16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3297 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg gleymdi að geta um brtt. á þskj. 339 viðvíkjandi brtt. á þskj. 377. Þar er gert ráð fyrir, að þeir, sem hingað til hafa veitt lax í ánni, greiði þessar bætur. En verði frv. að lögum, má búast við, að aðrir menn en þeir, sem hingað til hafa veitt lax, njóti þess fyrst og fremst. Brtt. á þskj. 339 hljóðar því um það, að þeir menn taki einnig þátt í greiðslu gjaldsins. Hygg jeg, að frv. muni verða vinsælla, ef sú breyting er á því gerð.

Þá vil jeg svara fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. um það, hvort laxveiðafjelagið sje stofnað eða ekki. Það má nú segja, að það sje bæði stofnað og ekki stofnað. Heima fyrir er það skoðað sem stofnað, en hinsvegar efast jeg um, að það sje svo gengið frá lögum þess og samþyktum, að það geti skoðast „juridisk persóna“. Hygg jeg, að það verði að auglýsa fjelagsnafn, stjórn og lög, áður en hægt er að skírskota til þess í löggjöfinni.

Viðvíkjandi þeim ummælum hv. þm. Borgf., að frv. þetta yrði óþarft, ef frv. um fiskiræktarfjelög næði fram að ganga, er það að segja, að fyrst og fremst er ekki vissa fyrir því, að það frv. verði samþ., og í öðru lagi er það ekki fyllilega ljóst, hve langt er hægt að ganga í þeim ákvæðum, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Ekki spillir það heldur að neinu leyti fyrir því frv., þótt þetta frv. verði að lögum. Annars ætla jeg ekki að deila um málið. Það gleður mig, að allir virðast sammála um, að frv. eigi fram að ganga í höfuðdráttum, og skiftir þá minna máli um aukaatriði.