24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Magnús Jónsson:

Jeg get tekið undir með hv. 1. þm. Árn. um það, að það er mjög óviðkunnanlegt, að einstaklingum sje veitt heimild til þess að taka eignarnámi af ríkinu. Hjer getur það ekki verið eigandinn, sem strandar á, því að hann er hið opinbera. Það sýnist þannig aðeins vera presturinn í Stafholti, sem ekki næst samkomulag við. Jeg veit nú ekki, hve mikið málinu liggur á, en presturinn er orðinn roskinn maður. Einnig sýnist vafamál, hvort friða þurfi laxinn um aldur og æfi á þessum stað. Mjer skilst á greinargerð frv., að möguleiki sje til þess að gera fossinn laxgengan víðar en upp af þessu keri. Eins og er eru stórmiklar tekjur af laxveiði í fossinum, og sýnist varla rjett að svifta ríkið þeim um aldur og æfi. A. m. k. er þessi leið óviðfeldin, að taka eignir ríkisins eignarnámi handa einstaklingum.