26.01.1928
Neðri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3324 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jón Ólafsson:

Jeg hefi mótmælt því, að þörf væri á lögum um þetta efni, enda var svo, að áður en þau gengu í gildi, var svipaður hvíldartími og sá, er lögin ákveða, orðinn venja. Lögin hafa því ekkert gagn gert. Það liggur líka í augum uppi, að svo mikið samstarf og skilningur hlýtur að vera milli skipstjóra og háseta, að skipverjum myndi ekki misboðið, þó vel væri unnið með köflum. Ástandið er nú það, að nauðsyn atvinnuvegarins heimtar það, að vel sje unnið, þegar færi býðst, og að hver og einn leggi sig þá fram af fremsta megni. Svo hefir það verið frá upphafi vega sinna, og er öllum fyrir bestu. Lögin um þetta efni má því segja, að hafi verið meinlaus, en ekkert gagn gert.

En svo kom aðalatriðið. Hann hjelt, að jeg hefði, eða gæti, auðgast á þessu. Þar sprakk nú blaðran. En jeg get fullvissað hann um, að jeg hefi ekki grætt neinn auð á þessum mönnum. En jeg hefi frá því fyrsta átt minn þátt í að skapa þennan atvinnuveg. Það er því tilgangslaust að slá því fram. En ræða hv. 4. þm. Reykv. bendir einmitt til þess, að hann hafi sjálfur borið of mikið úr býtum frá þessari stjett. Hv. þm. segist sjálfur hafa verið á togara, og þykist því vera dómbær í þessu máli. En það er nú eins og það er virt. Ef menn leggja sig aðeins eftir einni hlið málsins, t. d. að þeirri hlið að eiga sem hægast og fá sem mesta hvíld, þá er ekki víst, að þeir verði dómbærari en aðrir um starfið, nje þekkingin komi að tilætluðum notum.

Þá talaði hann um, að jeg væri með harmagrát fyrir hönd útgerðarmanna. Jeg mun nú oftast hafa borið með rósemd erfiðleika þá, sem útgerðinni hafa fylgt á liðnum árum. En jeg vil benda honum á það, að hin tíðu eigendaskifti og afföllin, sem hafa orðið á framlögðu hlutafje, tala sínu máli um það, að útgerðin hefir ekki ávalt verið rekin með hagnaði. Um það er nú máske ekki svo mikið að segja, þótt framlagt fje hafi tapast. Það hefir þá t. d. gengið til greiðslu á of háu kaupi og verkamenn þá notið þess, þótt þeir ættu vitanlega enga heimtingu á því fje, sem Pjetur og Páll hafa lagt í útgerðina.

Þá var það um manninn, sem jeg tók sem dæmi um endingu manna. Áður en hann varð háseti á togara, hafði hann um mörg ár verið á þilskipi. En á þilskipunum lögðu þeir menn miklu meira á sig, sem nokkurt kapp var í.

Þótt þeir menn, sem byrjuðu að vinna á togurunum fyrir 20 árum, sjeu margir horfnir frá því starfi, þá er það, sem betur fer, í mörgum tilfellum svo, að þeir menn, sem farið hafa vel með sitt aflafje, eru orðnir svo vel efnalega sjálfstæðir, að þeir þurfa ekki lengur að vinna harðari vinnu. Þeir hafa hjálpað til að byggja bæinn og vinna nú að hinni og annari ljettari vinnu hjer í bænum, sem þeir lifa af, ásamt eignum sínum.

Það er að vísu satt, að togararnir eru oft 13–14 daga úti í hverjum túr. En þar með er ekki sagt, að hver túr gefi svo marga vinnufæra daga. Venjan mun vera sú, að í slíkum túr sjeu ekki nema 9–10 fiskidagar. Og ef meðaltalið væri tekið, þá hygg jeg, að fiskidagarnir mundu ekki vera meira en 9, jafnvel færri, af hverjum 14 dögum.

Þá talaði sami hv. þm. um heilbrigði mannlegs líkama og að honum þyrfti að hlífa. Það er nú sjálfsagt gott, að slíta honum ekki um skör fram. En þegar hugsunarhátturinn verður sá, að hlífa honum sem mest, þá verður heldur ekki mikið gert. Atorkumennirnir um land alt, sem lifað hafa heilbrigðustu lífi, hafa ekki sparað líkama sinn. Jeg vona, að þó ýmsum þyki þægilegt að prjedika um hægðina, þá finnist hjer enginn akur fyrir það sæði, sem felst í frv. þessu.