16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Pjetur Ottesen:

Jeg vil aðeins benda á eitt atriði í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og sem líka gæti átt við um afgreiðslu annars máls, sem er hjer á dagskrá í dag.

Í frv., sem samþ. var hjer í dag um fiskiræktarfjelög, er fullkomin heimild til að gera það, sem hjer er farið fram á, og sömuleiðis það, sem talað er um í öðru frv., sem líka er á dagskrá í dag, um ófriðun sels í Ölfusá. Ef menn nú hafa trú á því, að slíkar samþyktir verði gerðar, þá finst mjer óþarfi að vera að samþ. lög á þessu þingi um alveg sama efni, og hafa þó heimild eftir öðrum lögum til að gera alveg hið sama. Mjer finst það einmitt vera mikill kostur við löggjöf, að geta innibundið mikið í einum og sömu lögum, þar sem því verður við komið. Jeg vil aðeins vekja athygli á þessu, því að jeg býst við, að það orki ekki tvímælis, að eftir 1. gr. frv. um fiskiræktarfjelög er alveg skýlaus heimild til að gera það, sem farið er fram á í báðum þessum frv.