13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla að byrja á að svara hæstv. fjmrh. Jeg varð nokkuð hissa á því, að hann taldi sig hafa ástæðu til að viðhafa hvöss orð út af því, sem jeg sagði. Jeg var að svara hæstv. forsrh., en ekki honum. Hæstv. ráðh. (MK) fór að tala um fjáraukalögin frá 1926. En þau hafa alls ekki þótt neitt athugaverð fyr á þessu þingi, að minsta kosti hefir enginn látið það í ljós fyr, að þau væru það. Þótt þau næmu hátt á aðra miljón kr., þá fór sú upphæð að mestu til nauðsynlegra verklegra framkvæmda. Í 13. gr. einni, framkvæmdagreininni, eru um 837 þús. kr. af þessari upphæð. Er einnig um fleiri verklegar framkvæmdir að ræða í öðrum greinum, svo jeg álít þetta alls ekki aðfinsluvert, þar sem lítill tekjuhalli varð, þótt fjeð væri notað til þessa. Hæstv. ráðherra sagði, að jeg hefði verið með hrakspár. En jeg var ekki með neinar hrakspár, þótt jeg segði, að ekki væri hægt að segja um, hver útgjöldin verða 1929. Það getur enginn sagt, og því var jeg heldur ekki með neinar hrakspár.

Þá spurði hæstv. ráðh. mig að því, hvers vegna jeg hefði ekki verið búinn að veita Titan sjerleyfið, áður en jeg ljet af stjórn. Jeg verð að svara því fyrst og fremst, að þá var stutt liðið frá því lögin öðluðust gildi, og svo var heldur ekki þá búið að biðja um sjerleyfið, svo af þeirri ástæðu var ekki hægt að veita það. En ef beiðnin hefði verið komin, þá hefði jeg vafalaust gert það. Annars hefi jeg enga löngun til að deila við hæstv. fjmrh., sjerstaklega vegna þess, að hann lýsti yfir því, að hann væri hlyntur því, að sjerleyfið væri veitt. Tel jeg það vera honum til sóma. Og þar sem jeg ætlaði aðallega að beina máli mínu að sjerleyfinu, þá mun jeg ekki svara honum frekar en nú hefi jeg gert.

Jeg mun þá snúa máli mínu til hæstv. forsrh. Má vera, að hann heyri mál mitt, þótt ekki sjáist hann hjer í deild. Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði um það, að minni hlutinn teldi sig enga ábyrgð bera á fjárl., þá voru það alls ekki mín orð, en hitt sagði jeg, að meiri hl. bæri auðvitað aðalábyrgðina á þeim. — Þá fór sami hæstv. ráðherra að tala um það, að jeg hefði haldið því fram, að hjer væri verið að leika sjónleik. En hann taldi, að þetta hefði alt verið náttúrlegt. Jú, vitanlega var það svo. Jeg hjelt því heldur ekki fram, að þetta hefði verið neitt yfirnáttúrlegt. En mjer kom þetta svona fyrir, þar sem hæstv. ráðh. kom með ræðu sína skrifaða á blaði. Hann þóttist hafa gert þetta vegna fyrirspurnar frá mjer fyr á þinginu, og taldi sig hafa búist við, að mín fyrirspurn yrði endurnýjuð nú. En jeg ætlaði nú samt ekki að gera það. Ekki af því, að jeg hefði gleymt þessu máli, heldur af því, að Klemens Jónsson hafði beðið mig að gera það ekki, þar sem hann bjóst við, að það mundi einungis spilla fyrir málinu. En jeg hafði áreiðanlega ekki gleymt því.

Hæstv. ráðh. sagði, að menn gætu fengið að sjá svör sjerfræðinganna, vegamálastjórans og Steingríms Jónssonar, í atvinnumálaráðuneytinu. Það er nú að vísu gott og blessað, en það er bara enginn tími til að athuga þau nú. En það vill svo vel til, að jeg hefi spurt þá báða um álit þeirra, og þeir hafa hvor um sig sagt mjer, að þeir hafi lagt til, að sjerleyfið verði veitt. Jeg vissi, að vansjeð var um álit Steingríms Jónssonar um þetta. Hann var á móti því í fyrra, að sjerleyfið væri veitt. En hann sagði mjer í gær, er jeg spurði hann að því, að hann hefði lagt til, að það væri veitt. — Hæstv. ráðh. sagði í vetur, að þegar álit hans væri komið, þá skyldi ekki standa á sjer með að gefa skýr svör í þessu máli. Jeg mun nú síðar í ræðu minni athuga, hversu skýr þau svör eru, sem hæstv. ráðh. hefir nú gefið. — Þá var hæstv. ráðh. að hæðast að mjer fyrir það, að jeg vildi veita sjerleyfið.

Hann orðaði það svo, að jeg mundi hafa komið á móti fjelaginu með útbreiddan faðminn. Já, jeg hefði veitt leyfið. Jeg hefi engar dulur á það dregið og skal því endurtaka það. Jeg játa það fúslega, að eftir þeim gögnum, sem nú liggja fyrir, hefði jeg óhikað veitt sjerleyfið. Ekki til að opna faðminn fyrir þessu fjelagi, heldur í þeirri trú, að það gæti orðið til framfara fyrir landið, ef skynsamleg skilyrði eru sett fyrir starfrækslunni, eins og allir ætlast til, að verði gert. Annars fór hæstv. forsrh. ekkert út í málið sjálft. Hann gerði ekkert annað en lesa með hraða þessa skrifuðu ræðu sína, sem átti að vera svar við þeirri fyrirspurn, er jeg gerði fyr í vetur. Hann sagði ekkert um það, hvort fje væri fyrir höndum eða ekki, en að því atriði mun jeg koma síðar.

Eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, þá lagði hæstv. ráðh. mikið upp úr áskorun þeirri, er hann hefir fengið frá þm. um að veita ekki sjerleyfið, nema fje sje fyrir höndum. Jeg veit ekki vel, hvað vakað hefir fyrir hv. þm. að koma fram með þessa áskorun. En ef nokkuð má af því marka, hverjir mennirnir eru, þar sem þessi ósk er m. a. borin fram af þeim þm., sem mestra hagsmuna eiga að gæta um þetta mál og hafa þess vegna stutt það mest hingað til, þá er erfitt að trúa því, að þessir menn hafi ætlað með þessu að leggja stein í götu þessa máls. Einn þessara hv. þm. hefir nú þegar tekið til máls og sagt, að ef undirskrift sín yrði skoðuð svo, sem hann hefði á nokkurn hátt viljað hefta framgang málsins, þá hefði hann verið blektur. Sú undirskriftin er þá að engu orðin. En eftir svari hæstv. ráðh. er það bert, að hann ber ekki annað fyrir sig en brjefið frá þessum þm. Það hefir því farið svo, að gagnstætt tilætlun þessara manna, þá hafa þeir þó veitt hæstv. forsrh. vopn á móti þessu máli, þar sem ráðherrann skilur það svo, að honum beri ekki að veita sjerleyfið, nema sönnur sjeu færðar á, að fje sje fyrir hendi. Jeg hlýt að viðurkenna, að þeir hafa lagt málið á hans vald, því í brjefinu stendur: „Svo framarlega, sem fjelagið færir sönnur á, að dómi landsstjórnarinnar“. Jeg get ekki neitað því, að hann hefir nokkuð fyrir sig að bera, ef sá skilningur er í þetta lagður, sem hann gerir sjálfur. Jeg verð að segja það, að mig undrar það, að þessir menn skuli telja rjett að gera svona harðar kröfur. Það væri þó áreiðanlega ávinningur, þótt ekki yrði meira af framkvæmdum en það, að byrjað yrði nokkuð á brautinni, t. d. að Geithálsi eða austur undir fjall, og það væri alveg hættulaust fyrir okkur, ef tryggilega er um það búið samkvæmt sjerleyfislögunum. Yfirlýsing 15 þm. + 5 þm., eða 20 þm. alls, um, að þeir heimti fulla vissu fyrir, að fje sje til áður en sjerleyfið verður veitt, sýnir það, að einhverjir hafa snúist í þessu máli frá því í fyrra. Auk þess skilst mjer, að 11 þm. aðrir hafi ýmist sent skrifleg mótmæli eða þá verið mótfallnir sjerleyfislögunum í fyrra. En ef þessir þm., sem skrifað hafa undir, hafa skift um skoðun síðan í fyrra, er þá ekki hugsanlegt líka, að einhverjir, sem móti voru í fyrra, hafi líka skift um skoðun, svo þeir sjeu nú með sjerleyfinu? Hefir hæstv. ráðh. fullvissað sig um það? (Forsrh. TrÞ: Jeg segi aðeins, að þarna í eru menn, sem greiddu atkv. móti lögunum í fyrra). Þetta er þá ekki ábyggilegt, því hinir hafa skift um skoðun, og þá geta þeir, sem atkv. greiddu móti í fyrra, líka hafa skift um skoðun. Þetta mál var þrautrætt í fyrra og þá gekk jeg altaf út frá því, að sjerleyfið væri veitt án þess að fje væri lagt fram áður. Get jeg þessu til sönnunar vitnað í B-deild Alþt. 1927; í ræðu minni þar stendur (með leyfi hæstv. forseta): „Þá mintist hann á, að hlutafje Titans mundi ekki nóg til þess, að hægt væri að byrja á því að virkja Urriðafoss, og virtist draga þetta út úr orðum hv. frsm. (KlJ). En um þetta hefir ekkert verið sagt, heldur hitt, að fengist sjerleyfi með þeim kjörum, sem forgöngumennirnir telja sig geta gengið að, þá mundi ganga betur að fá nægilegt fje til virkjunar. Hitt er vitanlegt, eins og þegar hefir verið tekið fram, að það er ekki meiningin að byggja út allan fossinn í einu, heldur smátt og smátt“.

Og í öðrum stað stendur:

„Jeg skal játa, að í þessu máli er eitt atriði veikt. Það er sem sje ekki hægt eins og á stendur að sanna, að fje verði til til framkvæmda verksins. Í þeim efnum get jeg ekki sagt meira en það, að mjer hafa verið sýnd brjef til fjelagsins Titans frá fjársterkum fjelögum, um að þau væru reiðubúin til þess að leggja fram fje, svo framarlega sem sjerleyfi fáist, sem að áliti fagmanna sje þannig útbúið, að óhætt sje að leggja fje í fyrirtækið“. — Á þessu sjest greinilega, að jeg hefi ávalt gert ráð fyrir því, að bæði skrefin væru stigin í þessu máli. Enda væri það vitleysa ein að stíga aðeins fyrra skrefið með samþykt sjerleyfislaganna, ef hið síðara, leyfisveitingin, væri ekki stigið líka, því við það eru allar þær vonir bundnar, sem menn hafa gert sjer um járnbrautina. Jeg vil þó ekki sýna hæstv. forsrh. svo mikla ósanngirni í þessu máli, að jeg ekki viðurkenni það, að hann á hjer erfiða aðstöðu, þar sem hann var á móti þessu máli í fyrra. En hann á þó sjálfur sök á því, hversu stór orð hann viðhafði þá. Hann kom þá með þá harðorðu samlíkingu, að þetta væri banabiti sjálfstæðis okkar, ef samþ. yrði. Það getur vitanlega enginn heimtað, að hæstv. ráðh. skifti um skoðun á þessu. En hitt ætti að mega heimta, að hann segði hreinskilnislega frá því, hvað hann ætlar sjer að gera. Ætlar hann algerlega að neita um sjerleyfið, eða ætlar hann að veita það, ef trygging er fyrir fjármagni? Það er þetta, sem jeg vil fá að vita. Jeg játa það, að fyrst í stað skildi jeg svar hans sem fullkomna neitun. En mjer skilst þó nú, við nánari athugun, að þetta álit mitt hafi verið vafasamt. Svar hæstv. ráðh. virðist vera nokkurskonar goðsvar, svo það sýnist ekki útilokað, að hann geti veitt leyfið. Það eru einkum orðin, sem hann hefir bætt inn í: „að svo vöxnu máli“, sem gefa ástæðu til að ætla það. En svo kemur annað á móti, sem veikir þessa von. Synjun hæstv. ráðherra er þannig orðuð (með leyfi hæstv. forseta): „Í framhaldi af því, sem nú hefir verið sagt, skal því þá lýst yfir, að þegar af þeirri ástæðu, sem nú hefir verið nefnd, mun jeg ekki telja rjett, að svo vöxnu máli, að gjalda jákvæði við þeirri beiðni, sem fossafjelagið Titan hefir sent um að fá sjerleyfi til þess að virkja Urriðafoss og leggja járnbraut frá Reykjavík til Þjórsár“. Það er því tvent í þessari setningu, sem sýnist ekki í samræmi hvað við annað. „Að svo vöxnu máli“, sem gefur nokkra von um, að sjerleyfið verði veitt, ef fjelagið leggur fram fje. En svo kemur hitt, „þegar af þeirri ástæðu“, sem aftur dregur úr þessari von. Eru þá fleiri ástæður fyrir synjuninni? En hvar eru þá hinar? Eða eru þær engar? Þetta þarf hæstv. ráðherra að skýra. Það er ekki nægilegt, þótt hann læsi upp þetta goðsvar sitt. Jeg óska þess, að hæstv. ráðherra gefi skýrt svar við því, hvað hann hugsar sjer að gera, ef fossafjelagið getur lagt fram peningana. Hann má engan bilbug láta á sjer finna um neitunina, nema hann ætli sjer að veita sjerleyfið, ef fjelagið leggur fram peningana. Annað er ekki sæmileg framkoma gagnvart því. En þessi orðaleikur hæstv. ráðh. bendir til annarar synjunarástæðu en hann nefnir í ræðunni. En aftur á móti orðin „að svo vöxnu máli“ geta þýtt nokkurskonar áskorun til fjelagsins um að fara nú að safna fje, svo hægt væri að veita sjerleyfið. Það er því rjett á litið hjá mjer, að þetta sje nokkurskonar goðsvar, er geti gilt á tvo vegu. Þá segir hæstv. forsrh. ennfremur, að það liggi ljóst fyrir af sjerleyfisbeiðni fossafjelagsins Titans, að fje sje ekki á reiðum höndum. En þess er alls ekki að vænta, að það hafi handbært fje fyr en búið er að veita sjerleyfið. Það má vitanlega deila um það, hvað talist geti að hafa fje á reiðum höndum. Jeg hefi haldið því fram og held því fram enn, að ekki sje hægt að búast við því, að fjeð verði innborgað fyr en sjerleyfið er komið í hendur fjelagsins. Fyr en sjerleyfið er veitt, geta peningamenn ekki lagt fram fje, meðan þeir ekki vita, með hvaða kjörum sjerleyfið verður fyrir þá. Þess vegna er það undarlegt að vera að setja hömlur við því, að leyfið sje veitt, þar sem við höfum alt að vinna, en engu að tapa, það er að segja frá mínu sjónarmiði og þeirra, sem málinu eru fylgjandi. Jeg verð að viðurkenna, að frá sjónarmiði hæstv. atvmrh. og eftir því, sem hann talaði í málinu í fyrra, þá er eðlilegt, að hans svar sje nú neitun.

Þá skal jeg taka það fram, að nú í fundarhljeinu hefi jeg sjeð og lesið þetta brjef, sem Klemens Jónsson hefir með höndum og hefir sýnt hæstv. ráðh. (TrÞ), og mig undrar það, að hann skuli ekki hafa sjeð sjer fært að byggja á því.

Brjefið er bæði úr þeim stað og svo ákveðið orðað, að það er óhætt að byggja á því. Það er eins og jeg tók fram í dag, skýrt tekið fram, að það er hægt að fá fjeð, ef sjerleyfið fæst. Hæstv. ráðh. hefir sjeð þetta brjef.

Jeg get ekki neitað því, að mjer sárnar talsvert mikið, að hæstv. ráðherra skuli nú hafa fengið vopnin í hendurnar gegn þessu máli. Jeg álít þetta eitthvert hið mesta framfaramál, sem nú er á döfinni hjá okkur, og mjer sárnar sjerstaklega, að þeir, sem studdu mig í fyrra í þessu máli, skuli nú hafa lagt til vopnin gegn því. Annars væri gaman að heyra frá fleirum, sem undir þessa áskorun hafa ritað, um það, hvern skilning þeir leggja í þetta nú, til dæmis hv. þm. Árn. Jeg á ákaflega erfitt með að trúa því, eftir fyrri aðstöðu þeirra til málsins að dæma, að þeir hafi gert þetta til þess að sjerleyfið yrði ekki veitt. En eftir því, sem málið nú er túlkað, hefir þetta verið notað til þess að rjettlæta neitunina.

Jeg skal viðurkenna, að fyrir mjer hefir það altaf verið aðalatriðið að fá járnbrautina austur, en hins vegar hefi jeg aldrei getað sjeð neina hættu samfara því að virkja einn einasta foss. Með því væri útlent fje lagt í fyrirtæki, sem ekki væri hægt að flytja burtu úr landinu aftur, mikið fje greitt landsmönnum fyrir vinnu og lagt í byggingar, sem ekki er hægt að taka burtu. Sjerleyfislög okkar eru líka þannig úr garði gerð, að okkar rjettur er mjög vel trygður. Hitt skil jeg vel, og er þess fullviss, að rafstöð þarna, ásamt járnbraut, mundi verða Suðurlandsundirlendinu til ómetanlegra framfara.

Jeg minnist þess í sambandi við þetta, að jeg átti í fyrra tal við forsrh. Dana, Madsen-Mygdal, og var hann að útskýra fyrir mjer, hvenær Norður-Sjálandi hefði farið mest fram, að það var þegar þeir fengu rafmagn frá Svíþjóð. Þeim hefir reynst rafmagnið hin besta undirstaða undir allar nýtísku búnaðarframfarir. Jeg get ekki sjeð neitt hættulegt við þetta. Jeg held þvert á móti, að það yrði til hinnar mestu blessunar fyrir þetta stærsta og ef til vill frjósamasta undirlendi landsins.

Mjer heyrðist hv. 1. þm. Rang. (EJ) vera að tala um eitthvert skjal, sem landbn. hefði undirskrifað. Jeg veit ekki, hvort það er þetta sama skjal, sem fyr er nefnt, en jeg geri ráð fyrir því. En þá þykir mjer landbn. þessarar deildar vera nokkuð hörð í garð landbúnaðarins íslenska, ef hægt er að nota yfirlýsingu frá henni gegn þessu máli. (Forsrh. TrÞ: Þetta er alger misskilningur. Jeg hefi ekkert skjal fengið frá landbn. út af þessu máli). Jeg hafði fyrir mjer orð hv. 1. þm. Rang., og vænti jeg, að hann leiðrjetti það, ef það er rangt skilið hjá mjer. (EJ: Þetta er rjett skilið hjá hv. þm. Jeg leit svo á, að þetta væri ritað af hálfu landbn.).

Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta, en jeg get ekki neitað því, að mjer sárnar meðferð þessa máls. Að lokum vil jeg skora á hæstv. ráðh. (TrÞ) að gefa nú ákveðin svör í þessu máli. Á svar hans, sem hann nú hefir gefið, að skiljast á þá leið, að hann ætli alls ekki að veita sjerleyfið, eða ætlar hann ef til vill að veita það, ef svo færi, að hann teldi, að Titan hefði sett tryggingu fyrir nægu fjármagni til framkvæmda?

Þetta er í rauninni aðalatriðið, og jeg óska að fá nú það svar, sem hæstv. ráðh. lofaði við 1. umr. Þá lofaði hann að gefa skýr svör síðar, en taldist undan því þá, vegna þess að ekki væri komið álit Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra.