16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3293 í B-deild Alþingistíðinda. (3111)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla ekki að fara út í langar umr. um þetta, en jeg þurfti ekki að fá neinar leiðbeiningar frá hv. 1. þm. Árn. um að það mætti bera fram brtt. við 1. gr. frv. við 3. umr. En það, sem jeg var að ræða um, var það, hvort rjett væri að banna algerlega alla veiði á þessum stað; jeg álít ekki meiri ástæðu til að banna stangaveiði þar heldur en hvar annarsstaðar í ánni. Jeg hefi talað við mann, sem lengi var prestur að Stafholti, og það, sem hann segir um veiði þarna, fer alveg í bága við það, sem hv. 1. þm. Árn. segir. Hann segir, að laxinn komist ekki upp þangað, nema því aðeins, að nokkuð mikið sje í ánni, en þá sje ekki hægt að veiða í kerinu, og það er venjulegast ekki hægt fyr en í lok júnímánaðar og út ágústmánuð.

Svo var hv. þm. að segja, að það væri ekki rjett hjá mjer, að ekki væri hægt að krefjast kersins aftur, en jeg er nú ekki viss um, að það sje hægt, þegar búið er að láta laxveiðafjelagið fá kerið með þessum lögum, — eða til hvers er verið að búa til þessi lög? Er það ekki til þess að gefa laxveiðafjelaginu rjettinn? (JörB: Það er ekki minst á laxveiðafjelagið í okkar till.). Það er a. m. k. nefnt í frv., og í brtt. hv. flm. er meira að segja kveðið svo á, að lög þessi skuli ekki koma til framkvæmda fyr en fjelagið sje löglega stofnað. Það er eingöngu vegna laxveiðafjelagsins, að þessi lög eru sett, en laxveiðafjelagið, það eru þeir menn, sem eiga veiði í ánni, og lögin sett til að, vernda þeirra rjett. Þess vegna er það, ef síðan á að fara að taka þennan rjett af laxveiðafjelaginu, þá er það ekkert annað en gabb við fjelagið. En hitt finst mjer vera rjettara, að fjelagið fái kerið til eignar með því að greiða matsverð þess, og andvirðið á svo að renna í prestlaunasjóð, eins og andvirði annara kirkjueigna. Og að minsta kosti er það svo — því getur hv. 1. þm. Árn. ekki neitað —, að ef þessi lög verða samþykt, þá er Nikulásarker orðið arðlaus eign fyrir hið opinbera. (JörB: Jeg sagði það). Já, hv. þm. vildi fóðra aðstöðu sína með því, að það væri hægt. að kippa að sjer hendinni þegar vildi, en jeg efast um það, þegar búið er að veita fjelaginu þann rjett, sem þessi lög veita því. Annars get jeg ekki verið samþykkur því, sem hv. þm. sagði, að ekki væri hægt að koma þessu máli í lag með því frv. um fiskiræktarfjelög, sem hjer liggur fyrir, ef það verður að lögum, því að jeg sje ekki annað en að í því frv. sje heimild til að greiða þann kostnað, sem af slíku leiðir.