16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3295 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Ólafur Thors:

Það er nú mikið búið að tala um þetta mál, ekki veigameira en það er. Eins og það liggur nú fyrir, álít jeg hentast, að það sje tekið af dagskrá, og mun jeg þá koma fram með brtt. um, að stangaveiði sje leyfð í kerinu, og þykist jeg vita, að hv. flm. frv. hefir ekki á móti því.

Annars hygg jeg, að það sje rjett, sem hv. þm. Borgf. hjelt fram, að frv. þetta sje óþarft, ef frv. um fiskiræktarfjelög á þskj. 295 nær fram að ganga. En hvað sem um það er, sje jeg ekki, að neinn nauður reki til að friða kerið fyrir stangaveiði. Sú veiði myndi á engan hátt spilla fyrir göngu laxins upp eftir ánni. — Já, hv. 1. þm. Árn. þarf ekki að afmynda sitt fríða andlit yfir þessu, því að jeg er fróður um þessi efni og hefi mikið um þau lesið. Það er alment viðurkent, að stangaveiði spilli á engan hátt fyrir laxgöngum, og tilgangur frv. myndi alveg eins nást, þótt leyfð væri stangaveiði. Það er nú svo, að um mál þetta hefir staðið styr mikill heima í hjeraði, og skal jeg ekki fara að leiða þær deilur inn í þessar umr., en það er áreiðanlegt, að sá aðilinn, sem nú á að lúta í lægra haldi, myndi sætta sig betur við úrslit málsins, ef leyfð yrði stangaveiði. Jeg legg því til, að málið verði tekið út af dagskrá að sinni. Vona jeg, að hv. flm. geti fallist á það, og skal jeg lýsa yfir því, að jeg er fús til að flytja með honum brtt. um friðun kersins, þar sem stangaveiði verði leyfð. Jeg get fallist á, að laxveiðafjelag þetta greiði gjald fyrir, því að ef nauðsynlegt er að friða kerið, þá er rjett, að sá, sem lætur þau hlunnindi í tje, fái endurgjald fyrir. Þar sem nú hagur ríkissjóðs er annarsvegar, en hagur allmargra bænda hinsvegar, þá læt jeg mig minna skifta, hvort gjaldið helst fram yfir næstu prestaskifti eða ekki, þótt mjer finnist það rökrjettara og eðlilegra.