16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3286 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg þarf ekki mörg orð að segja um þessar brtt., einkum þar sem háttv. flm. frv. hefir lýst yfir því, að hann geti vel fallist á þessar tillögur, og það jafnvel fremur en að frv. verði samþykt óbreytt. Þetta þykir mjer vænt um að heyra, því að fyrir okkur flm. brtt. hefir vakað það eitt, að hv. flm. frv. gæti náð þeim tilgangi, sem fyrir honum vakti með flutningi þess, að fá laxgönguna óhindraða. Jeg get og lýst yfir því fyrir hönd okkar flm., að við getum vel fallist á brtt. hv. þm. Mýr. á þskj. 434, við brtt. okkar, sem eru á þskj. 377, og jeg vona, að hv. deild afgreiði málið í þessari mynd, en ekki frv. sjálft eins og það nú er orðað. Jeg skal aðeins geta þess viðvíkjandi fyrsta liðnum í brtt. okkar, að kerið sje algerlega friðað fyrir allri veiði, að þá er sú breyting stíluð með ráðnum huga, af því að okkur hefir verið sagt, að þegar áin væri mjög lítil, þá gengi laxinn alls ekki lengra, en hjeldi þar kyrru fyrir, uns áin yxi. Nú er það ljóst, að með stangaveiði einni og þaulsætni við hana er hægt að stórspilla veiðinni, og á það allra síst við nú, þegar í ráði er að leggja mikið í kostnað við að gera ána laxgenga upp eftir, því að þá skilst mjer, að höfuðatriðið sje það, að sem allra minst sje veitt í ánni, svo að fiskigangan geti orðið sem mest. Þess ber og að gæta, að þessi friðun þarf ekki að standa lengi, heldur er mönnum óhætt að byrja þar stangaveiði bráðlega aftur, þegar áin er orðin fiskauðug, og þá er altaf hægt að gera breytingar á þessum lögum. Jeg vona, að háttv. deild samþ. brtt. á þskj. 377, með brtt. hv. þm. Mýr. á þskj. 434. Jeg held, að það vissulega sje með þannig lagaðri afgreiðslu á málinu best náð þeim tilgangi, sem hefir vakað fyrir hv. flm. þessa máls, og þeirra manna, sem óska eftir friðun á Nikulásarkeri.