13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

1. mál, fjárlög 1929

Einar Jónsson:

* Það var aðallega þetta atriði, er hv. samþm. minn (GunnS) talaði um, sem jeg tel ástæðu til að minnast á. Það er sjerstaklega þetta atriði, vegna þess, að það er mitt aðaláhugamál að fá bættar samgöngur milli landbúnaðarhjeraðanna austanfjalls og sjávar. Og þar er skemst af að segja, að jeg hefi ekki betri trú á öðru í því efni en járnbraut.

Um sjerleyfið vil jeg vitna í það, að jeg tel mjer ekki hafa verið skýrt allskostar rjett frá. Sjerleyfislögin voru í vetur send Titan til umsagnar. Og mjer var svo frá skýrt, að með umsögninni hefði fylgt yfirlýsing um það, að Titan hefði enga peninga fyrir hendi. Þetta hygg jeg ekki rjett, eftir því sem vegamálastjóri hefir sagt mjer. Og jeg hefi kynt mjer plögg þau, er vegamálastjóri hefir í höndum, og þar er ekkert um það sagt, heldur ekki að nóg fje sje fyrir hendi.

Jeg tel því sjálfsagt að fylgja þessu máli fram eins og búist var við í fyrra. Jeg tek undir með hv. 1. þm. Skagf. (MG), að það eru engar líkur til, að landsmenn sitji neitt af sjer, þótt við sjerleyfið standi þann tíma, sem ákveðið er. En út af yfirlýsingu landbúnaðarnefndar, sem hjer var dregin inn í umr. í kvöld, vil jeg taka það fram, að ef hún á að vera til þess að hindra málið, þá tel jeg mig blektan af orðalaginu. Að vísu sá jeg fljótlega eftir á, að óþarfi var að taka þetta fram, svo framarlega sem fje væri fyrir hendi. En það er ekkert um það sagt frá fjelagsins hálfu. — Reynslan verður að sýna, hvað ofan á verður.

Jeg vil álíta, að ekkert sje af sjer setið og sjálfsagt að reyna þá leið, sem ákveðið var að fara í fyrra. Jeg þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þm., að þegar ákveðið var, að járnbraut skyldi fást lögð austur að Þjórsá fyrir 2 milj. kr. frá ríkissjóði, þá var það ekki nema lítill partur af þeirri upphæð, sem áður var áætlað, að járnbraut að Ölfusá kostaði. Mjer finst það hrein skylda að leita á þetta lagið og vita, hvort sú tilraun hepnast ekki. Jeg vona, þótt áliðið sje þings, að hver þm. sjái, að það er viturleg tilraun, þar sem nú er ekki nema um eins árs skeið að bíða eftir, hvort eitthvað verður gert.

Mjer var kært að hlusta á ræðu hæstv. fjmrh. í kvöld, þar sem hann kvaðst ekki vera ánægður með yfirlýsing samverkamanns síns, hæstv. atvmrh., um að rjettast væri að hafna tilboðinu.

Hv. samþm. minn sagði, að sjer hefði verið kærast, að landið annaðist framkvæmdir á eigin spýtur. Það má vel vera, ef nokkur leið væri til þess, að hægt væri að hugsa sjer það. Sem stendur er engin von til þess. En æðimikil von finst mjer, ef við leitum á þessa leiðina.

Jeg er sammála hv. þm. (GunnS) og vil undirstrika það, sem hann sagði, að stjórnin ætti ekki skilið stuðning nokkurra þeirra manna, sem óánægðir eru sökum vanrækslu um samgöngubætur. En jeg vænti þess, að til þess komi ekki. Jeg vil leggja áherslu á, að samgöngurnar eru það, sem framleiðendur og búendur landsins eiga líf sitt undir, og ekkert horfir landbúnaðinum eins til hags og heilla sem umbætur á þeim.

*Ræðuhandr. óyfirlesið