15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

66. mál, slysatryggingar

Frsm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Allshn. hefir gert sameiginlegt álit um frv. Er það þó ekki af því, að allir nefndarmenn líti á það sömu augum, en með því móti að gera á því ýmsar breytingar, hefir fengist samkomulag í nefndinni um að mæla með því. skal jeg stuttlega geta helstu breytinganna.

Nefndin er sammála um það ákvæði frv., að allir bílstjórar skuli vera tryggingarskyldir, en ekki einungis, eins og nú er, þegar þeir vinna við vöruflutninga að og frá skipum. Samkv. frv. verða þeir tryggingarskyldir, hvort sem þeir hafa með höndum vöruflutninga eða fólksflutninga. Þetta ákvæði er í 1. gr.

Nefndin hefir gert brtt. við 2. og 3. gr. frv. um upphæð bóta vegna slysa eða dauða. Dánarbætur eru samkv. gildandi lögum 2000 kr., og auk þeirra 200 kr. til hvers hjónabandsbarns. Eftir frv. áttu þær að færast upp í 5000 kr. og 500 kr. til barna. Þótti meiri hl. nefndarinnar að vísu nauðsyn bera til að hækka bæturnar, en vildi þó ekki ganga að svo mikilli hækkun sem frv. fór fram á. Varð þó samkomulag um allverulega hækkun, að dánarbætur skyldu færast upp í 3000 kr. og 300 kr. til hvers hjónabandsbarns, en börn utan hjónabands fá 600 kr., í stað 1000 kr. í frv. og 400 kr. í gildandi lögum.

Þá er brtt. um örorkubætur. Þær hafa verið 4000 kr., ef sá, sem fyrir slysinu varð, er ófær til vinnu æfilangt. Í frv. er farið fram á 8000 kr. Nefndin hefir farið bil beggja, milli laganna og frv., og komið sjer saman um 6000 kr. Þá var í frv. farið fram á að stytta þann tíma, sem menn verða að þola meiðsli bótalaus, úr 4 vikum niður í 1 viku. En eftir að hafa leitað álits um þetta atriði hjá stjórn slysatryggingarinnar, leggur nefndin til, að ákvæði laganna standi óbreytt. Taldi stjórn slysatryggingarinnar, að erfitt mundi að hafa eftirlit með, hver meiðsli rjettlátt væri að bæta, ef þeir, sem fyrir þeim yrðu, ættu kröfu til bóta áður en mánuður væri liðinn. Í frv. var lagt til að fella niður þóknun lögreglustjóra og hreppstjóra fyrir innheimtu á iðgjöldum slysatryggingarinnar. Þessi þóknun hefir numið um 8000 kr. árlega samkvæmt reikningum slysatryggingarinnar. Nefndin hefir sömuleiðis leitað álits stjórnar slysatryggingarinnar um þetta, og eftir að hafa fengið það, leggur hún til, að ákvæði laganna sje óbreytt. Telur stj. slysatryggingarinnar sanngjarnt, að innheimtumenn fái þessa þóknun, með því að innheimtan veldur þeim talsverðri fyrirhöfn. Er hún að vísu minst í Reykjavík, en áhættan er aftur á móti meiri hjer í bæ en annarsstaðar.

Þá vil jeg geta þess, að fyrir nefndinni lá erindi frá Fiskifjelagsdeild Dýrafjarðar, og hafði það verið sent hv. þm. V.-Ísf. Þar vestra hefir verið gert mikið að því undanfarið að setja litlar mótorvjelar í róðrarbáta, eins og víðast annarsstaðar við sjóinn. Í erindi þessu er farið fram á það, að þessir bátar njóti sömu kjara og róðrarbátar. Virðist nefndinni aðstaða róðrarbáta og opinna vjelbáta svo svipuð, að sanngjarnt sje, að þeir fái sama styrk úr ríkissjóði til slysatrygginga. En róðrarbátar hafa fengið 3/10 iðgjaldsins. Leggur nefndin til, að sömu ákvæði gildi um vjelbáta undir 5 tonnum. En hingað til hefir ríkissjóður aðeins greitt fyrir þá 2/10 iðgjaldsins.

Stjórn Slysavarnafjelagsins hefir farið fram á, að sett yrðu ákvæði um, að lögreglustjóra sje skylt að láta fara fram rannsókn í hvert sinn, eftir að slys hefir orðið, ef hann álítur, að það muni veita rjett til bóta. Hefir nefndin fallist á þetta og bætt ákvæði um það inn í 12. gr. Í þessu sambandi leyfi jeg mjer að benda á það, að af óaðgæslu hafa fallið niður 2 orð í 5. brtt. nefndarinnar. Þar stendur: „Síðasti málsliður 12. gr. laganna orðist svo“, en á að standa: Síðasti málsliður fyrri málsgreinar 12. gr. laganna orðist svo —, og vænti jeg, að þetta verði leiðrjett af skrifstofu Alþingis.

Loks hefir nefndin bætt við nýrri grein um það, að lögin skuli ekki ganga í gildi fyr en 1. jan. 1929. Í frv. var ekkert tekið fram um þetta, og mundu þau því hafa gengið í gildi um mitt sumar, ef ekki væri bætt við þessu ákvæði. En að ýmsu leyti þykir heppilegra, að þau gangi í gildi um áramót, m. a. af því, að um það leyti eru iðgjöldin greidd.

Nú kunna menn að spyrja, hvort breytingar þær, sem jeg hefi nú talað um, muni ekki hafa í för með sjer hækkun iðgjaldanna. Nefndin gerir ráð fyrir því. Að vísu á Sjómannatryggingin nú um 300 þús. kr. í sjóði, en það verður tæpast talið nema hæfilegur varasjóður. Iðntryggingin hefir lagt til hliðar ¼, af iðgjöldum sínum þessi 2 ár, sem hún hefir starfað, en það er heldur ekki meira en nefndin álítur hæfilegt. Afleiðing hækkananna verður því óhjákvæmilega sú, að þeir, sem iðgjöldin greiða, en það eru að mestu leyti atvinnurekendur, verði að leggja á sig nokkru þyngri byrðar en áður. En nefndin telur, að ekki verði hjá því komist. Er þó enn fullskamt gengið í því að bæta mönnum örkuml sín og dauða vandamanna sinna, og má því ekki horfa í, þó að eitthvað þurfi á sig að leggja til þess, að það geti orðið.

Jeg skal geta þess, að jeg hefði sjálfur kosið, að hægt hefði verið að ganga lengra í ýmsum atriðum en nefndin hefir sjeð sjer fært. En jeg sætti mig þó við það samkomulag, sem orðið er, og vona, að frv. verði samþ. umræðulaust, úr því að samkomulag fjekst í nefndinni.