og rýrð á störf Ed. hvað afgreiðslu fjárlaga snertir. Því var haldið fram, að Ed. hefði valdið óeðlilegri hækkun á útgjöldunum. En þegar athuguð er meðferð deildanna á fjárlögunum, þá sjest, að í Nd. hafa útgjöldin hækkað um 900 þús. kr., en í Ed. um h. u. b. 100 þús. kr. Jeg get ekki sjeð annað en sökin falli enn þyngra á Nd., ef ástæða er til að átelja meðferð deildanna á fjárlögunum. Mjer virðist bóla á óhæfilegum hroka hjá sumum hv-. þm., þar sem þeir eru að rísa upp með ádeilur á gerðir Ed. En mjer finst slíkt ástæðulaust; jeg veit ekki til, að Nd. standi yfir Ed., svo það er ekki rjettmætt að átelja þá deild, þó hún leyfi sjer að hafa sínar skoðanir um málin. Vísa jeg á bug öllum hrokakendum ádeilum í garð Ed.

Hv. þm. Borgf. virtist vera gramur og jafnvel hneykslaður yfir styrkveitingum til einstakra manna, sem komist hafa inn í fjárlögin. Jeg geri ráð fyrir, að hann eigi þar við námsstyrki til nokkurra ungra mentamanna. Jeg verð að segja, að aldrei getur þetta orðið biturt vopn á núv. stjórn, því jeg veit ekki betur en að lítið sje um slíkar fjárveitingar í fjárlagafrv. stj. Mjer finst þetta óþarfa umvöndunarsemi hjá þessum hv. þm., því ef litið er á þetta hlutdrægnislaust, þá á þar hv. þm. sjálfur fyllilega sinn hlut, og segi jeg þetta ekki honum til ámælis. Styrkir þessir munu nema um 50 þús. kr., og á hv. þm. þar sinn bróðurpart, því jeg man ekki betur en hann berðist sjálfur fyrir 1200 kr. styrk til eins nemendanna og fengi hann samþyktan. 42 þm. eiga hjer sæti, og ef hver þeirra hefði komið inn slíkum styrk, þá mun láta nærri, að upphæðin sje komin. Því situr það illa á hv. þm. Borgf. að nota þetta sem ádeiluefni. — Það má vera, að of langt sje gengið í slíkum styrkveitingum, en varla verður stj. gefin sök á því. Slíkar till. eru eingöngu komnar frá einstökum hv. þm.

Í þessu sambandi er rjett að geta þess, að varla er að búast við, að hægt sje að halda áfram á þessari braut. Framleiðsla ungra námsmanna er mikil, útþrá æskunnar sterk, og getur það því orðið allhá upphæð, ef nálega hverjum ungum manni, sem þráir að komast út í heiminn til að menta sig og leita sjer frama, væri veittur styrkur í fjárlögunum.

Þau ummæli hafa komið fram, að ef á annað borð er veittur styrkur stúdentum, sem þurfa að minsta kosti 4–5 ár til náms, sje sjálfsagt, að þeir eigi rjett á að fá þann styrk áfram, þegar hann í eitt skifti hefir verið veittur þeim. Jeg vil taka það fram, ef það kynni að geta orðið einhverjum til viðvörunar í því að leggja út á þessa varasömu braut, að jeg legg alls ekki þann skilning í slíkar fjárveitingar, heldur skoða jeg þær einmitt svo, að þær sjeu veittar í eitt skifti fyrir öll. Ef fært þætti að neita þessum mönnum um styrk, væri sú leið sjálfsögð, að hækka þá upphæð, sem ætluð er til þess að styrkja stúdenta, en ekki að vera að eyða tíma þingsins til þess að vega og meta, hvort Pjetur eða Páll eigi að fá 1000 kr. til náms eða ekki.

Jeg þykist hafa sýnt fram á, að hv. þm. Borgf. virðist alveg samsekur öllum fjölda hv. þm. um að vilja veita styrki einstökum stúdentum. — Jeg vænti, að hann sje svo sanngjarn, að hann kannist við þetta.

Þessi hv. þm. lagði og mikla áherslu á það, bæði í fyrri ræðu sinni og hinni síðari, hversu athugaverð væri sú stefna ríkisstjórnarinnar hjer á Alþingi, að álíta æskilegt, ef fjárhagur ríkisins leyfði, að veita fje ýmist sem styrki, lán eða ábyrgð fyrir lánum til þess að koma af stað nauðsynjafyrirtækjum, sem viðurkent er, að eru óhjákvæmilegur liður í framþróun atvinnuveganna. Jeg hefði kunnað betur við, að hv. þm, hefði gert nokkra grein fyrir, hverjar af þessum heimildum til fjárveitinga væru þess eðlis, að þær væru átöluverðar. Jeg býst við, að hv. þm. yrði erfitt um vik að sýna fram á það með rökum, að þingið hafi rasað um ráð fram með því að greiða fyrir fyrirtækjum í menningarátt og bæta afkomu landsmanna. Jeg get ekki fundið, að í 22. gr. nje heldur 23. gr. sjeu nein þau ákvæði þingsins, sem á nokkurn hátt eru ámælisverð. Jeg hugsa, að einhverjir kunni jafnvel að átelja, að ekki sjeu gefin fleiri og stærri vilyrði einmitt um slíka styrki en þingið hefir gert. Jeg fullyrði því, að þessi ásökun hv. þm. um gálauslegt framferði ríkisstjórnarinnar falli um koll af sjálfri sjer, og það því fremur, sem jeg veit ekki betur en að nokkur hluti fjárveitinganna, sem flestar eru skilyrðisbundnar, sje jöfnum höndum borinn fram af Íhaldsmönnum, og að þeir hafi einmitt veitt þeim; mörgum hverjum, sitt fylgi. Það kemur því úr hörðustu átt að vera að reyna að vekja tortryggni í garð stjórnarinnar, þó að þingið í heild sinni hafi sýnt einlægan vilja á því, að eðlileg framþróun atvinnuveganna geti átt sjer stað í ríkulegra mæli en undanfarin ár.

Það er margt fleira, sem mig hefði langað til að minnast á, en því er svo varið, að tíminn er mjög naumur, þar sem ætlast er til, að þingi verði slitið innan örfárra daga. Jeg verð því að neita mjer um að tína til ýmsar fleiri fjarstæður, sem komið hafa fram út af afgreiðslu fjárlaganna, og ádeilur í garð stjórnarinnar í því sambandi. Það er ekki ugglaust, að annaðhvort hv. þm. Borgf. eða einhverjir samherjar hans kunni að finna hvöt hjá sjer til þess að reyna að snúa í villu þeim fáu orðum, sem jeg hefi sagt, og gefst mjer þá væntanlega tækifæri til þess að víkja að því síðar.

Jeg skal ekki þreyta hv. deild á frekari málalengingum, því að það er trú mín, að þar sem þessi háttv. deild hefir viðurkent ágæta afgreiðslu hv. Ed. á fjárlögunum, muni hún taka við þeim og samþ. þau eins og hv. Ed. hefir gengið frá þeim. Þótt hjer kunni að vera örfáir þm., sem hefðu kosið, að fjárl. færu til Sþ., verð jeg að telja mjög lofsverðan skilning hv. dm. á þessu máli, þegar jeg tek undan þau ósæmilegu ummæli, sem komið hafa fram í garð hv. Ed. og jeg er nýbúinn að víta.