25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3329 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á, Ólafsson):

Frv. þetta hefir nú legið alllengi hjá sjútvn., eins og sjá má á nál. okkar meiri hl., sem dagsett er 14. febr., en hv. minni hl. skilar ekki áliti sínu fyr en nú fyrir fjórum dögum.

Eins og nál. á þskj. 180 ber með sjer, leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. óbreytt, enda telur meiri hl., að hjer sje um svo sjálfsagða rjettarbót að ræða, að móti henni verði ekki staðið.

Með lögunum frá 1921 um hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum hefir það sýnt sig, að sú rjettarbót, sem þá var upp tekin, hefir komið að allgóðu haldi, ekki aðeins fyrir hásetana sjálfa, heldur og líka fyrir útgerðarmenn. Meiri hl. er það fyllilega ljóst, að 18 stunda vinnutíminn nú er of langur og telur fulla þörf á að lögbjóða 8 stunda hvíldartíma á þessum skipum. Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á, að þau andmæli, sem komið hafa fram gegn frumvarpinu, sjeu harla veigalítil; það eru hin sömu andmæli og 1921 og sama rökfærsla af hendi sjómanna nú sem þá, og þar sem Alþingi bar giftu til að taka umsögn sjómanna trúanlega 1921, vænti jeg fyrir þeirra hönd, að svo muni enn fara. Meiri hl. lítur svo á, að kröfur sjómanna um aukinn hvíldartíma á botnvörpuskipum sjeu þannig vaxnar, að Alþingi beri skylda til að taka þær til greina. Þetta er í stuttu máli það, sem jeg hefi að segja fyrir hönd okkar þriggja, sem skrifað höfum undir nál. á þskj. 180.

Þó vil jeg ekki skilja svo við þetta mál, að jeg segi ekki dálítið fleira, og verður það þá aðallega um álit hv. minni hl. Hann hefir skilað alllöngu nál., eins og þskj. 263 ber með sjer, enda haft langan tíma til afgreiðslu málsins, eins og jeg drap á í upphafi ræðu minnar. En það verð jeg að segja, að hissa varð jeg, þegar jeg sá þetta nál., sem jeg hygg, að sje skrifað og samið af hv. 2. þm. G.-K., því að frá hans hendi hafði jeg þó búist við, að flutt mundu þau rök gegn frv., sem ekki yrðu á augnabliki tætt í sundur eins og fífukveikur.

Jeg skal þá byrja á að svara nokkru af staðleysum þeim, sem í nál. standa. Þar segir meðal annars: „Það er alkunna, að útgerðin stendur nú svo höllum fæti, að mjög varhugavert verður að teljast að leggja á hana nýja bagga“. Þetta er nú eitt af rökunum, sem tilfærð voru í fyrra gegn sama frv. þá, og nú endurprentuð í nál. Það liggja nú náttúrlega engar skýrslur fyrir um þetta nje önnur gögn, er sanni nokkuð í þessu efni, enda býst jeg við, að hvorki hv. 2. þm. G.-K. nje aðrir úr hans flokki komi með þær skýrslur, sem nokkuð sje byggjandi á. En jeg ætla aðeins í þessu sambandi að benda á skýrslu, sem nýlega er birt í „Ægi“ um þann hluta veiðitímans, sem ísfiskveiðar eru stundaðar. Í þeirri skýrslu er sagt, að ísl. togarar hafi á síðustu vertíð farið 159 ferðir til Bretlands og selt fyrir 1144 sterlingspund að meðaltali í hverri ferð. Nú hefi jeg fengið upplýsingar um, frá mjög kunnugum mönnum, að á yfirstandandi tímum, með því verði, sem ætla má, að hver ferð kosti, þá muni yfirleitt fullreiknað, að hver ferð kosti um 800 sterlingspund, en það er í ísl. mynt 17200 kr. og ágóðinn þá af hverri ferð 7620 kr. Þó skal jeg geta þess um leið, að þetta er ekki nema nokkur hluti veiðitímans, sem að jafnaði nær yfir helming ársins. Um saltfiskveiðarnar hafa menn ekki neitt ábyggilegt til þess að festa hendur á nema lifrarfötin. En það vita allir, að árið 1927 var eitt með allra bestu aflaárum, sem komið hafa lengi, og verðið, sem fjekst fyrir fiskinn, hækkandi eftir því sem á árið leið. Af þessu þykist jeg mega draga þá ályktun, að togaraútgerðin standi ekki jafnhöllum fæti og látið er í veðri vaka í nál. minni hl.

Þá vill hv. minni hl. halda því fram, að aukinn hvíldartími heimti fleiri menn til vinnu á skipin, en þetta stefni að því að koma togaraútgerðinni á knje. En það hefir verið margsýnt og sannað, bæði fyr og síðar, að þessi rökfærsla hans hefir við lítið að styðjast. Aukinn hvíldartími heimtar alls ekki fleiri menn en áður, t. d. á saltfiskveiðum. Skipshöfnin á togurum á saltfiskveiðum er um 30 manns að meðaltali. Að vísu segir í nál. minni hl., að mennirnir sjeu 32, og kann svo að vera á einstaka skipum, en þá færri á öðrum, svo að meðaltalið verður um 30 menn, og þannig er það nú.

Í nál. minni hl. segir, að lögin nái til 32 manna og að vinnustyttingin á dag jafngildi 4 manna vinnu, sem þá yrði að auka við. En þetta er kórvilla, eins og nú skal sýnt.

Nú ganga frá tveir vjelstjórar. 2 kyndarar, 2 matsveinar, loftskeytamaður, skipstjóri og í mörgum tilfellum stýrimaðurinn, en þetta eru samtals 9 menn, svo að eftir eru þá aðeins 21 maður, sem segja má um, að lögin nái til. Vökuskiftin verða því þau, að með þrískiftri vöku verða 15 menn í einu á verði, en með fjórskiftri vöku 14 menn, svo að þarna gæti þá verið um einn mann að ræða, sem bæta þyrfti við vegna hvíldaraukans.

Nú höfum við haldið því fram, að með hvíldaraukanum verði afkastað meiri vinnu þann tíma, sem unnið er, ef unnið er tveimur tímum skemur. Virðist flestum, sem sanngjarnlega líta á það mál, að 16 tíma óslitin vinna sje nægilega langur tími, ef menn eiga að vinna með fullu fjöri, og betur muni unnið á 16 en 18 tímum. Það er því argasta fjarstæða að segja, að aukinn hvíldartími þýði sama sem fjölgun manna, og ekki borið fram til annars en að villa ókunnugum mönnum sýn.

Þá segir sami hv. þm., hv. 2. þm. G.K., — því að honum verð jeg að eigna nál. minni hl. —, að hvíldaraukinn þýði kauplækkun háseta; en hjer getur ekki verið um neina kauplækkun að ræða, aðra en þá, sem kæmi fram í því, ef lifrarpeningarnir skiftust milli fleiri manna en nú. En þá er aðgætandi, að togararnir eru yfirleitt svo mannaðir nú, að ekki er leyfilegt að bæta á þá fleiri mönnum samkv. því fólksrými, er þeir hafa.

Þá verð jeg að víkja lítilsháttar að ísfiskiveiðunum, en þær standa vanalega yfir um 6–7 mánuði. Nú á tveim síðustu árunum hefir skipshafnarfjöldi togaranna á ísfiskveiðum verið um 19–20 menn, sem þýðir, að þann tíma eru það 13 menn, sem lögin ná til. Þar eru það þá 8 menn, sem eru við vinnu með þrískiftri vöku, en á fjórskiftri 9 menn, og ber það að sama brunni og með saltfiskveiðarnar, að hvíldaraukinn gæti aldrei kostað nema einn mann í viðbót þann tíma, sem veitt er í ís, svo jafnmiklu yrði afkastað og áður. En nú vil jeg minna á, að öll sú sparsemi, sem fram hefir komið hjá útgerðarmönnum, hefir verið sú, að reyna að fækka mönnum á ísfiskveiðum, og þess vegna hefir vinnan verið svo hörð og síst betri en þann tímann, sem veitt er í salt. Það þarf fleira að vinna en að fara innan í fisk og láta hann niður í lest. Menn eru látnir setja saman net og útbúa nýjar vörpur, stanga saman víra o. s. frv., gera við veiðarfæri, bæta net o. fl. Við þetta er meiri vinna á ísl. skipum en alment gerist á útlendum. Þetta er ekki besta vinnan. Síðan hvíldartíminn var aukinn og ekkert var handa mönnum að gera þann tíma, sem menn eiga að vera á verði, eru þeir látnir fara að hirða karfa og þess háttar. Sjerstaklega var rætt um þetta atriði við síðustu samninga milli háseta og útgerðarmanna.

Þá segir í nál., að það sje óbærilegt fyrir útgerðina að borga þessum 4 mönnum — en sem jeg hefi sannað, að ekki er nema 1 maður — 1200 krónur á mánuði, sem honum reiknast til, að aukning hvíldartímans muni kosta. Við athugun á því, hvaða kaup þeir menn hafa, sem ísfisksveiðar stunda, þá kemur annað út. Það mun láta nærri, að veiðitíminn sje sex mánuðir og kaup hvers manns 197 kr. á mánuði, eða 1182 kr. yfir allan tímann, en þar við bætast fæðispeningar, sem reikna má kr. 2,50 á dag, þ. e. 75 kr. á mánuði eða 450 kr. yfir tímann. Það, sem hver maður kostar útgerðina í þessa sex mánuði, eru 1632 kr. Væri nú bætt einum manni við, má segja það, samanborið við dæmið, sem jeg tók áðan um hagnað útgerðarinnar af ísfisksveiðum, að það sje ekki nema örlítið brot af þeim mikla hagnaði, er gengi til þess að launa einn mann. Þess vegna skil jeg ekki, að háttv. 2. þm. G.-K. geti með neinum rökum haldið því fram, að hvíldarauki sá, sem hjer er um að ræða, muni koma útgerðinni á knje, enda sjest það betur, þegar nál. hans er lesið ofan í kjölinn, að honum virðist erfitt að færa full rök fyrir þessu. Hann viðurkennir óbeinlínis, að hvíldaraukinn sje nauðsynlegur, þótt hann hinsvegar telji fara betur á því að halda því gagnstæða fram.

Annars ætla jeg í þessu sambandi að segja frá smásögu, sem mjer hefir verið sögð eftir góðum heimildum. Það var einhverju sinni nú fyrir skömmu, að hv. 2. þm. G.-K. gerði sjer ferð um borð í eitt af skipum sínum til þess að komast eftir því hjá hásetum, hvað þeir segðu um 18 stunda vinnutímann. Sagan segir, að þegar hann hafi komið út í skipið, hafi hann hitt tvo unga menn og spurt þá um álit þeirra í þessu efni. Og það stóð ekki á svörum þessara ungu manna. Þeir svöruðu skýrt og ákveðið, að á skipunum væri ekki verandi nema hvíldartíminn sje aukinn. Og sömu svör mundi hann fá annarsstaðar, ef hann hjeldi áfram að spyrja hásetana.

Annars er það vitanlegt, að andúðin gegn auknum hvíldartíma er ekki síður komin frá togaraskipstjórunum en útgerðarstjórum. Það er vegna stærilætis skipstjóranna, að þeir þola ekki, að verið sje að blanda sjer í þessi mál. Þeir eru vinnuharðir, sumir hverjir að minsta kosti, en vilja ekki kannast við það, að vinnutíminn sje of langur, þrátt fyrir það, þó að það sje margbúið að sýna sig, að 6 stunda lögboðinn hvíldartími hafi orðið til mikilla bóta; en það viðurkenna þeir allir nú orðið. Margt bendir til þess, að varhugavert sje að fara eftir till. þeirra í þessu efni. Á bak við tillögur þeirra standa ýms öfl; vil jeg því ekki skoða þá dómbærustu mennina um þetta mál.

Þá kem jeg nú að þessari gömlu fjarstæðu, er ennþá stingur upp höfðinu í nál. háttv. 2. þm. G.-K., að farið hafi verið að beita þessum 6 stunda hvíldartíma áður en vökulögin 1921 gengu í gildi. En sannleikurinn er sá, að fyrir 1921 þektust aðeins örfá dæmi, þar sem einstaka skipstjóri leyfði mönnum að hvílast eftir 30 stunda óslitna harða vöku og strit, og finst mjer slíkt á engan veg þakkarvert.

Þá er mikið gert úr því, að frátafir sjeu miklar vegna óveðra og annara atvika, og slíkt skapi aukinn hvíldartíma fyrir háseta. En óþarft er að gera mikið úr því. Jeg skal að vísu játa, að í janúar- og febrúarmánuði nú undanfarið hafa verið óvenjumiklir stormar og aflatregða, en þá leggja menn minna kapp á að halda fast úti við veiðarnar heldur en ef um góð aflabrögð er að ræða. Slíkt getur komið fyrir, en enginn má ætla, að sú hvíld, sem mönnum kann að hlotnast á þann hátt, geri þá nokkru hæfari til að þola harða 18 tíma vinnu í sólarhring, þegar stórviðri linnir og aflabrögð aukast. Annars eru þessar hvíldir fremur fátíðar orðnar, og sjerstaklega á saltfisksveiðum. Um hvíldir þær, sem skipverjar fá á ísfisksveiðum, hafi jeg rætt við 1. umr. málsins. En samkv. því, sem jeg hefi upplýst áður, þá skiftir það litlu máli, þótt einum manni sje fjölgað við ísfisksveiðar; það er einungis eins og dropi í hafinu, miðað við annan útgerðarkostnað.

Hv. 2. þm. G.-K. hneykslast á því, hve nál. meiri hl. er stutt og að í því sjeu engar upplýsingar um afstöðu sjómannanna til þessa máls. Jeg skil þetta ekki, vegna þess að það er vitanlegt, að afstaða sjómanna til málsins er alveg hin sama og í fyrra. En þá lágu fyrir undirskriftir á sjötta hundrað sjómanna, og það er alveg víst, að þeirra afstaða er óbreytt enn þann dag í dag. Þeir menn, sem á sjó eru mestan hluta ársins, hugsa yfirleitt ekki mikið um landsmál, en flestir sjómenn, sem jeg hefi hitt, hafa einmitt sjerstaklega spurt mig um þetta mál. Og jeg hygg, að það sje óhætt að fullyrða, að það sje vakandi áhugi meðal allra sjómanna fyrir þessu máli.

Það má vel vera, að jeg hafi gleymt að hrekja öll þau atriði, sem hv. andstæðingar þessa máls hafa tínt til máli sínu til sönnunar, en jeg get geymt mjer það til 3. umr. Jeg hygg, að þetta mál liggi mjög ljóst fyrir. Útgerðin er nú rekin eins og verksmiðja alt árið um kring, þegar unt er. Þegar fiskur bregst, þá er gripið til síldveiða. Á síldveiðum er ekki lögfestur hvíldartími, og ber öllum saman um, að verri þrældóms en viðgekst við síldveiðarnar í sumar, sjerstaklega á skipum Kveldúlfs, viti þeir ekki dæmi. Því að það mun hafa verið aðeins undantekning, ef hásetar hafa fengið meira en 4 tíma hvíld á sólarhring, meðan björt nótt var í sumar. En það liggur ekki fyrir nú að lögfesta hvíldartíma við síldveiðar.

Jeg hefi nú sýnt fram á það, að hjer er um sjálfsagða rjettarvernd að ræða og að það er beinn hagur útgerðarmönnum, að sjómenn slitni ekki svo út, að þeir verði að hætta starfi sínu fyrir örlög fram. Og það er að komast inn í meðvitund manna, að það beri að vernda mannsorkuna og megi ekki líta á mannslíkamann sem vjel, sem fara megi með eins og hverjum líkar og ofbjóða með látlausri vinnu. Þessi krafa er nú orðin mjög hávær, og það er sannað, að hún er öllum til góðs, bæði þeim, sem vinna á skipunum, og útgerðarmönnum sjálfum engu síður.

Jeg get svo látið þetta nægja og lofað hv. frsm. minni hl. að komast að í bili.