26.01.1928
Neðri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3328 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jón Ólafsson:

Það var leiðinlegt að ræða hv. þm. Ísaf. kom ekki fram fyr en jeg var dauður. Að vísu er ekki miklu að svara þeirri ræðu, því að það var eins og hv. þm. hefði ekki hugmynd um, að neins þyrfti að gæta nema að hafa nógan hvíldartíma. Það er hans áhugamál. En svo fór hann að rangfæra orð mín. Þar sem jeg sagði, að jeg sæi ekki fram úr því, sem á eftir kynni að fara, þá átti jeg við margt, t. d. sölu á sjávarafurðum o. fl. Sami hv. þm. mintist á það, að takmarkaður væri vinnutími í verksmiðjum. En þar er ólíku saman jafnað, því þar er um innivinnu að ræða, sem oft er óholl. En þetta er útivinna. Auk þess fá hásetarnir miklu meira en 6 tíma svefn til jafnaðar. Það er og hefir verið venja sjómannsins að vaka með köflum og sofa mikið á milli. Óstöðugleiki tíðarinnar gerir það nauðsynlegt.

Það eru ekki sjómennirnir sjálfir, sem heimta meira eftirlit, heldur eru það aðrir, sem eru að ala upp í þeim þennan anda.

Hvað fjárhagshliðinni viðvíkur, þá er það ofureinfalt reikningsdæmi, hverju þarf við að bæta, ef starfstíminn er styttur um tvo tíma og gengið er út frá því, sem þeir halda fram, að nú sje þörf fyrir alla þá krafta, er þeir hafa. Þá leiðir af sjálfu sjer, að fjölga verður mönnum. En jeg verð að segja það, að ef sjómenn hafa 6 tíma skyldusvefn, þá hafa þeir að jafnaði miklu lengri svefntíma yfir hverja ferð.

Já, það var ekki nema stutt aths., sem jeg mátti gera. Hvað snertir þá fjármálalegu hagsýni, þá er auðvitað víða þörf á henni, en það er aðeins eftir að vita, hvert á að snúa sjer til umbóta í því efni, á hvaða sviði sem um er að ræða.